20.11.1945
Sameinað þing: 9. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (3687)

49. mál, afkoma sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Þessi þáltill. mun vera flutt hér í þriðja skiptið á Alþ. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í umr. um till. og hef hingað til látið mig hana litlu skipta og lít á hana lítt alvarlegum augum í raun og veru. En málflutningur hv. flm. og þeirra, sem að till. standa, í ræðum á Alþ. og eins í blöðum, hefur verið á þá lund, að það er í raun og veru full ástæða til að hefja hér nokkrar umr. um þessa till.

Eins og hv. þm. hafa tekið eftir, hefur Tíminn slegið þessari till. upp í hvert skipti sem hún hefur verið flutt á Alþ. og birt hana með feikna yfirskriftum, eins og, mér liggur við að segja, um merkilega uppfinningu væri að ræða í sambandi við sjávarútvegsmál okkar. Eins og hv. flm. hagaði orðum sínum við síðustu umr., þá skildist mér á honum, að hann vildi einnig láta svo vera.

En um hvað er þessi till., og hvernig er hún til komin? Hún er hvorki meira né minna en um það að fela ákveðinni n. að reikna út framleiðslukostnað sjávarútvegsins. Hv. flm. telur þörf á að skipa n. til að annast þessa útreikninga, þó að hann viti vel, að það er starfandi stofnun í landinu, sem á að halda saman ýmsum tölulegum fróðleik í sambandi við útgerð hér á landi, sem sé reikningsskrifstofa sjávarútvegsins. Hvernig halda þeir, sem þekkja til útgerðar, að muni ganga að reikna það, sem hv. flm. kallar framleiðslukostnað sjávarútvegsins? Hvernig halda hv. þm., að muni ganga að nota þessa útreikninga til að dæma um það, sem manni skilst, að sé tilgangurinn með þessari till., að fá úr því skorið, hvort það muni borga sig að gera út hér á landi eða ekki, því að það er talað um í till., hvort framleiðslan svari kostnaði eða ekki? Við vitum vel, að framleiðslukostnaður útgerðarinnar er mjög mismunandi eftir því, hvar er á landinu. Afköst fiskibáta af sams konar stærð eru mjög misjöfn, t. d. hér við Faxaflóa, borið saman við afköst norðan lands. Það er líka vitað, að afköst fiskibáta af mismunandi stærð eru mjög misjöfn, svo að ekki sé talað um afköst togara og lítilla vélbáta. Það verður því ekki fundin nein tala, sem segir, hver sé framleiðslukostnaður hér á landi, við vitum, að tilbreytni í þessu er mjög mikil ár frá ári. En það, sem skiptir höfuðmáli í þessu efni, er það, að gerðar séu af eðlilegum öflum þær ráðstafanir, sem hægt er að gera til þess, að framleiðslukostnaðurinn hjá sem flestum fiskimönnum hér á landi sé svo lítill sem mögulegt er, og það er tvímælalaust, að þær ráðstafanir, sem eru þýðingarmestar í því efni, eru einmitt, að umbætur séu gerðar á fiskiskipastóli landsmanna.

En svo þegar maður virðir fyrir sér þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera hér á landi í þessu sambandi, og afstöðu hv. flm. til þeirra ráðstafana, þá skýtur skökku við. Sem sagt, að þegar ríkisstj. landsins eða meiri hluti þings ræðst í að kaupa til landsins 30 nýtízku togara og auka á þann hátt afköst hjá stórtækustu veiðitækjum okkar, þá vitum við, að hv. flm. till., sem hér liggur fyrir, lýsir sig algerlega andvígan þeim ráðstöfunum, og það blað, sem mest hefur slegið upp þessari till., hefur einmitt haft allt á hornum sér í sambandi við þessar ráðstafanir. Það, sem því virðist vaka fyrir hv. flm., er miklu fremur að fá útreikning um tiltölulega léleg fiskiskip og framleiðslutæki og að það borgi sig ekki að annast sjávarútveg eða rekstur útgerðar með þeim en að hann vilji gera nokkrar verulegar ráðstafanir til að fá nokkur ný framleiðslutæki fyrir sjávarútveginn.

Ég minnist þess, að þessi hv. þm. hefur kastað því að mér, sem er einn þeirra, sem hafa staðið að því að fá 30 nýtízku togara keypta til landsins, að ég og sá flokkur, sem ég telst til, væri farinn að styrkja Kveldúlf og aðra togaraeigendur með því að senda sendinefnd frá ríkinu út um lönd til að kaupa togara handa þeim. Einnig hafa fulltrúar flokks hans talið þessi skip allt of dýr. Sem sagt, andstaða þeirra hefur birzt í fjöldamörgum myndum. Það er rétt að leggja höfuðáherzlu á það í þessu máli, að það, sem þörf er á fyrir fiskimenn og útgerðarmenn, það er ekki, að sett sé á stofn einhver reikningaskrifstofa, einhver n. manna til að reikna, að það borgi sig ekki að gera út á Íslandi, og til að reikna, að það þurfi svo og svo hátt verð fyrir fiskinn á Íslandi, ef það eigi að borga sig að sækja hann í sjóinn. Það er öllum mönnum vitað, að útgerð á Íslandi hefur á undanförnum árum skilað mjög verulegum gróða, þegar litið er á hann sem heild. En hagnaður útgerðarinnar er mjög mismunandi, eftir því hvort er um stórútgerð að ræða eða tiltölulega mjög frumstæða smábátaútgerð. Sá útreikningur, sem þessi till. því gerir ráð fyrir, er alveg út í bláinn og segir ekki nokkurn skapaðan hlut, enda hygg ég, að hv. flm. hafi ætlað að fá annað út úr þessum útreikningum. Hann hefur ætlað sér að fá það út, að vegna dýrtíðarinnar, sem hann talar um í tíma og ótíma, þurfi fiskverðið að vera svo hátt, að við getum ekki fengið slíkt verð.

Ef við tökum einn aðalþátt útgerðarinnar, síldarútveginn, og virðum hann fyrir okkur í þessu sambandi, þá vitum við, að afkoma síldarútgerðarinnar og síldarútvegsmanna byggist ekki eingöngu á, hvað verðið er hátt, heldur engu síður hinu, hvort hún getur fengið að stunda veiðar nokkurn veginn óhindruð allan þann tíma, sem síld er að fá. Það er því verulegt hagsmunamál fyrir síldarútgerðina, þegar aukið er við verksmiðjurnar og þegar þar eru tæki og ráðstafanir gerðar til að salta síld og fá sæmilegt verð fyrir þá vöru. Þetta getur skipt miklu meira máli en hitt, hvort fæst hálfri eða einni krónu meira fyrir hvert mál, sem látið er í bræðslu. Þannig er það yfirleitt með alla útgerð hjá okkur. Það er því mesti barnaskapur að ætla sér að finna einhverja fasta hlutfallstölu fyrir verð á ýmsum sjávarútvegsvörum, sem ætti æ og eilíflega að vera föst, ef menn, sem vinna við þessa atvinnugrein, eiga að hafa samsvarandi kaup við aðrar atvinnustéttir. Hitt skiptir langmestu máli, að svo sé búið að þessari drift, að afköst þeirra, sem við hana starfa, séu eins mikil og tök eru á. Þær ráðstafanir, að í staðinn fyrir gamla og lélega togara komi aðrir nýir og afkastamiklir, eru það, sem virkilega bætir hag útgerðarmanna og fiskimanna, sem við togarana vinna. Sama er að segja um bátaútvegsmenn og þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur gert með því að stuðla að því, að inn í landið flytjist um eða yfir 100 vélbátar mun betur útbúnir og stærri en þeir, sem fyrir eru. Sú ráðstöfun verkar í þá átt að bæta hag þeirra, sem á þeim vinna, stórum meira en verið hefur. En eins og ég hef bent á áður, hefur það greinilega komið í ljós, að þeir, sem einkum standa að flutningi þessarar till., láta sig litlu skipta um þessar ráðstafanir, og í mörgum tilfellum hefur verið um beina mótspyrnu að ræða, og þurfa menn ekki að verða hissa á því, því að framkoma Framsfl. í garð sjávarútvegsins hefur á flestum öðrum sviðum verið á sömu lund. Þegar hér var uppi fyrir tveimur árum síðan till. um að lækka nokkuð vexti af stofnlánum til sjávarútvegsins, beittu framsóknarmenn sér fyrir, að slík l. yrðu felld, þó að þeir komi nú með till. um að reikna út, hver sé framleiðslukostnaður sjávarútvegsins á Íslandi, reikna út, hvort borgi sig að gera út á Íslandi. Og í hvert skipti sem fiskimenn og sjómenn á Íslandi hafa gert tilraun til að bæta kjör sín, veit ég ekki betur en að þessi flokkur og blöð hans hafi tekið eindregna og ákveðna afstöðu gegn kjarabótum handa sjómönnum. Það hafa verið birtar í blöðum þeirra á forsíðum feitletraðar greinar í ramma, hversu gífurlegar tekjur sjómenn fengju. Það hefur ekki leynt sér, í hvaða tilgangi þessi skrif hafa verið birt. Það kemur því varla til mála, að nokkur sjómaður hér á landi eða útgerðarmaður muni taka þá till., sem hér liggur fyrir, alvarlega á þann hátt, að þetta sé mikilvæg ráðstöfun þeim til handa.

Þegar þessi till. kom fyrst fram hér á þingi, þá kom hún fram rétt á eftir till., sem ég ásamt tveimur hv. samflokksmönnum mínum hafði flutt hér um það, að efnt yrði til sérstakra trygginga á vegum þess opinbera, sem reyndu að tryggja hlutarráðnum fiskimönnum og smáútvegsmönnum eitthvert lágmarkskaup. Það leyndi sér ekki, þegar þessar till. komu fram frá okkur sósíalistum, að hv. flm. þessarar till. varð nokkuð órótt, og það var sagt í umr. um þær mundir, að þessi till. hv. þm. væri beinlínis fram komin vegna þeirrar till., sem við sósíalistar fluttum, en sú till., sem við fluttum þá viðvíkjandi lágmarkskaupi til handa sjómönnum, var í rauninni af allt öðrum toga spunnin. Þá lá fyrir, að hlutarráðnir fiskimenn mundu gera kröfu um, að þeim yrðu tryggð lágmarkslaun og að það gæti ekki svo farið í ýmsum einstökum tilfellum, að þeir gengju svo til kauplausir frá borði, og sjómannafélögin höfðu viljað fá slíka tryggingu setta inn í kaup- og kjarasamningana. Hins vegar var það kunnugt mál, að smáútgerðin í landinu átti erfitt með, þegar eitthvað bar út af, að uppfylla þessar kröfur sjómanna um tryggingu fyrir lágmarkskaupi, þegar afli brást að verulegu leyti. Sú ráðstöfun, sem við þm. Sósfl. lögðum því til í þessari till., var sérstaklega fyrir smærri útgerðina í landinu, sem átti erfitt með að uppfylla þessar kröfur. En flm. þessarar till. og fylgismenn hans vildu ekki sinna þessari till. okkar á nokkurn hátt, og þeir vildu þráast á móti því svo lengi sem þeir treystu sér til, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að tryggja hlutarfiskimönnum lágmarkslaun. Reynslan hefur orðið sú í þessum efnum, að sjómannasamtökin hafa víðast hvar knúið fram þessi ákvæði og tryggt hlutarfiskimönnum lágmarkslaun. Hins vegar hefur smærri útgerðin víða fengið verulega skelli, og nærtækt dæmi um það eru síldveiðarnar í sumar. Það hefur því sýnt sig, að það var orð í tíma talað, að komið væri upp kauptryggingastofnun til þess að mæta slíkum atvikum eins og síldarleysinu s. l. sumar, vegna þess að fiskimenn mundu gera kröfur til þess, að þeir fengju kaup í slíkum tilfellum. En hvernig er svo afstaða hv. flm. þessarar till., sem hér liggur fyrir, viðvíkjandi alveg óhjákvæmilega nauðsynlegum ráðstöfunum gagnvart íslenzkum útgerðarmönnum vegna þess tjóns, sem þeir hafa orðið fyrir á s. l. sumri vegna síldarleysisins? Hér er komið fram frv. um að styðja þá útgerðarmenn nokkuð, með því að veita þeim ábyrgðarlán með ábyrgð ríkissjóðs, svo að þeir fái bæði staðið undir þessari lágmarkskauptryggingu til skipshafna sinna og sé einnig gefinn kostur á því að halda áfram útgerð, ef þeir verða ekki gerðir upp vegna þeirra tapa, sem þeir hafa orðið fyrir í sumar. En flm. þessarar till., sem vill láta reikna út, hver sé framleiðslukostnaður sjávarafurða í landinu, sem hann telur, að séu stórkostlegar ráðstafanir fyrir fiskimenn í landinu, hann hefur ekki séð sér fært að vera með þessari ráðstöfun til síldveiðimanna, heldur hefur hann einn af fulltrúunum í sjútvn. þessarar d. skorizt úr leik og ekki treyst sér til að fylgja því frv., sem fjallar um þetta efni. Það vakir ekki heldur fyrir hv. flm. þessa frv. eða flokki hans að gera verulegar ráðstafanir til úrbóta fyrir hlutráðna sjómenn eða útgerðarmenn. Þeir eru á móti því að efla skipastólinn og byggja verksmiðjur og á móti því, að gerðar séu eðlilegar ráðstafanir, þegar út af bregður, en vilja gjarnan setja á stofn n. til þess að reikna út, að ekki borgi sig að gera út á Íslandi.

Um það verður ekki villzt, að flutningur þessarar till. er með öllu þýðingarlaus, og ég fyrir mitt leyti mun greiða atkv. gegn till. sem algerlega þýðingarlausri. Mitt svar til þeirra manna, sem flytja þessa till., er það, að áður en ég tek till. um efni eins og hér liggur fyrir alvarlega frá þeirra hálfu, ættu þeir að sýna í verki, að þeir fylgja a. m. k. einu máli, sem væri til hagsbóta og góðs fyrir fiskimenn og útgerðarmenn á Íslandi.