15.03.1946
Sameinað þing: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (3882)

109. mál, vatnsveita Stykkishólms

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Till., sem hér liggur fyrir til síðari umr., er um heimild fyrir ríkissjóð að ábyrgjast 500 þús. kr. lán fyrir vatnsveitu Stykkishólms. Þetta mál hefur áður verið reifað hér á þingi, bæði í sambandi við fjárl. og í sambandi við till., sem ég flutti með hv. þm. Vestm. um vatnsveitur. Eins og mörgum er kunnugt, er hér um mjög mikið nauðsynjamál að ræða, sem krefst úrlausnar fljótt. Gangur þessa máls er á þá leið, að eftir að felldar voru till. um styrk ríkisins til þessa, sneri oddviti Stykkishólmshrepps sér til nýbyggingarráðs með bréfi 4. apríl 1945. Síðar ræddu fulltrúar hreppsins við nýbyggingarráð um þetta mál, og að þeim viðræðum loknum taldi nýbyggingarráð hér vera á ferðinni svo mikið og aðkallandi nauðsynjamál, að það skrifaði formönnum þingflokkanna bréf, dags. 29. maí 1945, og með leyfi forseta ætla ég að lesa kafla úr þessu bréfi. Þar segir svo meðal annars:

„Íbúarnir eru um 700 manns. Í kauptúninu er sjúkrahús með milli 40 og 50 rúmum, 2 hraðfrystihús, ein skipasmíðastöð, eitt húsgagnaverkstæði og eitt vélaviðgerðarverkstæði. Dráttarbraut er að verða fullbúin og beinamjölsverksmiðja er fyrirhuguð. Þorpið er í örum vexti, t. d. 10 hús í smíðum sem stendur. En þarna er ekkert drykkjarvatn annað en það, sem sækja verður á kerrum og bílum langar leiðir að. Auk þess er það vatn, sem þarna næst, mjög slæmt talið. Með því að leggja 10 km. langa vatnsleiðslu að þorpinu má fá ágætt drykkjarvatn, og er aðkallandi þörf á slíkri leiðslu tafarlaust.“

Þá hef ég líka hér svarbréf flokkanna, sem öll eru mjög á sömu leið. Bréf miðstjórnar Sjálfstfl. er á þessa leið, með leyfi forseta: „Í tilefni af bréfi hv. nýbyggingarráðs, dags. 29. maí þ. á., varðandi vatnsveitumál Stykkishólms, hefur miðstjórn Sjálfstfl. samþ. að styðja till. á næsta Alþ. um, að ríkið ábyrgist allt að 500 þús. kr. fyrir hreppsnefnd Stykkishólms vegna vatnsleiðslu þeirrar, sem fyrirhuguð er í kauptúninu.“

Svör hinna flokkanna eru mjög á sömu leið. Eftir þessar undirtektir þingflokkanna ritaði svo nýbyggingarráð oddvita hreppsins bréf, dags. 23. júlí 1945, þar sem ráðið tilkynnir honum þessar undirtektir, sem það væntir, að verði nægilega trygg undirstaða til þess að byggja á.

Eftir þessar yfirlýsingar og fyrirheit hefur hreppurinn hafið aðgerðir í málinu, með þeirri von og vissu, að málið gangi að óskum. Ég gerði ráð fyrir, að þetta mundi ganga mjög skjótt, en raunin hefur ekki orðið sú. Þetta mál var lagt fyrir fjvn. í nóvember síðastliðnum, en hefur ekki fengizt afgr. frá henni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Af þessum ástæðum taldi ég mig til neyddan að fara þess á leit við forseta að taka málið fyrir ári þess að nál. lægi fyrir. Í viðtali við form. fjvn. bar hann því við, að í undirbúningi væri heildarfrv. um vatnsveitur í kauptúnum, og taldi eðlilegt, að þetta frv. biði eftir því. Það er ekki vegna þess, að ég sé á móti heildarlöggjöf um þetta efni, þvert á móti, en ég tel, að þetta mál þoli enga bið. Þorpið er svo illa statt hvað neyzluvatn snertir, að brýn nauðsyn er að bæta úr því, auk þess sem þegar eru hafnar framkvæmdir á þeim forsendum, sem áður hefur verið lýst. Ég vænti því, að þingheimi sé ljóst, að þetta mál þolir enga bið, og vænti, að till. verði samþ.