15.03.1946
Sameinað þing: 33. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (3921)

86. mál, fiskirannsóknir og fiskirækt í Hamarsfirði

Sigurður Kristjánsson:

Það hefur ekki mikla þýðingu að deila um þessa till., því að sýnilegt er, að þm. vilja ekki hlusta, og líklegt, að atkvgr. geti ekki farið fram.

Eins og nál. fjvn. ber með sér, þá hefur n. álitið réttmætt, að fiskirannsóknirnar, sem rætt er um á þskj.133, fari fram. Og þó að ég geti ekki tekið undir það með hv. 6. landsh., að þetta séu stórmerkilegar rannsóknir, þá taldi n. eigi að síður rétt að stuðla að því, að þetta mál yrði samþ. — Aðalatriðið í þessu máli er friðun á þeim stöðvum, sem eru þýðingarmiklar sem uppeldisstöðvar fyrir fiska. Nú virðist sem í Hamarsfirði sé aðallega um skarkola, að ræða, en ég hef hvorki þekkingu né trú á að fara að koma upp úthafsfiskirækt, og fiskifræðingar hafa látið í ljós, að það mundi ekki framkvæmanlegt. En friðunin getur verið mikilvæg, og því hefur n. mælt með því, að þetta verði samþ.

Mér skilst, að hv. 6. landsk. hafi ekki annað við þetta að athuga en að féð til þessara framkvæmda skuli greitt úr fiskimálasjóði, en ekki úr ríkissjóði, en mér finnst síður en svo óeðlilegt, að fiskimálasjóður styðji þetta, og finnst mér þessi afstaða hv. 6. landsk. undarleg. Enda er og tekið fram, að ef fiskimálasjóður hafi ekki handbært fé til þessa vegna annarra aðkallandi verkefna, þá verði kostnaðurinn greiddur úr ríkissjóði til bráðabirgða, og er þetta sett til að hindra, að þessar framkvæmdir dragist. Og ég vil benda á það, að við höfum nú nýlega, með aðstoð þessa hv. þm. ásamt öðrum þm., skilið við ríkissjóðinn með 20–30 millj. kr. greiðsluhalla og því ekki á það bætandi. Það er ekkert fé til í ríkissjóði, og ekki einu sinni fyrir lögfestum útgjöldum, og þó erum við að samþykkja fjárframlög úr sjóði, sem ekkert fé er til í. Það er þegar búið að tefla á tæpasta vað með útgjöld úr ríkissjóði, og þótt hægt sé að segja, að hér sé ekki um stóra fjárupphæð að ræða, þá verður þó hver dropi, sem dettur, til þess að fylla mælinn á endanum. Ef hv. flm. meinar með till., að rannsóknir verði á annað borð gerðar, þá hlýtur það að vera mergurinn málsins, og þá er fé það, sem til þeirra þarf, engu verr heimilað úr fiskimálasjóði en ríkissjóði, sem þegar hefur meira en nóg útgjöld.