14.03.1946
Neðri deild: 87. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (3766)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi, út af því, sem hv. 6. landsk. þm. sagði, láta þess getið, að það er ákaflega fjarri því, að ég óski eftir, að sett sé nein löggjöf, sem svipti sveitarstjórnir rétti til þess að velja sér oddvita. En hitt er það, að ég taldi skyldu mína, þegar frv. eru flutt á hæstv. Alþ. um þetta efni og þá um leið sérstaklega undirstrikuð, eins og hv. 2. þm. Eyf. gerði, þörf viðkomandi sveitarfélags til þess að fá forustu í sínum sveitarstjórnarmálefnum, og það ekki bundið á neinn hátt í frv., að svo skuli vera, — að benda á, að það er ekki verið með þessu eða þvílíkum frv. að tryggja sveitarfélögum neinn mann í oddvitastörf. Því að það verður undir þeim kjörnu hreppsnefndum komið í hvert sinn, hvort embættismanni, sem ríkið er búið að skipa, eru falin oddvitastörf í sveitarstjórnarmálefnum eða ekki. Ég tel alveg óeðlilegt og varhugavert að stofna embætti, með þeim launum, sem ákveðin eru í launal. til lögreglustjóra, á þann hátt, að ekki sé tryggt, að menn þessir hafi nóg verkefni. Og ég tel hins vegar, að í kauptúnum með undir eitt þúsund íbúum sé á engan hátt nægilegt verkefni handa einum manni að vera lögreglustjóri þar. Ég vil enn fremur benda á, að gert er ráð fyrir í þessu frv. og brtt., að þessir, lögreglustjórar séu launaðir samkv. launal., með 6000 til 8400 kr. launum, en fái svo að auki þóknun frá hreppsbúum, ef þeir taki að sér oddvitastarf. Nú er það svo, að það er ekkert sérstakt fyrir Búðahrepp í Fáskrúðsfirði eða Dalvík, að nauðsyn beri til þess fyrir þorpsbúa að fá forustu í sveitarmálefnum. Þetta er yfirleitt svo í öllum hreppum og kauptúnum á landinu, en nokkuð mismunandi eftir stærð og vexti. Og tel ég, að hæstv. Alþ. hafi misstigið sig með því að stofna þessi embætti, eins og til þeirra hefur verið stofnað. Þó vil ég þar undan taka Akranes, sem búið er að fá kaupstaðarréttindi og er allfjölmennur staður. En ef þetta frv. verður samþ., verðum við að gera okkur grein fyrir því, að ýmis kauptún fleiri víðs vegar á landinu munu koma fram með sams konar kröfur um að fá lögreglustjóra hjá sér. Og ef haldið verður áfram á þessari braut að setja þessa löggjöf á líkan hátt og hún hefur verið sett og á líkan hátt og hér liggur fyrir frv. um, verða stofnuð embætti, sem eru fleiri en sýslumannsembættin á landinu, og embætti, sem eru þannig, að embættismenn í þeim hafa ekki starfi að gegna, sem sé fullt starf fyrir einn mann, en þó með fullum launum samkv. launal. Og það er ekki heilbrigð stefna að halda slíku áfram.

Ég er hv. 6. landsk. alveg sammála um það, að það sé ekki eðlilegt að skylda hreppsnefndir til þess að hafa starfandi oddvita, þvert ofan í vilja hreppsnefndanna. En er þá ekki líka óeðlilegt, að ríkið sé að stofna embætti með fullum launum í því skyni, að hreppsnefndir geti notað þessa menn, ef þeim sýnist, en annars séu þeir settir í þessi kauptún á fullum launum, en með verkefnum, sem eru ekki líkt því fullt starf fyrir einn mann? Ég hef sjálfur setið lengi í bæjarstjórn og skil það vel, hvers virði það er einu sveitarfélagi að eiga góða forustu, sem sveitarfélagið kýs sér í hvert sinn. En að svo verði á viðkomandi stað, er alls ekki tryggt með ákvæðum þessa frv., þó að samþ. yrði, eða annarra frv. álíka, sem fram kunna að verða lögð.

Hv. 6. landsk. þm. lét þess getið, að þetta frv. um lögreglustjóra í Búðahreppi væri ekki komið fram, að mér skildist, eingöngu vegna þess, að það vantaði hreppsnefndaroddvita á þessum stað. En í því sambandi má benda á, að önnur röksemdin, sem fram var færð af hálfu hreppsnefndar fyrir því, að frv. er borið fram, er sú, að starf oddvita á þessum stað sé orðið svo umfangsmikið, að ekki sé hægt að hafa það sem hjáverkastarf. Ég þarf ekki að ítreka það, hversu óeðlilegt það er, að stofnað sé til embætta í þeim tilgangi, a. m. k. að hálfu leyti, að sjá sveitarfélögunum fyrir forustu um þeirra sveitarstjórnarmál, en láta það svo óbundið, hvort sveitarstjórnir noti starfskrafta þessara embættismanna, sem ríkið skipar. En ef slíkt embætti er stofnað, þ. e. með þetta að hálfu leyti fyrir augum, verður niðurstaðan sú, að ríkisstj. stofnar til embættis, sem er ekki fullt starf fyrir einn mann, en ríkið launar hann með fullum launum. — En því miður yrði þetta ekki einstakt fyrirbrigði, þessi tilmæli íbúa Búðahrepps. Ef Búðahreppur í Fáskrúðsfirði fengi lögreglustjóra hjá sér, mundu nokkur kauptún á Vesturlandi koma fram með svipaðar kröfur. Og nokkur kauptún á Norðurlandi mundu eiga sams konar rétt til þess að fá lögreglustjóra og Búðahreppur í Fáskrúðsfirði. Og það er mín skoðun, að þessi mál eigi að taka til gaumgæfilegri athugunar en gert hefur verið, áður en haldið er lengra á þeirri braut að skipa sérstaka lögreglustjóra í kauptúnum landsins.