15.02.1946
Neðri deild: 68. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (3641)

13. mál, botnvörpu- og dragnótaveiðar í Faxaflóa

Pétur Ottesen:

Sjútvn. hafði afgr. þetta mál um það leyti fyrir jól, sem Alþ. var frestað, eftir ýtrustu tilraun mína til þess að fá málið heimt úr höndum nefndarinnar.

Sjútvn. hefur eðlilega leitað álits nokkurra aðila um málið. Þeir eru þessir:

1. Atvinnudeild háskólans, fiskideild.

2. Stjórn Fiskifélags Íslands.

3. Landssamband ísl. útvegsmanna.

4. Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda.

5. Fjórðungsþing fiskideilda Sunnlendingafjórðungs.

Þrír þessara aðila mæltu eindregið með samþykkt frv. Það eru þeir aðilar, sem fiskimenn landsins hafa aðstöðu til að láta álit sitt í ljós við. En fiskimennirnir hafa allir goldið samþykki sitt við samþykkt þessa frv. — Hins vegar eru svo botnvörpuskipaeigendur eða félagsskapur þeirra og fiskideild háskólans. Þessir aðilar leggja á móti samþykkt frv.

Um afstöðu botnvörpuskipaeigendanna þarf ekki að fjölyrða. Þeir líta einungis á stundarhag, en skortir víðsýni til að líta á málið frá þjóðhagslegu sjónarmiði. En hitt kemur mér á óvart, hvernig fiskifræðingurinn tekur í þetta sérstaklega, þegar þess er gætt, hvernig afstaða hans hefur verið til þessa máls undanfarið. Þegar hann kom fyrst í embætti, var hann því mótfallinn, að slíkar hömlur, sem lagt er til í þessu frv., yrðu settar. Hann taldi þá, að eigi stafaði jafnmikil hætta af botnvörpuveiðum og fiskimenn héldu fram. En á síðari árum hefur fiskifræðingurinn skipt um skoðun hvað þetta snertir, og hefur hann í því sambandi ekki einungis stuðzt við reynslu okkar í þessu efni, heldur hefur hann og dregið ályktanir af sams konar fyrirbrigðum annars staðar. Nýverið hefur hann þýtt bók um þessi efni og sýnir fram á nauðsyn slíkra friðunarráðstafana, sem frv. þetta er þáttur af.. Fiskifræðingurinn segir í bréfi sínu, að hann hafi lagt til við ríkisstj. 1939, að Faxaflói yrði friðaður fyrir botnvörpu- og dragnótaveiði Íslendinga til styrjaldarloka. Af þessu varð þó ekki, eins og kunnugt er. En á þinginu 1943 flutti ég frv. hér að lútandi, og var því vísað til sjútvn., en í henni átti þá sæti eins og nú hv. þm. Vestm., — og hverjar voru þá undirtektir hans? Þá stóð stríðið og íslenzk skip stunduðu nær eingöngu þessar veiðar, en þá notaði sjútvn. tækifærið til að setjast á málið og réð þannig niðurlögum þess að því sinni. Og þegar þessi hv. n. eða hv. þm. Vestm. fyrir hennar hönd talar um, að nú sé von erlendra fiskiskipa og því ekki unnt að byrja slíka friðun nú, þá er það einungis fyrirsláttur. Þetta er aðeins aðferðamunur á að eyðileggja málið. Þá var það gert með því að setjast á það, en nú leggur nefndin til að vísa því frá með rökst. dagskrá. Hv. þm. Vestm. segir, að með því að vísa máli þessu til ríkisstj. felist áskorun um, að hún vinni með samningum við erlend ríki að friðun Faxaflóa. Þetta er fyrirsláttur einn, þar sem nýverið er búið að samþ. þáltill., þar sem þingið hefur látið í ljós vilja sinn einmitt um þetta efni. Þess vegna felst ekkert annað í þessari rökst. dagskrá en að fella frv. En samþykkt þessa frv. er sterkur og mikilsverður þáttur í því, að við fáum vilja okkar framgengt um það, að samkomulag takist um friðun Faxaflóa.

Rétt er að athuga þau rök, sem fiskifræðingurinn hefur fram að færa fyrir sinni breyttu aðstöðu. Hann segir, að fyrir 5 árum hefði verið rétt að samþ. þetta frv. M. ö. o., fiskifræðingurinn og hv. n. fallast á, að það hefði verið sterkt vopn til að fá aðrar þjóðir til að viðurkenna friðun Faxaflóa, ef frv. mitt hefði þá verið samþ. En ef það var þá sterkt vopn að sýna öðrum þjóðum, að við vildum neita okkur um veiðar á þessu svæði til að fá það friðað, hversu miklu sterkara er það þá ekki nú, þegar aðrar þjóðir geta stundað þessar veiðar? Hér er svo mikill bláþráður á röksemdafærslu fiskifræðingsins og n., að hann þolir ekki að andað sé á hann.

Það er ekki ætlunin með þessu frv. að gera íslenzkum botnvörpuskipaeigendum bölvun, heldur einungis að gera aðstöðu okkar til þessa máls sterkari, þeim og öllum öðrum landsmönnum til öryggis og hagsbóta nú og í framtíðinni. Ég er sannfærður um, að friðun Faxaflóa er svo mikilsvert mál, að ekki er í það horfandi, að við neitum okkur um botnvörpuveiðar á þessu svæði nú um skeið, og þannig líta allir fiskimenn á þetta mál, gagnstætt því, sem fiskifræðingurinn leggur til og hv. þm. Vestm. leggur nú svo mikið upp úr. Og vitanlega verður þörfin fyrir slíka friðun meiri, því meiri munur sem er á íslenzkum og erlendum fiskiskipaflota á þessum miðum. Þess vegna eru þau rök, sem fiskifræðingurinn og hv. þm. Vestm. benda á sínu sjónarmiði til framdráttar, einhver hin sterkustu til gildis þessu frv.

Ég verð að segja það, að Alþingi tekur á sig mikla ábyrgð, ef þetta mál verður drepið, eins og tillögur liggja nú fyrir um. Við vitum, að það er okkar ætlun að auka nú skipastólinn, og aðrar þjóðir hafa hið sama í hyggju, en þó mundi rýrnun fiskistofnsins hafa hvað afdrifaríkastar afleiðingar fyrir okkur. Þess vegna er það nauðsynlegt, að við neytum hvers tækifæris til að tryggja örugga og varanlega veiði.

Ég skal svo ekki fara miklu fleiri orðum um þetta mál. Ég tel mig hafa gert skyldu mína með flutningi þessa frv. Ég hef enn fremur bent á þá hættu, sem af því getur stafað, ef við látum undir höfuð leggjast að nota þá aðstöðu, sem við höfum til að vinna að framgangi þessa máls. En ég verð að segja það, að ég hafði vænzt eftir betri undirtektum og skilningi hjá þeirri n., sem fer með velferðarmál sjávarútvegsins, en raun ber vitni um í till. hennar um þetta mál bæði fyrr og nú. Ég efast ekki um, að ef einhver fiskimaður hefði átt sæti í þessari n., þá hefði niðurstaðan orðið önnur. En þetta er bending til sjómannastéttarinnar um að vanda betur val þeirra fulltrúa, sem eiga að fara með mál hennar hér á Alþingi og tryggja það, að skilningur stéttarinnar eigi greiðari leið til framgangs en nú virðist. Og ég vænti þess, að afgreiðslu, þessa máls, ef hún verður eins og sjútvn. leggur til, muni eiga þátt í því að vekja sjómannastéttina til umhugsunar um það atriði betur en verið hefur.

Svo vil ég víkja örfáum orðum að þessu máli í sambandi við hið mikla nýsköpunartal, sem nú er svo ofarlega á baugi. Það hlýtur að vekja nokkra athygli, þegar svo mikið er talað um nýsköpun atvinnuveganna og aukningu skipastólsins, að þá skuli vera skellt skolleyrunum við þeim málum, sem framtíð sjávarútvegsins byggist á. Og af því að hv. þm. Vestm. stendur nú svo framarlega í þessu nýsköpunartali, — um framkvæmdir eða beina þátttöku hans veit ég ekki, — þá er hans afstaða til þessa máls sérstaklega eftirtektarverð.

Ég skal svo stytta mál mitt, þar sem komið er að fundarlokum, og ekki fara lengra út í þetta mikilsverða mál. En ég verð að láta í ljós þá von og jafnframt það traust til hv. deildar, að hún verði ekki við till. hv. sjútvn. um afgreiðslu þessa máls, heldur samþ. frv. og verði þannig við óskum sjómanna og flestra annarra, sem að fiskveiðum standa, og enn fremur við óskum allra þeirra, sem ekki standa að sjávarútvegi, en bera skyn á gagnsemi þessa máls og vilja, framgang þess.

Eins og fyrr greinir, hafa þeir aðilar, sem nefndin leitaði til og gegna því hlutverki að gæta hagsmuna fiskimanna og vélbátaflotans, mælt eindregið með samþykkt þessa frv. Meðal þeirra er stjórn Fiskifélags Íslands, og sama er að segja um fiskiþingið, sem haldið var á þessum sama tíma, sem nefndin hafði þetta mál til meðferðar, og einnig fjórðungsþing fiskideildar Sunnlendingafjórðungs. Hefði sjútvn. haft aðstöðu til að leita til annarra slíkra aðila úti á landsbyggðinni, er ekki að efa, að hún hefði fengið nákvæmlega sömu undirtektir um þetta mál og hún fékk hjá þessum aðilum. En hitt verður að virða n. fullkomlega til vorkunnar, þótt hún færi ekki að leita lengra eða út fyrir takmörk þessa bæjar, Reykjavíkur, um álit í þessu máli. Það felst ekki í þessu nein ásökun til n. út af því. Enda hefði henni átt að vera það alveg nægur skóli í þessu máli, sem kom fram í áliti þessara fulltrúa sjómannastéttarinnar, sem hér er um að ræða. — Hv. þm. Vestm., frsm. í þessu máli, taldi, að það hefði lítill rökstuðningur fylgt till. þessara aðila. En að svo var, býst ég við að byggist á því, að þeir hafi talið, að sá skilningur á grundvallaratriðum í þessu máli væri fyrir hendi hjá þeim mönnum, sem Alþ. hefði valið alveg sérstaklega til þess að standa þar fyrir málefnum sjávarútvegsins, — enda málið oft og margsinnis þaulrætt, bæði utan þings og innan, — að þeir þyrftu ekki að fara að skrifa um þetta langar ritgerðir. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé ástæðan fyrir því, og sýnist mér hún gild og góð.

Ég hef sýnt fram á það hér, hvað sú röksemdafærsla, sem hv. þm. Vestm. hefur fært sér mest í nyt, stangast nokkuð á hjá fiskifræðingnum. — Eftir væri þá að tala um þau rök, sem botnvörpuskipaeigendur hafa fært fram fyrir sínu máli í þessu efni. Ég ætla, að ég hafi nú séð það plagg. Og ég verð að segja um það sem mína skoðun, að það var hvorki mikið né sannfærandi. Enda hafði maður áður þreifað á því hér, hvernig þessir menn taka ævinlega í það mál, þegar leitað hefur verið til þeirra um þeirra skoðun á þeim ráðstöfunum, sem gera þyrfti til þess að bjarga fiskveiðunum í framtíðinni hér við land. Hv. þm. Vestm. hefur sýnilega litið allt öðruvísi á það en ég og talið það jafngilt og gott, sem botnvörpuskipaeigendur sögðu um þetta, eins og það hins vegar væri fánýtt og einskis virði, sem sjómennirnir og fulltrúar þeirra segðu um málið.

Ég skal svo láta máli mínu lokið um þetta nú, en aðeins endurtaka að lokum tilmæli mín til hv. þd. um að afgreiða nú þetta mál eins og lagt er til í frv., í trausti þess, að hæstv. ríkisstjórn og þau önnur stjórnarvöld, sem með þessi mál fara, noti til hlítar þá sterku röksemd fyrir skjótum framgangi málsins, sem í því felst, að við bönnum íslenzkum borgurum fiskveiðar í þessari dýrmætustu klakstöð, sem til er við strendur þessa lands, og með tilliti til þess, að framtíð fiskveiðanna sem arðvæns atvinnuvegar er undir því komin og við það tengd, að þessi dýrmæta klakstöð verði varin fyrir allri rányrkju og ránveiðum og að við og aðrir, sem veiðar stunda hér við land, eigum mjög mikið undir því, að þetta verði gert sem allra fyrst. Og það er ekki að efa, að þessi ráðstöfun yrði sú sterkasta röksemd af hálfu okkar til stuðnings því að fá þessu friðunarmáli fljótt hrundið inn á farsælar brautir.