18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

16. mál, fjárlög 1946

Gísli Sveinsson:

Hv. fjvn. hefur nú tekið upp það, sem af vangá féll niður í fyrri till. n., með till., sem samvn. samgm. stóð að og fjvn. tók áður til meðferðar í heild og nú bæri að samþ. inn í fjárl. Þetta, um flóabátaferðir, er undir 6. lið á þskj. 352. Eins og hv. frsm. (GJ) gat um, er þar 853.150 kr. upphæð í staðinn fyrir, að í fjárlfrv. stendur 500 þús. kr., og vil ég láta þess getið, að sú upphæð, 500 þús. kr., var þannig tilkomin, að ég hygg, að í stjórnarráðinu hafi þótt hagkvæmt að setja upphæð þessa, eins og aðrar, niður um skör fram, því að það er alveg gefið, að öllum, sem þekktu til málsins, hefði aldrei getað dottið í hug, að hún yrði minni en fyrir ári, en þá var upphæðin um 800 þús. kr., m. ö. o., 500 þús. kr. eru settar fram út í bláinn af ókunnugleika vægast sagt. Þetta er sérstaklega lítil hækkun, eins og þeir þm. vita, sem kunna skil á þessu, en varð þó að vera nokkur, sem stafar af þeim uppbótum, sem verður að greiða á árinu í styrki til vélakaupa í farkostina. Þetta er því komið á réttan rekspöl. — Að öðru leyti ætla ég ekki að gera að umtalsefni brtt. fjvn. Ég mun, eins og sjálfsagt flestir hv. þm., láta nægja að lýsa velþóknun minni eða vanþóknun á brtt. fjvn., enda býst ég við, að í fjvn. hafi eins og fyrri daginn verið mjög skiptar skoðanir um þessar till., enda hlýtur það alltaf að vera svo, að margt orki mjög tvímælis, því að nm. eru jafnan ekki svo samstæðir, þó að það kæmi ekki fram, og það þarf ekki að koma fram fyrr en við atkvgr. Þó að nafn mitt sé að vísu aðeins tengt við tvær till., mun ég ekki gera að umtalsefni brtt. á þskj. 362 XI. Aðrir munu mæla fyrir þeim liðum, en þeir eru um brúargerðir. En það er brtt. á sama þskj., X, sem ég vildi minnast á. Það er brtt., sem ég hef borið fram um, að tekin sé upp í brúarlög brú á Skaftá undan Heiði á Síðu, og að til hennar verði nú veittar 60 þús. kr. í fjárl. Eins og hv. þm. e. t. v. rekur minni til, þá flutti ég í fyrra hér í Sþ. till. til þál. um brúargerð á þessum stað. Þessi till. er á þskj. 90, og eru þar færð svo fullkomin rök fyrir nauðsyn þessa máls, að ég hygg, að enginn bæti þar um, hvorki ég né aðrir. Þessari till. var vísað til fjvn., en n. hefur ekki haft tíma til að taka till. til meðferðar og þar af leiðandi er ekki hægt að ætlast til að koma fram neinni samþykkt í málinu í því formi, en hvað sem forminu líður, er gefið að koma upphæðinni inn í fjárl., svo að úr rakni nokkuð, og er engin fyrirstaða hjá vegamálastjóra fyrir því, að upp verði tekin 60 þús. kr. fjárveiting í fjárl. undir brúarákvæðunum. Þessi brúargerð er áreiðanlega með þeim nauðsynlegustu, sem finnast í þessu frv., enda þótt það vatnsfall sé ekki farartálmi á þjóðvegi, og má segja það um margar ár að sjálfsögðu, en hún fullnægir í öllu þeim skilyrðum, sem 2. kafli brúarlaganna greinir, að tilskilin séu, enda mun hún koma þar inn, hvort sem fjárveiting verður tekin upp nú eða ekki, og er það formsatriði. Ég vil nú, án þess að ég vilji tefja tímann, vísa til grg., sem fylgir till. á þskj. 90, og vona, að hv. þm. fylgi þessari brúargerð, sem er tiltölulega lítil, miðað við aðrar brýr, en hefur fulla nauðsyn til að bera engu síður en þær. Ég þóttist ekki í vafa um, að ef till. hefði komið fram, hefði hún hlotið samþykki Alþ., eftir öllum málavöxtum að dæma, og má þá eðlilega það sama gilda um þessa fjárveitingu. — Að svo mæltu mun ég ekki segja frekar um þessa till. að sinni.