29.04.1946
Sameinað þing: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (4402)

210. mál, herstöðvamálið

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég get verið samþykkur dagskrártill. þeirri, sem fyrir liggur, af þeirri einföldu ástæðu, að samþykkt aðaltill. er vita þýðingarlaus eftir birtingu málsins. En að gefnu tilefni í ummælum hv. 4. þm. Reykv. vildi ég segja, að eigi fer milli mála að skilja, hvað fólst í orðsendingu Alþfl. út af tilkynningu frá 6. nóv. En þar fólst í sá skilningur, að neita skyldi tilmælum Bandaríkjastjórnar í tilkynningu hennar frá 1. okt., um leigu á herstöðvum á Íslandi til langs tíma. Hins vegar vildi Alþfl. þó ekki láta hreint uppi með afstöðu sína og vildi ekki fallast á þau tilmæli Sósfl., að Íslendingar neituðu í eitt skipti fyrir öll herstöðvum öllum, í hvaða mynd sem væri. En ósvarað er fyrirspurn flokksins þess efnis, hvort Alþfl. sé reiðubúinn til að lýsa því afdráttarlaust yfir, að flokkurinn sé eindregið á móti allri hersetu erlends herafla á Íslandi.