08.03.1946
Sameinað þing: 32. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (4320)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson) :

Hv. frsm. minni hl. fjvn. (GJ) sagði í upphafi ræðu sinnar, að það væru tvö algerlega óskyld mál, hækkun afnotagjalda og bygging útvarpshallar. Þetta er að sjálfsögðu rangt, því að eins og hæstv. ráðh. tók fram, er hækkunin beinlínis gerð í þeim tilgangi að safna fé til byggingarinnar og þótt þetta séu 2 mál, þá eru þau bundin hvort við annað. Hv. þm. sagði og, að það væri rangt, að rökst. dagskráin væri meint þannig, að það ætti að byggja útvarpshöll. Ég sagði ekki, að með samþykkt hennar væri þetta ákveðið, heldur, að ráðh. mundi skilja það svo, ef rökst. dagskráin yrði samþ., að með því fælist samþ. hæstv. Alþ. á því, að hefja skuli byggingu hússins. Ég mundi skilja þetta þannig, ef ég væri í sporum hæstv. ráðh. Það er líka alveg óumdeilanlegt, að með því ákvæði fjárl. að veita fé til þessara framkvæmda hefur hæstv. ríkisstj. þar ákveðna fjárhæð, sem hún má nota strax á þessu ári, en hún getur líka frestað því og einnig látið vera að hækka afnotagjöldin. Þessi þáltill. fer ekki fram á annað en að afnotagjöldin verði ekki hækkuð og hún þýðir einnig það, að frestað verði byggingu útvarpshallarinnar. Ég vil því endurtaka þá áskorun til hv. þm., ef þeir álíta, að rétt sé að fresta þessari byggingu og hækka afnotagjöldin, að þá megi þeir ekki greiða atkv. með rökst. dagskránni. — Þótt hæstv. ráðh. hafi lög að mæla í því, að honum sé heimilt fé í þessu skyni, breytir það ekki því, að ef vilji hv. Alþ. kæmi fram um það að fresta þessu hvort tveggja, sem ég áðan nefndi, tel ég alveg sjálfsagt fyrir hæstv. ráðh. að verða við þeirri ósk. Þar með er þó ekki sagt, að ekki eigi að byggja yfir útvarpið, en ég og við í meiri hl. fjvn. álítum, að það sé mjög varhugavert að hefja nú á þessu ári eða í náinni framtíð stórbyggingar frekar en áður hefur verið stofnað til.

Það féllu hér orð frá hv. 2. landsk. (ÞB) um þá miklu nauðsyn, sem væri á því að reisa hér. byggingu bæði fyrir útvarp og Landssímann, og hæstv. ráðh. lagði einnig áherzlu á þetta, og það kemur sífellt þannig fram, að þessir menn álíti að ef einhver vill ekki greiða atkv. með stórbyggingum, sé hann á móti þeim menningarmálum, sem um er að ræða, eða t. d. að landsmenn eignist glæsilega útvarpshöll. Þetta er hin mesta meinloka, því að hér er aðeins um það að ræða, hvað við getum gleypt stóra bita í einu. Það þýðir ekkert fyrir okkur að ráðast í stórframkvæmdir og skapa okkur lífsþægindi fyrir tugi milljóna króna, ef ólíklegt er, að fjárhagur ríkisins og þjóðin geti staðið undir því með iðju sinni, því að slíkt mundi binda þjóðina í þrældóm til þess að reyna að vinna fyrir því og setja ríkið á hausinn. Það þýðir ekki að draga fjöður yfir þetta, ef við förum að þenja okkur út meira en líkur eru til, að við getum staðið undir, og þegar það er athugað, að byggingar og framkvæmdir hér á landi yfirleitt hafa alltaf legið niðri, þá er ekki hægt að ætlast til þess, að þjóðin geti orkað því átaki að bæta upp það skarð á örfáum árum. Ég vil benda hv. þm. sérstaklega á þetta atriði, sem okkur ber ekki að ganga fram hjá.