29.04.1946
Sameinað þing: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (4390)

210. mál, herstöðvamálið

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara út í umr. um það, sem liðið er, og skiptir það líka litlu máli. En hv. 6. landsk. sagði, að krafa Framsfl. væri hégómi, en ef það er krafa sósíalista, þá er það mikils virði. Svona er hugsanagangur þessa hv. þm.

Út af ummælum hæstv. forsrh., um að hann teldi rétt, að Íslendingar gerðust sameinuð þjóð, þá tek ég undir með hv. þm. Str., að hér þurfi nýja samþykkt til og það af hálfu Alþingis.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að Íslendingum væri það nauðsynlegt að taka þátt í samstarfi sameinuðu þjóðanna. Framsfl. vildi athuga málið nánar frá því sjónarmiði. Vilji Alþ. er ekki enn þá fyrir hendi um þetta, og þess vegna finnst mér ríkisstj, hafi farið of langt, er hún samþykkti 25. febr. s. 1. að taka þátt í bandalagi sameinuðu þjóðanna. Ég er ekki að segja, að við ættum ekki að gera það, en þetta þarf athugunar við, tel ég.

Það er þetta, sem ég vil láta koma fram, að við framsóknarmenn teljum, að ný ákvörðun þurfi að koma fram til þess að skera úr, hvort við eigum að gerast sameinuð þjóð, og að hæstv. ríkisstj. kynni sér málin betur, og ég undirstrika það, að stjórnin hefur ekki leyfi til að semja um þessi mál, heldur aðeins Alþingi.