26.04.1946
Sameinað þing: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (4234)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Það hefur lengst af verið talið hafið yfir allar deilur, að undirstaða að lífi og afkomu íslenzku þjóðarinnar væri framleiðsla hennar á landi og sjó, þ. e. landbúnaður og sjávarútvegur. Gengi þessara höfuðatvinnuvega þjóðarinnar ætti því að vera öruggt vitni þess hverju sinni, hvort atvinnulíf þjóðarinnar er heilbrigt eða sjúkt, og vitneskjan um það, hvert horfir um afkomu þeirra, að vera óbrigðult leiðarmerki um það, hvort rétt er stefnt í atvinnumálunum. Ef framleiðsla til lands og sjávar tekur að lamast fyrir hallarekstur og fjárþröng, er þjóðarafkoman í voða, jafnvel þótt blómlegt athafnalíf á öðrum sviðum þjóðfélagsins geti um stund bent til velmegunar og uppgangs með þjóðinni. En slík starfsemi verður endaslepp, þegar málum er þannig komið. Hún er þá eins og afskorin jurt, sem getur lifað og blómstrað í vatnsglasi um stund, en hlýtur að visna og falla áður en varir, af því að hún vex ekki af þeirri rót, sem ein er fær um að gefa henni varanlega næringu. Hvernig er nú ástatt með þjóðinni í þessum efnum?

Athugum fyrst sjávarútveginn, sem er undirstaða að þjóðaraðdráttum og utanríkisviðskiptum og talinn hið græna tré ríkisstj. Framan af styrjöldinni var sú starfsemi í miklum uppgangi. Hið erlenda markaðsverð varð brátt mjög hagkvæmt. Útvegurinn færðist í aukana, þrátt fyrir margvíslega aðra örðugleika. Hver fleyta var mönnuð og nýjar smíðaðar. Fjárhagsafkoma útvegsins umskapaðist á skömmum tíma til hins betra, og fiskimannastéttin varð tekjuhæsta stétt landsins, sem og maklegt var. Þannig gekk um skeið. Hvernig horfir svo þessum málum við nú? Allt til þessa hafði fiskverðið verið svipað og fór lengi fremur hækkandi. Er þá ekki uppgangur sjávarútvegsins enn hinn sami og í upphafi styrjaldarinnar? Það er bezt að láta staðreyndirnar tala. Fiskiþingið í vetur samþykkti og lét frá sér fara svohljóðandi boðskap:

„Fiskiþingið telur fjárhagsgrundvöll vanta til þess, að hægt verði, að óbreyttum ástæðum, að gera vélbátaflotann út á þorskveiðar í vetur. Telur þingið, að útgerðin geti því aðeins hafizt, að útgerðarkostnaður verði með opinberum ráðstöfunum, færður niður til verulegra muna eða afurðaverðið hækkað.“

Um líkt leyti skrifaði Landssamband útvegsmanna stjórnmálaflokkunum bréf, þar sem svo segir m. a.: „Eins og yður mun vera kunnugt, hefur hagur smáútgerðar í landinu sífellt farið hnignandi síðan 1942. Nú er svo komið, að smáútvegsmenn almennt munu eiga erfitt með að halda áfram rekstri við þá aðstöðu, sem þeim nú er búin, og út í þá óvissu, er ríkir, hvað afkomumöguleika smáútvegsins snertir.“

Þarna tala þeir menn, er sjálfir hafa skóinn á fætinum og vita, hvar hann kreppir að. En það er fleira, sem hér talar sínu máli. Ríkisstj. hefur með miklu brauki og bramli samið um smíði fjölda nýrra skipa — togara og vélbáta. Þrátt fyrir miklar auglýsingar og eftirgangsmuni og óvenju hagkvæm lán hefur gengið mjög treglega að fá þá, sem að eðlilegum hætti ættu að vilja eignast og reka þessar fleytur — sjómenn, útgerðarmenn og útgerðarfélög —, til að ganga inn í kaupin. Hvers vegna? Vegna þess, að þeir hafa annað tveggja ekki getu til að eignast þá eða trú á atvinnurekstrinum, eins og nú horfir. Framan af styrjöldinni voru engin vandkvæði á að fá menn á skip og báta, jafnvel þótt hér rigndi eldi og brennisteini. Nú er það vitað mál, að oft gengur mjög treglega að manna allar fleytur til sjósóknar. Vegna hvers? Vegna þess, að það er undir hælinn lagt, að þeir fái störf sín á sjónum eins vel borguð og það, sem þeim stendur til boða við önnur störf, og vilja því eðlilega losna við þá margvíslegu áhættu, er sjómennsku og útgerð fylgir, en hlutasjómennirnir eru líka útgerðarmenn.

Síðastliðið sumar brást, sem kunnugt er, síldveiðin norðanlands, sem er engan veginn ný saga í þeim annars mikla uppgripaatvinnuvegi. Nú mætti ætla, að útvegurinn hefði staðið sæmilega uppréttur þrátt fyrir það áfall, eftir mörg óvenjuleg góðæri. En hvernig fór? Alþingi varð að gera sérstakar hallærisráðstafanir til bjargar síldarflotanum vegna aflabrests þessa einu vertíð. Hvers vegna? Vegna þess, að það ófafé, sem síldarútvegurinn hefur á undanförnum árum ausið upp af miðunum, hefur verið tappað af honum jafnóðum, gegnum hina sívinnandi sogpípu dýrtíðarinnar, sem undanfarið hefur eflzt og víkkað með hverju árinu, sem hefur liðið. Og stjórnarliðið hefur lagt blessun sína yfir það, að þetta ófremdarástand færðist í aukana með síauknum byrðum á framleiðsluna, og hrópað hástöfum um, að hún þyldi þetta vel. Hér væri aðeins verið að „dreifa“ stríðsgróðanum. Þó veit hvert mannsbarn það, að á undanförnum árum hafa verið greiddir tugir milljóna króna úr ríkissjóði, til þess að létta á dýrtíðinni í landinu. Hvers vegna? Vegna þess, að annars lá við, að meira eða minna af framleiðslustarfseminni stöðvaðist. Þó að það hafi verið svo og sé sem betur fer enn, að þau skipin, sem bezta hafa aðstöðuna og bezt er stjórnað, hafi verið rekin með hagnaði, þá er það enginn almennur mælikvarði. Eða er það ætlunin að halda þessari helstefnu atvinnulífsins óbreyttri, þar til síðasta togaranum verður lagt við landfestar vegna hallareksturs? Menn skyldu nú ætla, að atburðir þeir, sem ég hef rakið hér að framan, hefðu opnað augu stjórnarliðsins fyrir því, hvert stefnir. Jú, því er ekki að neita. — Ég hef áður minnzt á hallærisráðstafanir vegna síldarflotans. En það hafa einnig verið samþ. önnur lög, „til ráðstöfunar vegna bátaútvegsins“. Mundi það nú ekki vera til lækkunar á útgerðarkostnaðinum, eins og fiskiþingið benti á í fremstu röð? Og sei; sei, nei. Útgerðarkostnaðurinn heldur áfram að aukast En það var annað, sem gert var, sem í sjálfu sér er miklu einfaldara: fiskverðið var bara hækkað, a. m. k. á pappírnum. Og svo voru samþykkt lög um það, að ríkið tæki á sig ábyrgð á verði því, sem útgerðin þarfnaðist á frystum og söltuðum fiski, tæki á leigu flutningaskip til fiskkaupa o. s. frv. Það er nú meiri hundaheppnin fyrir þá, sem eru að fikta við framleiðslu, að vera búsettir í þjóðfélagi, sem hefur þá hjartalag til þess að reka svona hjálparstarfsemi. Ég veit ekki, hvar framleiðendur væru annars komnir.

Ýmsir rithöfundar ríkisstj. eru nú búnir að fræða þjóðina allrækilega um það, að landbúnaður borgi sig ekki á Íslandi. Hann sé ekki annað en sport fyrir „ídíóta“, og að það væri mesti búhnykkur fyrir þjóðina að taka þessar bændahræður upp og mata þær á hóteli, í stað þess að láta þær mergsjúga þjóðina með landbúnaðarframleiðslunni. Það er máske þess vegna, sem ríkisstj. ætlar að láta byggja hótel fyrir 15 millj. króna. En ætla þær raunir nú að bætast ofan á þær fyrri, að útgerðin verði líka ómagi á ríkinu? Ég er alltaf að bíða eftir því, að einhver spámaður rísi upp á meðal vor — spámaður, sem kemur þjóðinni í skilning um það, að ekki borgi sig að reka sjávarútgerð á Íslandi, — það sé aðeins sport fyrir stórlega geggjaða menn. Er nú ranghverfan á þessum hlutum ekki komin nægilega skýrt fram, þegar ástandið er orðið þannig, að sú starfsemi, er þjóðin byggir líf sitt og afkomu á, framleiðslan til lands og sjávar, er sýnd sem aðalbónbjargarstarfsemin í landinu? Og svo er ríkið af miskunn sinni að halda lífinu í þessari starfsemi með náðarmolum úr ríkissjóði. En hvað þetta minnir á söguna af karlinum, sem lengi var að basla við að draga rolluna sína upp úr feni — á þann hátt, að hann stóð á skrokknum á henni og togaði í hornin. Vitanlega hélt hvort tveggja áfram að sökkva, þar til breytt var um vinnubrögð. Og eins verður vitanlega nú.

Nei, þessar ráðstafanir eru ekki nema á yfirborðinu vegna sjávarútvegsins. Þetta eru í raun og veru ráðstafanir vegna stjórnarútvegsins, ráðstafanir til þess að halda stjórnarskútunni á floti enn um stund á þessari feigðarsiglingu með átrúnaðargoð stjórnarinnar, verðbólguna, eins og lík í lestinni. Atvinnuvegir Íslendinga lifa ekki lengi á náðarmolum úr ríkissjóði. Þeir þarfnast þeirra ráðstafana einna saman, að þeim séu sköpuð starfsskilyrði, er sambærileg séu við það, er gerist meðal þeirra þjóða, er þeir eiga að keppa við. Þá munu þeir sjálfir sjá sér farborða sem fyrr — og þjóðinni með.

Ég veit nú svo sem, hvernig forsvarsmenn stjórnarstefnunnar svara þessum staðreyndum. Við þekkjum orðið þann söng. Hann er þetta : Hinar rándýru landbúnaðarafurðir eru búnar að sprengja svo upp allt verðlag í þessu landi, að hér er ekki hægt að reka neina starfsemi, er staðizt getur samkeppni annarra þjóða. Ég vil því þegar gera þessum fullyrðingum nokkur skil. — Víst er landbúnaðarvöruverðið hátt. Því skal ekki neitað. En mundi það nú ríða hér baggamuninn? Í óvenjulega glöggri greinargerð, er nýlega birtist í blaðinu Degi, eftir Gunnar Jónsson sjúkrahúsgjaldkera, er hefur tveggja áratuga reynslu um fæðissölu, er lagður fram sundurliðaður reikningur yfir það, hvað karlmannsfæði kostar. Samsetningur fæðunnar er m. a. byggður á skýrslum úr bókinni Mataræði og heilsufar á Íslandi, eftir dr. Júlíus Sigurjónsson, er sýna raunverulega matvælanotkun í fæði karlmanna í 6 kaupstöðum og kauptúnum. Matsöluhús selja nú karlmannsfæði um 480 kr. á mánuði, eða 5760 kr. yfir árið. Af þessu kostar allt efnið í ársfæðið, þar með talið kaffi og krydd, nú kr. 1631,85, en húsnæði, eldiviður og vinna við matseldina yfir 4000 kr. Kjarninn í fæðunni, landbúnaðarvörurnar, kostar, með vinnslukastnaði mjólkurbúa og sláturhúsa og verzlunarálagningu, um 1100 kr. yfir árið. Af þessum 1100 kr. er svo hið eiginlega framfærsluverð — það, sem rennur í bú bóndans, — tæpar 800 kr. Og svo er því haldið fram, að þessar 800 kr. í ársfæði, sem kostar 5760 kr., ráði niðurlögum þjóðfélagsins. — Þá mun láta nærri, að vönduð ullarföt á karlmann og frakki kosti um 1100 kr. Ullin í þessar flíkur kostar tæpar 70 kr. Svo eiga náttúrlega þessar 70 kr., sem fara til bóndans, að valda því, að menn hafa ekki efni á því að klæða sig sómasamlega. Þannig er einnig hér hlutunum gersamlega snúið við. Og svo eru menn sitt á hvað að reyna að bera róg á milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins, að þeir séu að eyðileggja hvor annan, eins og krabbinn og berklarnir, er drápu hvor annan í sögunni hjá Halldóri Kiljan. Hið sanna í málinu er hitt, að það er einn og sami níðhöggurinn, þ. e. verðbólgan, sem nagar rætur beggja þessara stofna.

Í sexmannanefndarsáttmálanum alkunna og lággjöfinni um hann var það ákveðið sem grundvöllur undir verðlagningu landbúnaðarafurðanna, að bændur fengju það verð fyrir framleiðslu sína, að meðalbóndinn hefði tekjur í samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta þjóðfélagsins. Það hefur nú sannazt eftir á, að þegar verðlag landbúnaðarvara er mælt á þennan mælikvarða, þá hefur tekizt svo til um verðákvörðunina, að nær engu hefur skeikað, að þessu hafi verið fylgt öll stríðsárin fram til þess tíma, að þessi löggjöf var sett, nema aðeins í eitt sinn. Það var haustið 1942, er 2. þm. Rang., Ingólfur Jónsson, réð því, í skjóli sömu stjórnarsamsteypu og nú ræður ríkjum, að kjötverðið var sett það hátt, að í algeru ósamræmi varð við þáverandi kaupgjald. En þá voru líka kosningar í hönd og stjórnarflokkunum var mjög áríðandi að geta fengið sem flesta bændur til að gjalda jákvæði stjórnlagabreytingu, sem m. a. hafði það í för með sér, að áhrif þeirra á Alþingi yrðu hæfilega máttvana — til þess að óhætt væri á eftir að bjóða bændastéttinni ýmislegt af því, sem síðar hefur fram komið. Það má því telja sannað mál, að verðhækkun landbúnaðarvaranna undanfarin ár hefur að jafnaði aldrei gert betur en að halda í horfinu við hækkun kaupgjaldsins til að tryggja það, að tekjur bændanna yrðu nokkurn veginn hliðstæðar tekjum annarra svokallaðra láglaunastétta. Og þetta hefur kostað harða og þráláta baráttu, sem innan þingsins hefur verið háð undir forustu Framsfl., og fyrir það hefur hann verið rægður og svívirtur ótæpt í kaupstöðum og kauptúnum landsins. En það er óhætt að fullyrða það, að hefði þessi barátta ekki verið háð eða ekki borið þann árangur, sem hún bar, þá hefði fólkið sópazt frá landbúnaðinum miklu stórkostlegar en raun hefur á orðið og landbúnaðarframleiðslan gersamlega fallið í rúst. Það var og er útilokað, þegar hvarvetna er atvinnu að fá í landinu, gegn áður óheyrðum kaupgjaldsgreiðslum, að halda nokkrum hluta þjóðarinnar á klafa sem matvinnungum og tæpast það.

Það hefur gengið nógu örðuglega að halda fólkinu við landbúnaðarstörfin þrátt fyrir það, sem gert hefur verið til að bæta kjör þess. Þó hefur tekizt að halda landbúnaðarframleiðslunni það í horfinu, að íslenzka þjóðin býr nú við ríkulegri vistaföng, hefur meiri og betri matvæli á borðum en flestar aðrar þjóðir heims. Ætli hún væri betur sett, ef hún ofan á allt annað yrði nú einnig að sækja meginið af landbúnaðarvörum til annarra þjóða — og hvar fengjust þær, þar sem hálfur heimurinn sveltur? Eða hvernig halda menn, að ástandið væri í húsnæðismálunum, ef nokkur þúsund af bændabýlum stæðu nú auð og ónotuð, en allur hópurinn þaðan væri kominn í atvinnuleit á mölina?

Nei, baráttan fyrir viðgangi og viðhaldi landbúnaðarins var, er og verður þjóðarnauðsyn, þótt ýmsir angurgapar reyni að stimpla þá, sem fyrir henni standa, sem þjóðfélagsfjendur. Þó að sjávarútvegurinn sé stórkostlega miklu meiri gjaldeyrisuppspretta fyrir þjóðina, þá mundi í þann gjaldeyri höggvast ærið skarð og torfyllt, ef fyrir hann ætti einnig að kaupa öll þau margvíslegu gæði, sem landbúnaðurinn er fær um að veita og veitir þjóðinni. Hitt er svo annað mál, að það er svo mikil nauðsyn landbúnaðinum og þjóðfélaginu, að landbúnaðarframleiðslan verði sem ódýrust og fullkomnust að völ er á. Allir vita nú, að grundvallarskilyrði þess er — auk heilbrigðs verðlagsástands — aukin tækni í landbúnaðinum. En undirstaða þess, að unnt sé að koma við fullkominni tækni, er ræktun landsins.

Hvernig hefur svo núverandi stjórnarsamsteypa staðið að þessum málum? Um verðlagsöngþveitið er áður rætt. Í ræktunarmálunum er sagan ekki fallegri.

Á þinginu 1943 báru framsóknarmenn fram frv. um skipulagða félagsræktun og stóraukinn stuðning við ræktunarframkvæmdir að vissu lágmarki, með það fyrir augum, að innan 10 ára væri unnt að fá sem mest af heyfeng bænda á ræktuðu landi. Hinn aukni ræktunarstyrkur byggðist á því, að frumræktun landsins væri alþjóðarnauðsyn, og ekkert viðlit væri að ætla sér að leggja slíka risaframkvæmd fjárhagslega á herðar einnar bændakynslóðar. Máli þessu var vísað frá af þingmeirihluta til búnaðarþings. Búnaðarþing kom síðan til liðs við málið, og samdi það tvö frv., annað um félagsræktun og hitt um hækkun jarðræktarstyrksins. Frv. um ræktunarsamþykktir varð svo að lögum, en frv. um hækkun jarðræktarstyrksins hefur stjórnarliðið flækt á milli deilda þing eftir þing og er nú einu sinni enn að stinga því svefnþorn.

Þá má minnast á lánakjör landbúnaðarins. Það er nú orðið auðsætt mál, að dýrtíðin í landinu er orðin þess valdandi, að þeir bændur, sem hyggja til framkvæmda, nokkurra að ráði, geta sig ekki hreyft nema með stórfelldum lántökum, enda þótt taldir hafi verið bjargálna. Á öndverðu þessu þingi báru framsóknarmenn fram frv. í þinginu um aukna og bætta lánastarfsemi í landbúnaðinum bæði til jarðræktar og húsagerðar. Frv. þessi fóru til landbn. Nd., en þar beitti form. n., þm. A.-Húnv., formannsvaldi til að hefta afgreiðslu þeirra frá Nd. Bar hann fyrir sig, að von væri fullkominna frv. um sama efni frá stjórnarliðinu, og sjálfsagt að bíða eftir þeim. Og mikið rétt. Þegar komið var fram á útmánuði, koma tvö frv. til þingsins, annað breyt. á nýbýlalögunum og um bætt lánakjör til húsagerða, hitt endurbætur á ræktunarsjóðslögunum í svipaða átt og í hinu frv. fólst. Annað þeirra frv., um landnám og nýbyggðir, varð að lögum, en hitt frv., um endurbætur á jarðræktarlánum og lánum til annarra framkvæmda landbúnaðar, er nú, eftir öllum sólarmerkjum, verið að svæfa, og mun því aldrei hafa verið til þess ætlazt af stj., að það næði fram að ganga, þó að hyggilegt þætti að sýna framan í það á meðan verið var að samþykkja sams konar lánskjarabætur fyrir sjávarútveginn, sem nú eru orðnar að lögum. Það er svo sem ekki vandséð á vinnubrögðunum, hvert er olnbogabarnið. Það er satt að segja engu líkara en það sé stefnumál stjórnarliðsins, að lakar skuli vera að bændum búið en öðrum stéttum. Þetta kemur hvað skýrast fram í aðförum þess í verðlagsmálum landbúnaðarins.

Eins og ég minntist á áður, byggðist verðlagsákvörðun sexmannanefndarálitsins á því, að bændur bæru svipað úr býtum fyrir störf sín og aðrar vinnandi stéttir þjóðfélagsins. Og þessi grundvöllur var samþykktur samhljóða af fulltrúum bænda og neytenda, svo og fræðimanna þeirra, er um málið fjölluðu. Hvernig hefur svo samkomulag þetta verið framkvæmt? Þannig, að aðeins einu sinni hefur fullkomlega refjalaust verið að framkvæmd þess staðið. Það var haustið 1943, er með herkjum tókst að fá meiri hluta þings til að ábyrgjast uppbætur á útflutningsvörurnar, sem tryggðu, að fyrir þær fengju bændur það verð, sem á þeim var ákveðið samkv. sáttmálanum. En það var vitanlegt, að á annan hátt var ekki unnt að tryggja fullkomlega framkvæmd laganna. Næsta haust, eftir að tilhugalíf núverandi stjórnarflokka byrjaði fyrir alvöru, neitar svo meiri hl. Alþ. — nánar tiltekið stjórnarliðið, er síðar varð — algerlega að setja sams konar tryggingu fyrir útflutninginn, nema því aðeins, að bændur féllu frá þeirri hækkun, sem þeir þá áttu löglegt tilkall til, 9.4%. Málið var lagt fyrir búnaðarþing, sem nú átti úr vöndu að ráða. Það tók þó þann kostinn, sem kunnugt er, að kjósa heldur lægra verð og útflutningsuppbæturnar, ásamt sérstakri tryggingu fyrir hönd bændanna gegn frekari hækkun framleiðslukostnaðar á árinu. Það er nú komið á daginn, svo að ekki verður um deilt, að með þessum skilyrðum tókst búnaðarþingi að bjarga fyrir bændurna meiri fjármunum en þeim, sem eftir voru gefnir, vegna þess, hvernig þróunin varð í verðlagsmálunum. Samt sem áður spöruðu þeir ríkinu og atvinnulífinu beint og óbeint stórfé, fyrir þau áhrif, er samþykkt þeirra hafði í baráttunni gegn verðbólgunni. Þetta launar svo þingmeirihlutinn bændastéttinni með stjórnarmyndun og stjórnarstefnu, sem brýtur þvert í bága við tilgang tilslökunarinnar og hagsmuni bændastéttarinnar. Og ekki er þessi þegnskapur bænda betur séður en það, að síðastliðið vor, þegar ríkisstj. fór að gera upp reikningana við mjólkurbúin, var aðgæzlan gagnvart sumum þessara stofnana svo hárnákvæm, að þær sáu sig til þess knúðar að leita réttar síns fyrir dómstólunum. Og enn er lagzt á sömu sveif.

Við fyrsta tækifæri, sem gefst, er svo sexmannanefndarlöggjöfin úr gildi felld — að margra dómi með mjög hæpnum lagaskilningi, og bændur þannig sviptir þeirri vernd, er í l. fólst. Síðan er sett á laggirnar stjórnskipuð nefnd, að því er virðist fyrst og fremst til þess að sjá um, að bændur fái ekki sexmannanefndarverðið. En ríkisstj. vissi, að það eitt var krafa þeirra, er þeir töldu sig eiga siðferðilegan rétt til, hvað sem liði þeim lagalega. Nei, verðið var sett 10% neðan við hið rétta sexmannanefndarverð, og auk þess skyldu bændur taka á sig verðafföllin á útlenda markaðinum. — Þegar svo nýskeð, að gengið var frá lögum um ábyrgð ríkisins á lágmarksverði fyrir nokkrar útfluttar sjávarafurðir, flutti Skúli Guðmundsson brtt. um, að einnig væri tekin ábyrgð á verði útfluttra landbúnaðarafurða, þannig að tryggt væri, að bændur fengju fyrir þær sexmannanefndarverð. En stjórnarliðið stútaði þeim með jafnmikilli rósemi og það samþykkti ábyrgðina fyrir sjávarútveginn.

Á meðan svo þessu fer fram, og eftir að stjórnskipuð nefnd hefur dæmt það rétt að vera, að bændurnir beri úr býtum stórum lægri tekjur en verkamannastéttin, hefur nokkur hluti verkamanna gert verkfall, krafizt kauphækkunar og fengið hana með þeim forsendum, að þeir geti ekki lifað mannsæmandi lífi af þeim tekjum, sem hún hafði. En hvað finnst þessum herrum sæmandi, svo að ég ekki segi mannsæmandi gagnvart bændunum? Þeir verða að sætta sig við lögþvingaða lækkun á sínu kaupgjaldi niður fyrir aðra — og halda áfram að lækka að sama skapi og kaupgjald annarra hækkar og þar með framleiðslukostnaðurinn í landinu. Ástandið í landbúnaðinum er líka þannig nú, að engu líkara er en að honum sé byrjað að blæða út. Þetta lýsir sér fyrst og fremst í því, að æskufólkið er að þurrkast úr sveitunum jafnóðum og það kemst á legg.

Það er nú ekki að undra, þótt stjórnarliðinu, ef það telur líf sitt og gengi undir því komið, að því haldist uppi þessar aðfarir gagnvart bændastéttinni, sé lítið gefið um þá hreyfingu, sem hafin er meðal bænda um stofnun öflugs hagsmunafélagsskapar, en sá hugur þeirra lýsir sér á margan veg. Einna gleggst er þó meðferð þeirra á lögunum um búnaðarmálasjóð. Lög þessi voru samþykkt fyrir rúmu ári. Efni þeirra var það, að lagt skyldi ½% gjald á söluvörur bænda, er legðist í sérstakan sjóð, búnaðarmálasjóð, er fulltrúar bænda á búnaðarþingi fengju til ráðstöfunar. Ríkið skyldi aðstoða við innheimtu gjaldsins hliðstætt því, sem það aðstoðar verkamenn um framkvæmd orlofslaganna. Mál þetta var rækilega undirbúið af Búnaðarfélagi Íslands og síðan sent búnaðarsamböndum landsins til umsagnar og hlaut þar einróma samþykki. Markmið sjóðsins var margs konar, því að verkefnin, sem leysa þurfti, voru á hverju strái. Eins verkefnis skal hér sérstaklega getið. Búnaðarfélag Íslands hafði hvað eftir annað orðið að gerast aðili í stéttarmálum bænda á undanförnum árum, og það beint fyrir tilstuðlan Alþingis stundum. Samt sem áður hefur félagið sætt nokkurri gagnrýni fyrir það, frá ýmsum, að starfa að stéttarmálum bændanna á kostnað ríkisins. Forráðamenn félagsins vildu gjarnan firra sig þessu ámæli og töldu líka eðlilegast, að bændur legðu sjálfir fram þá fjármuni, er nauðsynlegir væru til þess að sinna þeirra eigin stéttarhagsmunum. Og þar sem sýnt þótti, þegar hér var komið sögu, að þróunin gengi í þá átt, að bændum yrði nauðugur einn kostur að byggja upp stéttarsamtök fyrir sig svipað og aðrar stéttir, þótti sjálfsagt, að nokkur hluti búnaðarmálasjóðs félli til slíkrar notkunar, hvernig sem sú starfsemi yrði mótuð, eins og nokkurs konar stéttargjald.

Í fyrstu var búnaðarmálasjóðsfrv. tekið með mestu vinsemd í þinginu. Það fór viðstöðulaust í gegnum neðri deild þess, og allt virtist í bezta lagi. Þegar svo til Ed. kemur, byrjar fyrst mótstaðan. Kommúnistar virðast nú koma auga á, að hér sé hættulegur hlutur á ferðinni. Þeir sjá það nú, og sjá það rétt, að ef bændastéttinni eru fengin þessi fjárráð í hendur kvaðalaust, þá gætu þau orðið henni ærinn styrkur í hagsmuna- og félagsmálabaráttu sinni. Gegn því varð að sporna, ef nokkur kostur var á. Þeir virðast hata sjálfstæða bændastétt og vilja hana feiga eins og lærifeður þeirra austur í Rússíá, sem byrjuðu á að jafna bændastéttina við jörðu, er þeir tóku að ryðja sovétskipulaginu braut í landinu. — Ekki tókst þeim þó að stöðva málið í Ed. og kom það aftur til Nd. lítið breytt — til einnar umr. Nú voru góð ráð dýr, enda gera þeir nú síðustu atlöguna. Málið hafði fengið nær óskipt fylgi allra annarra flokka, og landbrh. lýsti yfir því í umræðum á þinginu í vetur, að sér hefði ekki verið þægð í þeirri breyt., sem á því var gerð. Þá taka þeir það ráð, sem þeim mun oftar hafa gefizt vel, — að beita hinum pólitísku „fingurskrúfum“ á meðstarfsmennina. Og herbragðið heppnaðist. Þm. A.-Húnv. (JPálm) verður til þess, ásamt kommúnistanum Sigurði Guðnasyni, að bera fram till. um hið alræmda þvingunarákvæði, að setja ráðstöfun fjárins undir eftirlit og samþykki ríkisstj. — og stjórnarhersingin samþykkir. Kommúnistarnir höfðu nú unnið fyrsta sigurinn í málinu og gátu nú rólegir raulað fyrir munni sér: „Hafðu, bóndi minn, hægt um þig . . .“

En það átti eftir að gerast meira í þessu máli áður en lauk. Bændur almennt undu þessu hið versta að vera gerðir ómyndugir að ráðstöfun þessara félagsgjalda sinna og kröfðust þess, að Alþingi næmi þvingunarákvæðið úr lögum. Nokkrir þm. verða til þess að bera fram frv. um það á þinginu. Þetta verður kommúnistum kærkomið tilefni til að fullkomna ofbeldið. Aftur eru þeir sendir af stað, þm. A-Húnv. og 1. landsk., Sigurður Guðnason, og nú stíga þeir skrefið fullt og bera fram till. um að taka sjóðinn með öllu af heildarsamtökum bændastéttarinnar og búta hann niður á milli sambandanna og fyrirskipa, hvernig honum skuli varið. Þetta mátti víst ekki seinna vera, því að nú hafði skapazt nýtt viðhorf, frá því að málið var síðast á ferðinni í þinginu. Bændunum var nú orðið ljóst, að eina málið, sem ríkisstj. virtist skilja í samskiptum sínum við stéttir landsins, voru sterk og óvægin samtök. Stéttarsamband bænda var því stofnað, og það hafði gert ákveðnar kröfur til ríkisvaldsins um jafnrétti við aðrar stéttir í sínum kaupgjaldsmálum, þ. e. verðlagsmálum landbúnaðarins. Og það var vitað, að hvaða frambúðarfyrirkomulag sem stéttarsambandinu yrði sett eftirleiðis, þá væri því ætlaður hluti af búnaðarmálasjóði til starfsemi sinnar. Það var því nauðsynlegt að kæfa þessa hreyfingu þegar í byrjun, ef unnt væri. Þess vegna þótti vænlegt ráð að taka þessi fjárráð af heildarsamtökunum og reyna að egna þeim fyrir einstaka hópa bænda til þess að freista þess að koma sundrungu inn í samtökin. Ég hef að vísu ekki trú á, að þetta takist, og hygg, að hér sem oftar verði skamma stund hönd höggi fegin. En þessar aðfarir allar eru með endemum, og hefur engin stétt verið beitt slíku ofbeldi á Alþ. eins og bændastéttin í þessu máli — ofan á það, sem á undan var gengið með setningu búnaðarráðslaganna og framkvæmd þeirra. Má það heita stórfurðulegt, að fást skyldi meiri hl. þm. í báðum deildum til slíkrar óhæfu. Maður veit ekki, hvort meir skal undrast, brjóstheilindi þeirra manna, er komizt hafa inn á þing vegna kjörfylgis bænda og leyfa sér slíkar aðfarir, eða fulltrúa verkamannastéttanna, að þeir skuli dirfast að skapa slíkt fordæmi á Alþingi gagnvart samtökum og réttindum alþýðunnar — bændastéttarinnar.

En svo eru eftir sjálf undrin í þessu máli, en þau eru það, að sá maður, sem undanfarin ár hefur leikið hrópandann á eyðimörkinni og ekki þreytzt á að brýna þjóðina á að varast allt samneyti við kommúnista, hv. þm. S.-Þ. Jónas Jónsson frá Hriflu, að hann skyldi láta dáleiða sig til að gerast eins konar ljósmóðir að þessu afkvæmi kommúnistanna, en fyrir hans aðstoð er þetta nú orðið að lögum.

Það voru margir, sem þegar í upphafi höfðu litla trú á því, að samstarf núverandi stjórnarflokka yrði mikill gæfuvegur fyrir þjóðina og var ég einn á meðal þeirra. Þó verður það að segjast, að þótt allir stjórnarflokkarnir séu meira og minna stórgallaðir, þá er engum þeirra alls varnað. Og um hina einstöku þm. er það einnig vitanlegt, að þeir eru upp og ofan, eins og aðrir þegnar hins íslenzka mannfélags, og hafa bæði kosti þeirra og galla. Það átti því engan veginn að vera útilokað, að af samstarfi þeirra gæti leitt sæmilegt stjórnarfar, ef það tækist að nýta allt það skásta, sem hver þeirra hefði til málanna að leggja. En reyndin ætlar því miður að verða öll önnur. Hér hefur það gerzt, sem við þekkjum hliðstæður að t. d. úr dýraríkinu við blöndun ýmissa kynja — að svo illa tekst til, að afkvæmið erfir alla galla foreldranna, en enga kosti, og er því þannig farið með afkvæmi stjórnarflokkanna, stjórnarfarið. Þannig hefur það á óskiljanlegan hátt mótazt jöfnum höndum af hinni purkunarlausu auðshyggju, er gagnsýrir Sjálfstfl., hinu gagnrýnislausa móðursjúka launþegadekri, sem Alþfl. er haldinn af, og hinni ofbeldiskenndu upplausnarstarfsemi kommúnistanna. Úr öllu þessu ásamt ýmsum öðrum fylgikvillum hefur svo myndazt hálfgerður stjórnarfarslegur óskapnaður, sem allir þjóðhollir menn þurfa að taka höndum saman um að losa þjóðina við í næstu kosningum, ef það getur ekki orðið fyrr.