18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

16. mál, fjárlög 1946

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég talaði fyrir sumum brtt. mínum við 2. umr., en þá voru fáir viðstaddir. Núna eru nokkru fleiri.

Fyrsta brtt. mín á þskj. 362 er í tveimur liðum. Undanfarin ár hefur verið lögð áherzla á að koma Norður- og Austurlandi í samband hvoru við annað, og til Brekknaheiðarvegar hafa oftast verið lagðar 100 þús. kr. og í fyrra var unnið fram yfir ca. 40 þús. og því þá unnið fyrir ca. 140 þús. Núna er veitingin 100 þús., en dregið frá það, sem unnið var fram yfir í fyrra, svo að hún verður ekki nema 60 þús. Ef þessi veiting væri nú ákveðin 100 þús. kr., væri von til að klára þennan veg á næstu þrem árum. Yfir þessa heiði sækja allir Bakkfirðingar lækni og nokkur hluti íbúa Skeggjastaðahrepps alla sína verzlun. Það er því mjög nauðsynlegt, að þessi vegagerð gangi sem fljótast og verði framkvæmd á sem stytztum tíma. Ég legg áherzlu á, að þessi veiting verði hækkuð. Ef hins vegar væri lofað stærri veitingu næsta ár, t. d. 300 þús. kr., þá gæti ég fremur sætt mig við þetta, enda væri þess þá að vænta, að stærri verkfæri yrðu notuð, svo að meira fengist fyrir féð en þegar allt er gert með skóflum og mannafli.

Þá fer ég fram á, að veitt verði til Jökulsárhlíðarvegar kr. 5000. Þessi veiting á að nægja til þess, að koma veginum niður á árbakka undan Fögruhlíð, en úr því má aka bíl eftir árbökkum ca. 30 km., eða á sveitarenda, og er þá öll sveitin komin í vegasamband. Það er hart, ef Alþ. sér sér ekki fært að leggja þetta fram og gera með því bílfært um alla sveitina.

Ég er meðflm. að brtt. XI á sama þskj. Þegar vegamálastjóri gerði till. um brýr, sem byggja þyrfti á næsta ári, bætti hann við þremur brúm, sem taka skyldi í viðbót, ef fjvn. sæi sér fært. Nú eru vitanlega margar fleiri ár óbrúaðar í Norður-Múlasýslu en Jökulsá í Fljótsdal, en flestir munu sammála um, að mest þörf sé þessarar brúar af öllum. Það má benda á margar ár á landinu og færa gild rök fyrir, að þörf sé að brúa þær, en ég hygg, að ekki verði unnt að benda á neina á, sem hægt er að færa gildari rök fyrir, að þörf sé að brúa, en Jökulsá í Fljótsdal. Hún klýfur heila sveit og er venjulegast ekki reið nema að sundleggja hestum, og yfir hana þarf að ferja fé haust og vor, en einatt verður ekki farið yfir hana, og þarf þá að fara í kringum Löginn. Auk þess mundi þessi brú hafa mikla þýðingu fyrir ferðamenn, sem vilja skoða hinar fögru sveitir kringum Löginn. Það virðist ekki fráleitt, eins og fjárlögin eru nú úr garði gerð, að bæta mætti við þessari ½ milljón. En verði þessi till. felld, þá flyt ég undir lið XL brtt. við 22. gr., en hún fjallar um að heimila ríkisstj. að láta byggja brú yfir Jökulsá í Fljótsdal, ef efni og vinna fæst til brúarbyggingarinnar annars staðar frá í bili en úr ríkissjóði. Nú skal ég ekkert um það segja, hvort ráðizt verður í þessa byggingu. Það fer allt eftir, hversu ríflegur verður innflutningur á sementi og timbri og svo hvernig gengur að fá slíkt lán, sem um ræðir, en þó vænti ég að það takist, ef ekki strandar á öðru. Það má vera, að þessi varatill. flýti ekkert framgangi þessa máls, en ég vænti þó, að hún verði í öllu falli samþ. Vil ég í því sambandi vitna til orða hæstv. samgmrh., þar sem hann sagði áðan, að hann hefði ekki á móti því, að unnið væri upp í væntanlegar fjárveitingar síðar, ef einstaklingarnir, sem hlut ættu að máli, vildu leggja féð fram í bili.

Þá vil ég geta þess í sambandi við ummæli. hæstv. dómsmrh., en hann er nú víst farinn út, — þegar hann sagði, að Ísafjarðarkaupstað vantaði lánstraust hjá bönkunum og færi þess vegna fram á ábyrgð ríkissjóðs fyrir 3 millj. kr. láni. En hve mörg bæjar- og sveitarfélög eru það ekki, sem vantar lánstraust. Ég get ekki áttað mig á því, hvernig það má ske, að Alþ. eigi að vera ábekingur fyrir Ísafjarðarkaupstað, en ekki önnur bæjar- eða sveitarfélög, sem líkt stendur á með.

Viðvíkjandi styrknum til húsameistara ríkisins vil ég segja það, að mér finnst undarlegt, að þegar nýbúið er að dæma það, að honum beri ekki réttur til einkaleyfis á múrhúðun, þá skuli Alþ., koma og vilja veita honum styrk. Ég vil láta það koma fram, að ég er á móti slíkum aðförum.