07.11.1945
Neðri deild: 26. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (4447)

50. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Garðar Þorsteinsson) :

Herra forseti. Allshn. hafa borizt frá dómsmrn. umsóknir 10 manna, sem sækja um íslenzkan ríkisborgararétt, og eru þeir taldir upp á þskj. 58 og 110. Allir þessir menn uppfylla skilyrði til þess að fá veitt íslenzk ríkisborgararéttindi, að einu undanteknu þó, eins og verið hefur undanfarin ár, að umsækjendur hafa ekki getað útvegað sér vottorð frá heimalandinu. En undanfarin ár hefur það ekki verið látið standa í vegi fyrir veitingu ríkisborgararéttar.

Um hvern einstakan umsækjanda vil ég svo segja nokkur orð umfram það, sem getið er í frv. og brtt. Robert Louis Eugen Abraham, söngstjóri í Reykjavík, er fæddur 1912 í Þýzkalandi. Hann fluttist til Íslands 1935 og hefur dvalið hér síðan, á Akureyri og í Reykjavík, að undanskildum nokkrum vikum á árunum 1937–'38, er hann dvaldi í Danmörku, en sleit þó aldrei samband sitt við Ísland. Hann er kvæntur íslenzkri konu.

Karl Heinz Friedländer, vélamaður í Reykjavík, er fæddur í Þýzkalandi 1914, fluttist hingað 1935 og hefur dvalið hér síðan. Hann er kvæntur íslenzkri konu.

Elisabeth Göhlsdorf, tungumálakennari í Rvík, er fædd 1890 í Þýzkalandi og fluttist hingað til lands 1935 og hefur dvalið hér óslitið síðan.

Albert Volker Lindemann, forstöðumaður í Varmahlið í Skagafirði, er fæddur í Þýzkalandi 1899. Hann fluttist hingað 1934 og hefur dvalið hér óslitið síðan. Hann er ókvæntur.

Martin Schjönning Kristian Pedersen, pípulagningarmaður á Raufarhöfn, er fæddur í Noregi 1887. Fluttist til Íslands 1926 og hefur dvalið hér alltaf síðan. Hann er kvæntur íslenzkri konu.

Kurt Gustav Sonnenfeld, tannlæknir á Siglufirði, er fæddur 1909 í Þýzkalandi. Hann fluttist hingað til lands 1895 og hefur verið búsettur hér síðan. Hann mun kvæntur þýzkri konu.

Ingibjörg Einarsdóttir Vestmann, iðnmær í Reykjavík, er fædd 1919 í Kanada og er af íslenzku foreldri, fluttist hingað 1930 og hefur dvalið hér á landi síðan.

Emil Als námsmaður, Reykjavík, er fæddur 1928 í Danmörku. Móðir hans var íslenzk, Ólöf Gunnarsdóttir, Reykjavík. Hann fluttist hingað til lands 1934 og hefur verið búsettur hér síðan.

Wilhelm Ernst Beckmann, myndskeri í Rvík, er fæddur 1909 í Þýzkalandi. Hann fluttist hingað 1935 og hefur dvalið hér á landi síðan. Hann er kvæntur íslenzkri konu.

Harry Wilhelm Schrader, kennari í Reykjavík, er fæddur 28. febr. 1913 í Þýzkalandi. Hann fluttist hingað til lands 1935 og hefur dvalið hér á landi síðan.

Þessir menn allir hafa því uppfyllt skilyrði 1. frá 1935, að hafa dvalið hér á landi óslitið s. l. 10 ár, enginn í skuldum fyrir þeginn sveitarstyrk og enginn dæmdur fyrir brot, sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti. En þessir menn hafa ekki, eins og áður er sagt, getað útvegað sér hegningarvottorð frá heimalandi sínu, þar sem flestir eru frá Þýzkalandi, en það hefur ekki verið látið standa í vegi fyrir veitingu slíkra réttinda.

Í 4. málsgr. l. er fram tekið, að þeir, sem sæki um ríkisborgararéttindi, eigi innan 12 mánaða að færa sönnur á það, að þeir séu leystir frá ríkisborgararétti heimalands síns. En eins og nú hefur verið ástatt, hefur ekki verið mögulegt að útvega slík vottorð, og þess vegna var svo ákveðið í 1. á s. 1. Alþ., að þessi frestur yrði framlengdur, og svo er einnig gert í þessu frv. Allshn. mælir með því, að Alþ. samþ. að veita þessum mönnum ríkisborgararétt.