20.02.1946
Neðri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (3683)

13. mál, botnvörpu- og dragnótaveiðar í Faxaflóa

Pétur Ottesen:

Hv. frsm. sjútvn. er nú miklu hógværari en í gær (JJós: Fór þar að dæmi hv. flm.), og má því segja, að hann hafi tekið málið eðlilegri tökum en áður. Hann fór nú mjög lítið út í þau tvö meginatriði, sem hann nefndi í gær til þess að andmæla frv. Nú sneri hann sér aðallega að umsögnum þeim, sem fyrir liggja, og vildi gera lítið úr umsögnum þeirra, sem búa yzt á Reykjanesi. En ég veit ekki annað en línuveiði standi öllum til boða í Faxaflóa, hvaðanæva af landinu. Því að til verstöðvar hér suður með sjó og á Akranesi sækja menn hvaðanæva af landinu. Hér er því vitanlega um að ræða sjónarmið manna, sem ekki er tengt eingöngu við þá, sem búsettir eru við Faxaflóa, heldur alla þá, er þar stunda veiðar, hvar sem þeir eiga heima á landinu. Hagsmunina af friðun Faxaflóa má færa út á enn víðara svið. Sá fiskur, sem elst upp í þessari klakstöð, dreifist vitanlega þaðan og um öll fiskimið í kringum landið. Þetta hafa rannsóknir á fiskigöngum hér við land sannað. Hagsmunir af friðuninni koma því fleirum til góða en þeim, sem heima eiga við Faxaflóa eða stunda fiskveiðar þar. Friðun flóans er hagsmunamál allrar þjóðarinnar. Því standa sjómenn óskiptir og án tillits til þess, hvar þeir eiga heima, að kröfunum um friðunina.

Þeir, sem hlustuðu á ræðu hv. þm. í gær, hlutu að draga þá ályktun af orðum hans og látbragði, að hann væri að draga dár að sjómönnum. Vitanlega er það, sem liggur að baki frv., að við ættum fyrr en ella að geta útrýmt botnvörpuveiðum í Faxaflóa. Bann gegn slíkri veiði íslenzkra ríkisborgara í flóanum er gagnvart erlendum samningsaðilum áþreifanlegt dæmi um það, hvað við teljum friðunina mikilsverða. Við búum að ýmsu leyti hér við erfiðari aðstæður. En eitthvert sterkasta vopn fyrir okkur til að yfirstíga þá erfiðleika er sú aðstaða, að fiskveiðarnar geti í framtíðinni verið öruggur og arðvænlegur atvinnuvegur. Án aukinnar friðunar getur hann ekki orðið það, það er deginum ljósara. Við Íslendingar erum hér í varnaraðstöðu, — framtíð, heill og hamingja þjóðarinnar liggur við. Hv. þm. Vestm. sagði, að ýmsar orsakir væru til aflabrests. En getur hann þá ekki komið auga á það, að þegar Faxaflói var algerlega friðaður í 4 ár, þá fylltist hver vogur og vík af fiski, svo að menn drógu rígaþorsk á sjö faðma dýpi. Það gerði ég á stríðsárunum fyrri. En hvað hefur nú gerzt á þessum sex síðustu stríðsárum, þegar botnvörpuveiðunum létti aldrei af hér í Faxaflóa? Það hefur ekkert slíkt fiskihlaup komið upp á grunnmiðin og afli hefur þessi ár aðeins verið á djúpmiðum, en þó þverrandi. Og það er ekki svo einu sinni, að þessi bátafloti, sem stundað hefur rányrkjuveiðar þar á þessu tímabili, hafi borið sæmilegt úr býtum, því að stundum hefur þessi útgerð barizt í bökkum og þeir, sem að henni stóðu, lapið dauðann úr skel. Og á sumum tímum hefur meiri hlutinn af því fiskmagni, sem botnvarpan hefur dregið upp á þessu svæði, verið ungviði, sem hefur orðið að moka í sjóinn aftur. Þetta hefur fiskimönnum verið blöskrunarefni.

Hv. þm. Vestm. sagði, að ég sæi ekkert annað en Faxaflóa í þessu tilliti. — Ég hef oft flutt tillögur á Alþ., sem miðað hafa að því að víkka landhelgina í heild. En þessar till. um friðun Faxaflóa eru bara einn liður í þeirri keðju. Ég hef og fært fyrir því rök, hvaða heildarþýðingu friðun Faxaflóa hefur. Það er síður en svo, að ég hafi lagt það á hilluna að vinna að því að færa út landhelgina í heild. Málið hefur verið flutt tvíþætt á erlendum vettvangi, þ. e. útfærsla landhelginnar í heild og friðun Faxaflóa sem klakstöðvar. Og það eru fræðimerki á þessu sviði, sem hafa tekið Faxaflóa út úr í þessu efni, meðan verið er að vinna að stærra átaki, og hafa þeir gert það af því, að þar er álitin vera hin mikilsverðasta klakstöð hér við land. En hins vegar er ekki talið hyggilegt að fara, fram á, að samþ. verði friðun á fleiri sérstökum svæðum en þessu í einni lotu. Þetta er orsökin til þess, að ekki er nú farið fram á, að stigið verði stærra spor. En að því er vitanlega stefnt. Þetta er áfangi á leiðinni.

Hv. þm. Vestm. vildi leggja að jöfnu álit botnvörpuskipaeigendanna eða félags þeirra annars vegar og hins vegar stjórnar Fiskifélagsins. En athygli og áhugi stjórnar Fiskifélagsins beinist að fiskveiðum landsmanna í heild, alveg eins að botnvörpuveiðum eins og öðrum fiskveiðum. En aftur um félag botnvörpuskipaeigenda virðist vera öðru máli að gegna. Ég hef hér á Alþ. staðið í höggi við hið ríkjandi sjónarmið félags botnvörpuskipaeigenda, en ég hef aldrei orðið var við, að eigendur botnvörpuskipa hafi borið fram till. um eða staðið í fararbroddi fyrir því að fá víkkaða landhelgina eða fyrir friðunarmálum í því sambandi. — Ég vil taka þetta fram af því, að hv. frsm., þm. Vestm., lagði till. þessara manna annars vegar og stjórnar Fiskifélagsins hins vegar alveg að jöfnu.

Viðvíkjandi margumræddri skoðun fiskifræðingsins, Árna Friðrikssonar þá sagði hv. þm. Vestm., að ég vildi nota hans röksemdir að því leyti sem þær styddu minn málstað. Og ég hef sýnt fram á, að hans röksemdir styðja minn málstað, þegar hann fer fram á það árið 1939, að Faxaflói verði friðaður, og þegar hann lýsir velþóknun sinni við mig yfir því, að ég flyt frv. um þetta á þinginu 1943, sem hv. frsm. sá um, að ekki kæmi til úrslita á því þingi. En þegar hleypur bláþráður á röksemdafærsluna hjá fiskifræðingnum, þá kemst ég ekki hjá að benda á það. Því að það er ómögulegt að mæla á móti því, að hafi það verið sterk aðstaða fyrir okkur á stríðsárunum að vilja friða Faxaflóa, er það miklu sterkari röksemd af okkar hálfu, ef við gerum það, þegar opnuð er leiðin til veiða þar fyrir erlend fiskiskip. Þessu dettur hv. þm. Vestm. ekki í hug að mæla gegn. En hann heldur, að þetta borgi sig ekki. En ég er sannfærður um það, að við eigum hiklaust að beita þessari sterku röksemd í þeirri röksemdakeðju, sem fulltrúar okkar á erlendum vettvangi hafa fram að bera til framdráttar þessu máli, friðun Faxaflóa. Það margborgar sig.