17.04.1946
Neðri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (4276)

169. mál, eftirlit með skipum

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Frv. þetta er samið af mþn., og er þetta mikið og merkilegt mál, en við nánari athugun kom í ljós, að mönnum hefur yfirsézt hér nokkuð. Sá ljóður er á 10. gr., sem nú er 8. gr., að þar er ekki gætt slíkrar tryggingar sem skyldi, og hefur yfirsézt að hafa sérfræðing í öryggismálum. Nú höfum við borið hér fram brtt. á þskj. 883, til þess að leiðrétta þessa yfirsjón og skjóta inn í á eftir orðunum „annar vélfræðingur, þriðji“ í fyrstu málsgr. 8. gr.: sérfræðingur í öryggismálum og fjórði. — Ég vil taka það fram, að hér er leiðinleg prentvilla, á að vera við 8. gr. —, en ekki 10. gr., en þetta stafar af röskun, sem varð við 2. umr., og leyfi ég mér að benda á þessa prentvillu. Við álitum sjálfsagt að hafa sérfræðing við eftirlit skipanna. Og nú hittist svo á, að við eigum völ á slíkum manni, sem heitir Lárus Eggertsson, og hefur hann verið í Bandaríkjunum til að læra björgun.

Sendiherrann hefur sent skýrslu, sem sýnir að hann hefur fengið kennslu í þessu og sýnt hæfileika og dugnað. Hér liggur því opið verksvið fyrir honum, og vona ég, að þessi brtt. verði samþ.