05.11.1945
Sameinað þing: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (3616)

14. mál, friðun Faxaflóa

Flm. (Pétur Ottesen) :

Herra forseti. Þetta mál hefur nú af vissum ástæðum legið niðri um hríð. Á styrjaldarárunum hafa ekki verið aðstæður til viðræðna við fulltrúa þeirra þjóða, sem við stóðum í samningum við um það að fá Faxaflóa friðaðan. Það hefur ekki heldur á þessum árum tekizt að ljúka að fullu þeim rannsóknum, sem eftir var að gera hér í Faxaflóanum til undirbúnings þessa máls. Þessi rannsókn var að vísu alllangt komin, þegar styrjöldin skall á, en eftir þeirri áætlun, sem gerð var af þeim vísindamönnum og öllum, sem um þetta mál fjölluðu, var eftir að ljúka til fullnustu þessum rannsóknum. Ef gerð verður nú krafa til þess af hálfu þeirra manna, sem við stöndum í samningum við, að þessum rannsóknum verði að fullu lokið, áður en endanlega verður gengið frá þessum málum, verður að vinda bráðan bug að því, að svo verði gert. En þetta kemur bráðlega í ljós, því að nú er nefnd manna héðan stödd á alþjóðaráðsfundi, sem tekur m. a. þetta mál til meðferðar. Er fundur þessi haldinn í Danmörku. Þar kemur vitanlega í ljós, hvort krafa verður gerð til þess, að þessum rannsóknum verði lokið, eins og upphaflega var fyrirhugað, eða að þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið, verða látnar nægja. Verði það gert, er þess að vænta, að það standi ekki á því af okkar hálfu, að þeim verði að fullu ráðið til lykta. Svo mikið er í húfi, að framkvæmdir þessar geti sem fyrst orðið. Mér þykir ekki ástæða til að bæta við fram yfir það, sem í grg. stendur, sem fylgir þessari þál. till. og fylgdi þeirri till., sem ég flutti á aðalþinginu 1943, þar sem dregin er fram reynsla sú, sem fengizt hefur á styrjaldarárunum í sambandi við fiskveiðar og fiskigengd í Faxaflóa. Hitt er aðalatriðið, að þessu máli sé fylgt eftir af hálfu Íslendinga með öllum þeim krafti og öllum þeim meðulum, sem við höfum tiltæk og við búum nú yfir. Samþykkt

Alþ. á þessari kröfu er vitaskuld einn verulegur þáttur í þessu efni, og því fylgir það, að öll fyrirgreiðsla af hálfu Alþ. sé látin sigla þar í kjölfarið. Ég mun láta það afskiptalaust, hvort menn vilja vísa þessari till. til n., en aðalatriðið er það, að Alþ. ýti eftir málinu með slíkri samþykkt sem hér er lagt til, að gerð verði með þessari þáltill.