27.04.1946
Sameinað þing: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (4258)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef aðeins fáar mínútur til umráða og verð því að fara fljótt yfir sögu.

Eysteinn Jónsson sagði, að Pétur Magnússon hefði verið yfir sig reiður. Sjálfur var hann nú svo æstur, að við vinir hans óttuðumst um hann. En hæstv. fjmrh. hættir ekki svo mikið við að missa stjórn á skapi sínu. Það vita allir, sem hann þekkja.

Eysteinn Jónsson sagði, að Pétur Magnússon hefði sagt bein ósannindi, er hann skýrði frá því, að Eysteinn Jónsson hefði jafnvel í stríðsbyrjun beitt sér gegn innflutningi á skipum. Ég var í stjórn með Eysteini Jónssyni þegar þetta skeði. Ég átti þá í stríði við hann um þetta. Eysteinn Jónsson hélt fast við sitt og hundsaði skipakaupin. Það kostaði þjóðina milljónir.

Hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) var að reyna að bera í bætifláka fyrir þá hneisu, sem foringi hans, Hermann Jónasson, hefur gert þjóðinni með till. þeirri, er hann hefur lagt fram á Alþ. í sambandi við herstöðvamálið. Í því skyni vílaði hv. þm. ekki fyrir sér að neita skjallega sannanlegum staðreyndum. Hv. þm. lét svo sem till. færi aðeins fram á, að þm. fengju að sjá skjöl og skilríki málsins. Hitt væri ekkert nema uppspuni. að þm. Str. vildi láta birta þau. Með þessu og þessu eina móti taldi hann sér kleift að afsaka frumhlaup Hermanns Jónassonar.

Ég þarf ekki að leiða mörg vitni til þess að sanna, að þetta séu bein og tvímælalaus ósannindi hjá Eysteini Jónssyni. Ég læt nægja eitt einasta vitni. Ég leiði fram Hermann Jónasson sjálfan. Hann segir sjálfur frá því, hvað fyrir honum vakir með till. í grg. þeirri, er hann lét fylgja till. á þskj. 634. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta :

„Í þáltill. er gert ráð fyrir því, að öll símskeyti og bréf snertandi herstöðvamálið verði birt. Ég fæ ekki séð, að þetta feli í sér neina áhættu.“

Hér er ekkert um að villast. Það á ekki aðeins að sýna alþm. skjölin, eins og 2. þm. S.– M. svo sakleysislega segir. Þm. Str. krefst, að þau verði öll birt. Hvorki annað né minna en öll birt Með þessu er sannað, að Eysteinn Jónsson grípur til þess óyndisúrræðis að reyna að bregða fyrir sig beinum ósannindum í því skyni að losna úr klípunni. Hlýtur honum þó að vera ljóst, að gegn skjallegum sönnunum er honum þetta vonlaust verk. En af þessu mega menn marka, hversu alvarleg er yfirsjón Hermanns Jónassonar, enda er það óhrakið og óumdeilanlegt, að till. hans fer fram á, að Alþingi geri það tvennt í senn: að móðga volduga vinaþjóð með því að þverbrjóta á henni umgengnisvenjur og að gereyðileggja veigamikinn þátt í utanríkisþjónustu Íslands.

Þá vítti hv. þm. mig fyrir, að Alþ. hefði „alls ekkert fengið um málið að vita“, svo sem hann komst að orði. „Hvers á þingið að gjalda?“ spurði þm. Sannleikurinn er sá, að allir flokkar þingsins fengu að sjá allar þær nótur, sem skipzt var á varðandi málið, allt fram undir miðjan nóvember. Þá gafst ég upp, vegna þess að hvert orð, sem skrifað var og talað, lak út. Kvað svo rammt að þessu, að nýtt tímarit hóf göngu sína og lifði hátt á því að flytja fregnir af þessum leyniskjölum jafnóðum og flokkarnir fengu vitneskju um þau. Mér verður áreiðanlega virt til vorkunnar, að ég geri ekki stjórnarliðinu þær getsakir að standa að þessari skemmdarstarfsemi, enda er það staðreynd, að eftir að ég hætti að láta Framsfl. fylgjast með, tók alveg fyrir lekann, og lak þá tímaritið niður og lognaðist út af.

Að öðru leyti vil ég vísa til þess, er ég í gær sagði um þetta mál. Sú ræða verður birt í víðlesnustu blöðum landsins. Vona ég, að menn kynni sér hana. Sé ég enga ástæðu til að endurtaka neitt af því, enda er víst gusturinn minni í hv. 2. þm. S.-M. en síðastliðinn miðvikudag, þegar málið var rætt í þinginu. Aðeins vil ég út af ummælum þm. Str. í gær geta þess, að sósíalistar hafa engar hótanir haft í frammi um samskiptin út af þessu máli.

Mér er ekki ljóst, hvað fyrir hv. þm. vakti með að endurtaka dýrtíðarsönglið í hundraðasta skipti. Allir viðurkenna, að ef og þegar afurðaverðið fellur, verður kaupið að lækka. Það er því alveg út í hött, að nokkur maður hafi talið fásinnu að lækna verðbólguna. Hitt er fásinna, sem Framsfl. nú berst fyrir, að taka upp illvígar kauplækkunarkröfur meðan framleiðslan ber sig. Af því getur ekkert leitt annað en það að eyða í herkostnað fjármunum þjóðarinnar í stað þess að kaupa fyrir þá ný framleiðslutæki.

Ég minni svo aðeins á, að fyrir stjórnarmyndunina var 2. þm. S.-M. ákveðinn með kauphækkun og taldi hana eigi aðeins sanngjarna, heldur alveg sjálfsagða. Gegn þessari staðreynd, sem bæði er vottföst og skjallega sannanleg, þýðir 2. þm. S-M. alls ekkert að leita skjóls í einhverri grein í Morgunblaðinu, sem skrifuð er af manni, sem hvorki var viðstaddur stjórnarsamningana né vissi um þá. 2. þm. S.–M. er staðinn að því að hafa verið með kauphækkunum, þegar hann ætlaði í stjórn. Með því er ónýtt allt fleipur hv. 2. þm. S.-M. um dýrtíð og verðbólgu.

Út af hugleiðingum Eysteins Jónssonar um fjármál og viðskiptamál get ég vísað til hæstv. fjmrh. Skal ég aðeins bæta þessu við: Það er meira en broslegt, hvernig hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) talar um fjármálin. Hann virðist vera búinn að fá það á heilann, að hann sé einhver fjármála- og viðskiptaspekingur. Sannleikurinn er þó sá, að aldrei hefur á Íslandi slysnari maður farið með fjármál og viðskiptamál ríkisins en einmitt þessi hv. þm. Kannske er honum vorkunn. Það er ein fáránlegasta pólitísk yfirsjón hv. þm. S-Þ. (JJ) þegar hann sótti þennan mann, þá rúmlega tvítugan, í skólabekk Samvinnuskólans og gerði hann að skattstjóra í Reykjavík. Næsta slysasporið steig svo Framsfl. þegar hann 1934 gerði Eystein Jónsson að fjmrh., þá aðeins myndugan og óreyndan með öllu. Þetta gat ekki góðri lukku stýrt. Það gerði það sannarlega ekki heldur. Það fór eins og til var stofnað. Eysteinn Jónsson hélt þó dauðahaldi í fjármálin, þar til þau voru fengin öðrum reyndari manni 1939, en þá var líka svo komið, að hver eyrir ríkissjóðs var uppetinn, lánstraustið þrotið svo herfilega, að Eysteinn Jónsson varð að hendast land úr landi í lánbeiðnir og hafði ekkert að veðsetja, nema gæði landsins, „consessionirnar“ svonefndu, sem víðfrægar urðu á valdadögum þessa manns. Svona hafði honum tekizt að leika ríkissjóðinn.

Hafði hann þó mergsogið allt atvinnulíf landsmanna með óbærilegum sköttum, svo að minnstu munaði, að allt færi í flag undan honum. Það er ekki að furða þótt slíkur maður telji sig til þess kjörinn að tala um fjármálin og kenna reyndum og vitrum mönnum, eins og núv. hæstv. fjmrh., boðorðin, eða þykist fær um að bera fram kvartanir fyrir hönd skattþegnanna, eins og hann var að gera.

Og ekki er óglæsilegri fortíð þessa hv. þm. í viðskiptamálunum. Hann reyrði allt í viðjar. Enginn gat innflutt eyrisvirði án hans leyfis. Sjálfur sat hann eins og búrkona og skammtaði mönnum innflutning eftir geðþótta, oft svona í greiðaskyni og í skiptum fyrir pólitíska sannfæringu, ef auðið var. Á þeim árum myndaðist orðatiltækið „Hvar er framsóknarmaðurinn?“ vegna þess að þá var engum auðið að stofna nýtt fyrirtæki án þess að einhver gæðingur Framsfl. ætti þar gróðavon. Öðruvísi fékkst enginn innflutningur. Á þeim árum myndaðist áður óþekkt spilling í þessum málum, sem allir vænta, að aldrei endurtaki sig.

Ég skal ekki orðlengja þetta, þótt af nógu sé að taka. En mér finnst ekki til mikils mælzt, þótt farið sé fram á það við Framsfl. að gæta þeirrar háttvísi að láta hv. þm. S.-M. (EystJ) ekki vera að fást við að kenna öðrum fjármálaspeki eða viðskiptasiðferði.

Hv. þm. V.-Húnv. minntist á búnaðarmálasjóðinn. Það er eftirtektarvert og sýnir, að Framsfl. er orðið ljóst, hversu varlega þjóðin treystir þeirra orðum, að enda þótt flestir framsóknarmenn hafi margt um þetta smámál sagt og blað þeirra sístagazt á því, taldi þessi þm. tilgangslaust að vitna í þessi ummæli. Hann sótti vitnið í Sjálfstfl. Þangað taldi hann þeirra að leita, sem þjóðin tekur mark á. Þetta er rétt. Hitt líka, að nefndur Ólafur Jónsson þarfnast að vera áminntur um sannsögli í þessu máli. Sýnir það, að hver dregur dám af sínum sessunaut, er svo grandvörum manni sem Ólafur Jónsson er fatast bogalistin, þegar hann sezt á bekk með framsóknarmönnum.

Ræður framsóknarmanna hér í kvöld sanna vel, hvernig komið er fyrir flokknum. Í fyrri ræðu ræðst Eysteinn Jónsson á allt, sem stj. hefur gert. Hann telur það ekki aðeins einskisvert, heldur einnig vítavert. Framsfl. sé þess vegna andvígur því öllu. En hv. þm. V.-Húnv. (SkG) lét hins vegar svo sem Framsfl. væri alveg æstur með nýsköpuninni og flestum öðrum málum stj. hetta stangast nú heldur illilega á. Ef Eysteinn Jónsson hefur rétt fyrir sér, er Framsfl. móti öllum framförum. Þá fellir þjóðin Framsfl. við kosningarnar. En ef Skúli Guðmundsson fer með rétt mál, er Framsfl. sammála stj. og hlýtur þá að fella vantraustið. En þá fer nú vantraustið að verða skoplegt, ef þeir, sem að því standa, klína sér sem fastast utan í stjórnina, sem þeir hafa barizt gegn með oddi og egg og gert allt til miska og vanvirðu. Þetta er víst það, sem kallað er kosningaskjálfti. Það sýnir vel, að framsóknarmenn gera sér nú orðið ljóst, að þjóðin er með stj., en móti afturhaldi Framsfl.

Þessum umræðum er að ljúka. Þær hafa skírt línurnar. Þjóðin veit meira um stjórnmálin eftir en áður. M. a. hefur það sannazt:

1. að á þeim 18 mánuðum, sem núv. stj. hefur farið með völd, hefur fleiri og stærri málum verið hrint í framkvæmd en áður eru dæmi til hér á landi, jafnt á sviði löggjafar sem framkvæmda. Stjórnin hefur því efnt heit sín.

2. að núverandi þing hefur verið mikilvirkara en dæmi eru til um nokkurt annað þing hér á landi. Mas Framsfl. um langt þinghald er því markleysa ein.

3. að Framsfl., sem nú ber fram vantraust, hefur svikið þá skyldu, sem hvílir á stjórnarandstöðunni. Andstaða hans er ekkert annað en stefnulaust nudd. Þetta sannar flokkurinn m. a. með því að bera fram vantraust án þess að bjóða upp á nýja stefnu eða samstarfsgrundvöll, hvað þá að flokkurinn hafi nokkra von um að fá nokkurn mann til samstarfs við sig. Vantraustið er því ekkert annað en skrípalæti, sem ekkert mark er á takandi, eins og hv. form. Alþfl. (StJSt) og hv. þm. Snæf. (GTh) hafa sýnt fram á.

4. að Framsfl. er nú orðinn svo skelkaður út af kosningahorfunum, að hann hefur alveg tapað jafnvæginu og hefur í örvæntingu gripið til vopnaburðar sem engum má þolast.

En umfram allt hafa þessar umræður sýnt og sannað, að það er rétt, að hér er verið að skapa nýtt þjóðfélag. Ekki eingöngu og ekki aðallega vegna trygginganna, heldur vegna alls þess, sem stjórnarliðið aðhefst á öllum sviðum þjóðlífsins.

Framsfl. hefur í þessum umr. tekizt að fá sannað, að þegar í stað er búið að endurreisa hið forna lýðveldi, er þjóðin nú, strax á fyrstu árum þess, er að skapa hér nýtt og betra þjóðfélag, eins og einn ágætasti þm. Framsfl., Páll Hermannsson, kemst að orði. Meðan þessu fer fram, situr Framsfl. hjá, nuddar og andæfir. Með öðrum orðum, Framsfl. hefur þannig tekizt að sýna og sanna, að hans er engin þörf, þegar þjóðin er að skapa sér nýtt og betra þjóðfélag. En hvað vill þá þessi flokkur á þing? Þegar hv. fv. form. Framsfl. (JJ) var á hátindi valdanna, lét hann gerbreyta fangahúsinu í Rvík, en skildi eftir einn eða tvo verstu klefana til að sýna, hve aumt ástandið var. Mér þykir hæfa, að þjóðin við kosningarnar, fyrstu kosningar hins nýja þjóðfélags, felli frá þingsetu þann flokk, sem sjálfur hefur sannað, að hans er engin þörf á þingi. En rétt væri þó að skilja eftir, eins og Jónas Jónsson gerði, einn eða tvo þá verstu, svona til samanburðar væru þá Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson vel valdir.

Ég finn mér að lokum skylt að þakka þeim Hermanni Jónassyni og Eysteini Jónssyni fyrir að hafa flutt þessa vantrauststill. og óskað hana rædda í útvarpið. Umræðurnar eru sáning. Uppskeran bíður kosninganna. Þjóðin vill áreiðanlega djarfa forustu, framtak og athafnir. Hún mun því við kosningarnar styðja þá, sem sýnt hafa vilja sinn og mátt í þeim efnum, en ekki útslitna, uppgefna og kjarklausa pólitíska örkumlamenn, sem lengi hafa nú legið í dvala, ef þeir eru þá ekki dauðir. Uppskeruhátíðin verður haldin eftir kosningarnar. Heiðursgestir verða, ef ég ræð nokkru þá, þeir HermJ og EystJ. Þeir eiga það sannarlega skilið.