05.02.1946
Sameinað þing: 24. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (3664)

67. mál, húsaleiga

Sigurður Kristjánsson:

Það kveður dálítið við annan tón en þegar rætt var um þetta mál hér fyrr á þingi. Þó blæs ekki byrlega fyrir raunhæfum aðgerðum í málinu.

Ég vil í upphafi minna á það, að ég flutti hér þáltill., sem ég satt að segja var alls ekki montinn af, því að hún var ekki svo skelegg. Hún var um það að rannsaka grundvöll húsaleiguvísitölunnar, og flutti ég till. ekki eingöngu af því, að ég væri sannfærður um, að það væri mjög athugunarvert að láta þennan misrétt haldast lengur, sem húsaleigul. hafa skapað, þó að hins vegar sé ekki mjög auðvelt að róta við þeim, heldur stafaði það af því, að húseigendur fara mjög eindregið fram á þessa athugun, og virðist sú till. vera mjög hógvær og meinlaus. Og ráðh. hefur, þegar húsaleigul. voru sett, lýst yfir, að grundvöllurinn undir vísitölu húsaleigunnar væri ekki fullrannsakaður og líklega ekki réttur og þyrfti að taka það til athugunar seinna. En þá var friðhelgin svo mikil yfir húsaleigunni, að það ætlaði ekki að takast að fá þetta mál afgr., en það vannst þó að fá það á dagskrá. Og n., sem fjallaði um það, lagðist á móti því, með engum rökum, að því er mér virtist, og loks, þegar málið kom til afgreiðslu í hv. d., var því vísað frá með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. Margir hv. þm. gengu að sönnu af fundi, en af þeim, sem eftir voru, 31, voru 25 þm. með því að vísa málinu frá, en við aðeins 6 þm., sem stóðum með till. Hér var þó ekki um að ræða stærri hluti en aðeins að rannsaka grundvöll húsaleiguvísitölunnar. Og ég endurtek það, að ég var ekki hreykinn af þessari till., af því að hún var náttúrlega engin lausn á málinu, en gekk í þá átt, að málið yrði tekið til rannsóknar. Það þarf ekki um það að deila, það er viðurkennt mál, að þessi l. komu af illri nauðsyn og komu hart og óvægilega niður á einstökum mönnum og hafa skapað ákaflega mikinn mun á kjörum þeirra manna, sem eiga húsnæði til þess að leigja út. Það er að sönnu ekki rétt, að þau séu einu l., sem menn búa við, er kalla má þvingunarl. og hafa skapazt af völdum stríðsins, því að við búum við margs konar þvingunarl. og margs konar óeðlilegt ástand í þjóðfélaginu, sem einnig eru áhrif frá stríðinu, og ekki hvað sízt í verzlun og viðskiptum. En það mun hvergi vera gengið nær mönnum en með húsaleigul., og það er mönnum vel kunnugt, að húsaleigul. hafa komið einkum niður á mönnum, sem hafa yfir litlu fé að ráða. Margir eldri menn hafa sparað saman í þak yfir höfuðið á áratugunum fyrir stríð og verið svo einfaldir að halda, að slíkt væri ekkert óráð, að eiga þak yfir höfuðið, en slíkt hefur reynzt mesti misskilningur. Þeir menn, sem ekki hafa fengið sig til þess að smjúga fram hjá l., þeir hafa margir hverjir svo að segja engar aðrar tekjur en eftir leigu af húsi sínu. En þessar tekjur hafa verið gerðar litlar eða engar, samanborið við þá miklu dýrtíð, sem er.

Það var alveg réttilega tekið fram af hv. þm. Borgf., að það virðast litlar líkur til þess, að málið fái þann framgang, sem leiði til þess, að nokkur breyting verði á núverandi ástandi. En ég hygg, að það sé ekki eingöngu af viljaleysi, heldur af því, að menn sjá ekki, hvernig ráða á fram úr málinu. Menn kvíða fyrir að róta við húsaleigul., af því að þeir sjá ekki, hvernig á að greiða þannig úr, að viðunanlegt verði án mikils óhagræðis fyrir þjóðfélagið, — ég á við, að menn kvíða fyrir, að það muni hækka verðlagsvísitöluna. Og eitt held ég, að sé áreiðanlega víst, að þeir aðilar, sem hlut eiga að máli, auk þjóðfélagsins sjálfs, þeir, sem taka húsnæði á leigu, og þeir, sem selja húsnæði, verði óánægðir með hverja þá lausn, sem fæst. Leigjendurnir vilja auðvitað búa við sem lægst húsnæði, og flestir munu verða tregir til þess að fara að setja annarra hagsmuni og þjóðarhagsmuni upp fyrir sína eigin hagsmuni. Aftur á móti er það svo með húseigendur að þeir vilja helzt engu öðru hlíta en algeru afnámi l. Þeirra rök eru fyrst og fremst þau, að húsnæði minnki ekki við það, þó að húsaleigul. verði afnumin, og þeir segja, að það mundi jafnvel aukast, því að ýmsir vildu þá leggja á sig að minnka við sig húsnæði, ef þeim væri ekki meinað að leggja á það verð, sem er í samræmi við núverandi verðlag í landinu. Þetta er sjálfsagt alveg rétt. En það er ekki eingöngu þetta, sem menn sækjast eftir. Það er eðlilegt hagsmunamál að koma á uppboði með húsnæði, uppboði, sem hefur gengið allt of langt og leitt til vandræða. Það er eðlilegt, að það vaki fyrir húseigendum að geta fengið svo mikið fyrir það húsnæði, sem þeir leigja út, eins og í það er boðið.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það fáist verulega góð lausn á þessu máli, en það virðist þó ekki vera úr vegi, að það sé rannsakað. Og ég legg líka áherzlu á það, eins og sumir hv. þm., sem hér hafa talað, að málinu verði flýtt sem allra mest að hægt er.

Þá hefur verið nokkuð rætt um það hér, hver sé orsökin til húsnæðisvandræðanna og hvernig hægt verði að leysa úr þeim. Og hér er nú á dagskrá frá hv. þm. Str. till. um þetta sama mál. En þó að það sé skynsamlegt að láta fara fram alls konar rannsókn og tilraunir, áður en ákvörðun er tekin í þessu húsaleigumáli, og þó að það sé út af fyrir sig rökrétt, þá er sýnilegt, að eftir þeirri till. verða áratugir, sem líða, þangað til nokkuð verður raunhæft aðhafzt. Menn hafa talað um það, að Alþ. verði að setja einhverjar hömlur á það, að það byggingarefni, sem flutt er inn, verði notað fyrst og fremst til byggingar íbúðarhúsa. En þetta er ekki í samræmi við það, sem hæstv. Alþ. gerir. Þetta eru orðin eintóm, því að það, sem Alþ. gerir í málinu, er allt annað. Það hefur samþ. að byggja hallir, sem ekki eru yfir nokkurn mann, alls konar hallir, auðvitað skemmtilegar og sumar til mikilla nytja, fyrir 20 millj. kr. á næsta ári. Og sumar þessar byggingar eru mjög nauðsynlegar, svo sem sjúkrahús og skólar, en svo koma líka ýmsar skrauthallir, og allar þessar byggingar miða ekki að því, að hægt sé að beina byggingarefninu að byggingu íbúðarhúsa. Ég fyrir mitt leyti barðist gegn þessu þrátt fyrir það, að ég viðurkenndi, að þetta væru allt menningarlegir hlutir. Ég var auðvitað í minni hluta, og það er ekki nóg, að það séu ætlaðar 30 millj. kr. í slíkar byggingar, heldur eru margir hv. þm. stórkostlega óánægðir með það, hvað litlu fé sé varið á þessu sviði.

Svo getur enginn maður byggt nema hann sé stórefnaður, og þó að honum væri gefið allt efnið og það flutt heim til hans, þá getur hann samt ekki byggt nema hann sé stórefnaður. Það er búið að gera vinnukostnaðinn svo gífurlegan, að hann lokar fyrir byggingar nema hjá þeim, sem eru stórefnaðir. En svo verða hinir fátækari menn að neyðast til þess að leigja í þessum dýru húsum heldur en að krókna á götunni. Þeir neyðast til þess að skríða inn í eitt herbergi, sem er alls ekki í samræmi við kröfur nútímans um stóraukið húsnæði. En það er svo komið í þessu þjóðfélagi, að hin róttæku stéttarsamtök eru svo búin að taka fram fyrir hendur á mönnum á mörgum sviðum, að þeir eru ekki lengur frjálsir í þessu þjóðfélagi. Einmitt fyrir þessi takmarkalausu stéttasamtök má segja, að ekki sé hægt að reka nagla í fjöl nema hafa yfir sér stéttarfélagsbrodda, sem hóta öllu illu, ef þessi nagli er ekki dreginn út aftur, og það er ekki hægt að dytta að herbergi fyrir vinnukonuna nema til þess séu fengnir 4–5 sérfræðingar, og þeir þurfa svo að standa þar og spekúlera í þessu. Og þegar svo búið er að mála glugga og lagfæra hurð og hitalögn og veggfóðra, þá er þetta orðið jafndýrt og kostaði að byggja heila íbúð áður. Ef kvartað er yfir þessu, þá kemur eitthvert skrifstofuvald fagmanna og mælir og skoðar og sendir síðan reikning fyrir fagmanninn, og enn hækkar hann um 50%. Ef kvartað er svo yfir þessu, — ég er ekki að segja, að ég hafi gert það, en ég þekki marga, sem hafa orðið fyrir þessu, — þá er bara sagt við þá: Þú mátt bara þakka fyrir að fá að borga þetta, og mundu að brosa út undir eyru, annars getur þú átt á hættu að fá þessi samtök gegn þér.

Ég bendi á þetta til þess að sýna, að orsökin fyrir húsnæðisleysinu stafar að sumu leyti af því, að það er orðið svo dýrt að byggja og það geta ekki nema fjárhagslega sterkir menn. Og ef Alþ. treystir sér til þess að laga þetta ástand, þá verður byggt og byggt ódýrt, og þá þarf ekki þessi húsaleigulög.