02.04.1946
Sameinað þing: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (4061)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Einar Olgeirsson:

Það er langt liðið síðan ég hef getað tekið þátt í þessum umr., og ekki margt, sem ég þarf að ræða. Ég er áður búinn að lýsa eindregið minni skoðun á þessu máli, og hún er sú, að það nái engri átt að samþ. þá höfuðtill., sem hér liggur fyrir. Og það er líka svo komið, að sá prófessor, sem við eigum hér innan þings, er nú farinn að bera fram leiðréttingar á þessari till., sem m. a. fyrrv. dómsmrh. og forsrh. er flm. að, af því að till. fái ekki staðizt, ef hún verður samþ. eins og hún er nú. Ég býst þess vegna við, að margir, sem hafa sótt þetta mál fastast frá upphafi, ættu að vera farnir að átta sig dálítið á því og sjá, að það sé að öllu leyti heppilegast að láta þetta mál ganga sinn venjulega gang gegnum þingið og hæstv. dómsmrh., sem hefur málið í sínum höndum, halda áfram þeim rannsóknum, sem hann er með í þessu sambandi, og síðan sé landsvistarleyfi veitt, þegar þeim rannsóknum er lokið.

Það gekk svo langt við þær umr., sem fóru fram síðast þegar ég gat tekið þátt í þeim, að hv. frsm. utanrmn., 1. þm. Reykv., varð sjálfur að bæta inn í ræðu hjá mér, að hann hefði ætlazt til, að fram færi rannsókn í þessu máli, áður en þetta leyfi væri veitt, en það fólst ekki í þeirri till., sem fyrst lá fyrir, svo að það sýndi sig, að sjálfur frsm. utanrmn., sem hafði fengið málið til umr., hafði í fyrstunni ekki gert sér grein fyrir, hvernig þessi till. var, sem hann mælti með, að samþ. yrði.

Það hefur nú komið fram, að till. eins og hún þá lá fyrir var þannig, að hún gat ekki staðizt, að það var ekki hægt með þáltill. að taka af dómsmrh. það vald, sem hann hefur samkv. l. Ég vona því, að þeir, sem sótt hafa fastast á hér, fari að átta sig svo mikið á þessu máli, að það mætti komast að samkomulagi um að vísa málinu til dómsmrh. á þeim forsendum, að með því að málið væri í rannsókn, þá væri ekki ástæða til þess, að þingið væri að hraða því frekar, og mun ég nú undirbúa till. að rökst. dagskrá, sem ég skal leyfa mér að biðja hæstv. forseta um afbrigði fyrir, svo framarlega sem þess er þörf, að með því að ráðh. hafi þetta mál til rannsóknar, þá sjái þingið ekki ástæðu til annars en að taka fyrir næsta mál á dagskrá. Ég held, að það sé að öllu leyti bezta meðferðin, sem þetta mál gæti fengið, þó að það sé nú til allrar hamingju búið að afstýra því, að málið verði afgr. þannig, að það sé hneyksli. Ég vona, að hv. þm. sætti sig við að vísa málinu til ráðh., og svo gengur það sinn venjulega gang, eins og l. mæla fyrir. Ég ætla rétt að hreinskrifa þessa till., og svo skal ég afhenda hæstv. forseta hana.