27.04.1946
Sameinað þing: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (4145)

234. mál, fjárskipti

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, ég hafði ekki hugsað mér að taka mikinn þátt í þeim. En það var ekki alls kostar rétt með farið, þó að í höfuðdráttum væri það rétt hjá hæstv. landbrh., að ég hefði, þegar landbn. Alþ. leitaði umsagnar minnar um innflutning á sauðfé til landsins, lagzt á móti því. En þetta er ekki rétt, að ég hafi lagzt á móti því, heldur taldi ég hættuna svo mikla, að ég þorði ekki að mæla með því. Það hafa komið opinberar tilkynningar í gegnum ráðuneytið til mín frá Englandi um það, að yfirvofandi hætta gæti verið vegna gin- og klaufaveiki. Það eru bendingar til mín um það að vera á verði. Og hvernig á ég svo að gefa út flottar yfirlýsingar um það, að við skulum flytja inn þetta fé? Eða hvernig á ég svo að mæla með því að flytja inn sauðfé eða þetta frjóvgunarsæði í sauðfé nema fyrst liggi fyrir glögg yfirlýsing um það, að þetta sæði sé úr sauðfé, sem engin pest er í? Hins vegar get ég gefið þá yfirlýsingu, að það er engin hætta á, að sæði flytji inn með sér sjúkdóm nema samgöngur séu við pestarsvæði.

Hæstv. landbrh. sagði, að það hefði verið flutt inn sæði í sauðfé frá Englandi til tilrauna, og það er rétt. En hann sagði enn fremur, að það hefði mistekizt, en það mistókst ekki, því að sjálfur sauðfjárræktarráðunautur ríkisins sagði mér það í fyrradag, þegar ég í annað skipti var boðaður á fund til sauðfjársjúkdóman. ríkisins til skrafs og ráðagerða um eitt og annað. Hann sagði mér, að það hefðu frjóvgazt hátt á annað hundrað rollur, og er það strax tilraun, ef við fáum kannske 200 lömb eða meira. Þetta er líka aðeins byrjun, og við skulum vona, að það takist betur, ef við reynum aftur. Ég er ekki svo ákaflega hræddur við innflutning á sæði til tæknilegrar frjóvgunar, ef það er tekið úr heilbrigðum fjárstofni og heilbrigðu héraði. Hins vegar er ég alveg á móti innflutningi á lifandi sauðfé, og ég mun aldrei mæla með því. Allt farganið vegna karakúlkindanna ætti að vera búið að kenna okkur það mikið, að við létum okkur ekki detta í hug að flytja oftar inn lifandi fé. Og við höfðum moskusuxa í eyjum hér við landið, en þeir drápust sjálfir. Og svona hefur það gengið. Við skulum hugsa okkur, að við flyttum inn nokkrar kindur í þessu augnamiði og hefðum þær í einhverri eyju og mann með þeim og allt væri einangrað í þrjá mánuði og allt gengi vel. Ætli fleiri færu ekki fram á að flytja inn kindur, og ef svo og svo mörgum yrði leyft það, þá er ég hálfhræddur um, að varkárnin færi að minnka. Og það er kannske ekki aðeins gin- og klaufaveikin, sem um er að ræða og við mundum standa varnarlausir gegn, það er t. d. fliðruveiki í sauðfé, og ég veit ekki, hvernig við gætum snúizt við henni, því að kindin getur sýnzt heilbrigð.

Það, sem hæstv. landbrh. var að tala um ónæmi, veit ég ekki vel, hvað hann átti við. Ráðh. var að tala um, að hægt væri kannske að fá stofn, sem væri ónæmur fyrir vissum sjúkdómum. En fyrir hverju á að verja? Það er ekki enn nægilega sannað, að hér sé um smitandi veiki að ræða, þó að hv. þm. o. fl. hafi rætt um mæðiveikina sem smitandi sjúkdóm. En fræðimönnum hefur ekki tekizt að sanna neitt í þessu máli, og allt er því í lausu lofti enn. Menn eru hér á landi að kalla hana ýmsum nöfnum, og eins borgfirzku mæðiveikina og þá þingeysku, og á önnur að vera þurr, en hin kvað vera blaut. Og eru þessi nöfn eitt dæmið um það makalausa fálm, sem hefur verið hér í 10 ár.