07.02.1946
Sameinað þing: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (4452)

103. mál, húsaleiga

Flm. (Hermann Jónasson) :

Ég vil fyrst beina orðum mínum til 3. þm. Reykv. Hann sagðist ekki geta tekið til greina, að hér væru borgaðar 800 til 1000 kr. á mánuði fyrir þrjú herbergi og eldhús. Fyrir stríð kostaði slík íbúð 200 kr. á mánuði, þá kostaði m3 í húsum nálægt 50 kr.

Nú kostar m3 300 kr., eftir því sem reiknað hefur verið. Með sömu leigu, ef miðað er við þennan mismun, ættu 3 herbergi og eldhús að kosta nú 1200 kr. Þetta er því mjög einfalt dæmi. Þetta veit 3. þm. Reykv., enda þótt hann leigi ekki út húsnæði, þá selur hann byggingarefni og er þar af leiðandi vel kunnugt um þessi mál. Það hefur verið minnzt á Búnaðarbankann og þá byggingu, sem hann er að reisa. Ég get fullvissað þm. um, að sú bygging er alveg nauðsynleg, ef bankinn á að halda áfram störfum. Það er bráðum útrunninn leigusamningurinn, sem bankinn hefur á því húsnæði, sem hann nú er í, og ekki hugsanlegt, að sá samningur fáist endurnýjaður. Konan, sem á húsið, þarf á því að halda fyrir sinn eigin rekstur. Bygging þessa húss er því óumflýjanleg.

Ég skal ekki ræða nánar um sænsku húsin á þessu stigi málsins, en ég vil taka það fram, að það er ekki árás á íslenzka iðnaðarmenn, þó að ég telji heppilegt að fá sænska menn, sem hafa unnið við þessa iðn 10 ár eða meira, til að sjá um uppsetningu húsanna. Mér finnst það heldur eiga að vera iðnaðarmönnum hér gleðiefni að fá leiðbeiningar í þessari iðn. Svo það er því skotið fram hjá markinu hjá andstæðingum þessa máls að ætla að hengja hatt sinn á slíkt. — Hv. þm. Barð. var að tala um, að húsin yrðu bæði dýr og léleg. Það er vissa fyrir því, að húsin verða miklum mun ódýrari en hús, sem byggð eru hér, þótt úr sams konar efni væri. Því að bæði er, að þau eru mikið unnin í vélum og svo hitt, að vinna er margfalt ódýrari í Svíþjóð en hér.

Um gæði húsanna vísa ég til þess, að Englendingar, sem vitað er að gera mjög miklar kröfur til húsa, eru nú að fá sams konar hús, og ég hef ekki trú á því, að þeir legðu áherzlu á að fá húsin, ef þeir teldu þau ónothæf. Ég er í efa um það, hvort komandi kynslóðir verða okkur nokkuð þakklátar fyrir að byggja svo mikið úr varanlegu efni eins og nú er gert. Þessir öru þróunartímar, sem við lifum á, færa stöðugt eitthvað nýtt, bæði í húsagerð og öðru, en það er erfitt að brjóta niður okkar rammgerðu steinhús. Það þarf að fá nákvæmar skýrslur um húsnæðisvandræðin, og við erum allir sammála um, að það sé nauðsyn að gera áætlanir um framkvæmdir til úrbóta, en það hafa engar áætlanir um framkvæmdir verið gerðar á Íslandi. Það, sem nýbyggingarráð átti fyrst af öllu að gera, var að gera áætlun um, hvað þyrfti fyrst og fremst að framkvæma, og jafnhliða að athuga, hvað væri til af fé til framkvæmdanna, en þetta hefur ekki verið gert, heldur safnað tillögum úr ýmsum áttum, án þess að vita nokkuð, hvað væri mögulegt að gera. Í sambandi við húsnæðisvandræðin hefur ekkert verið gert, en eins og allir vita, er það þó eitt frumstæðasta skilyrðið til að lifa að hafa hús til að búa í. Ég ætla ekki að ræða nánar um vinnuaflið, vegna tímaskorts.

Hv. þm. Barð. var með alls konar getsakir, sem eru hans sérgrein, er ég vildi ráðleggja honum að leggja niður, hvort sem hann hlýðir því ráði eða ekki. Að rísa upp eins og þessi hv. þm. og segja, að till. sé gerð í illum hug, það eru strákavinnubrögð, sem ekki eiga við hér í þingsölunum.

Ég sé ekki, að sú till., sem fram hefur komið hér áður um húsnæðismálin, sé nein lausn, þar sem flm. lætur sér lynda, að málum sé slegið á frest til næsta þings, sem hann veit, að kemur ekki saman fyrr en 1. okt. og þá alveg óvíst um afdrif málsins.

Það atriði, að ég hafi ekki rekið á eftir till. minni fyrir jól, er aðeins fyrirsláttur hjá andstæðingunum, því að eins og þeim er kunnugt, lágu þá mörg mál fyrir, sem ekki var hægt að komast hjá að afgreiða. Auk þess sem þessum sömu mönnum er kunnugt, þá er nú erfiðara fyrir stjórnarandstæðinga en stjórnarsinna að hraða málum sínum á þessu þingi. En ef málinu er nú hraðað, ætti þessi till. að geta komið að notum.

Hv. þm. Barð. telur ekki mikla hugkvæmni í þessari till., og auk þess þurfi til þess að hún nái fram að ganga fjölda lagabreytinga. Um fyrra atriðið skal ég ekki frekar deila við hv. þm. Barð. Ég held líka, að hann misskilji till. Síðara atriðið er rétt, — það þarf nokkrar lagabreytingar, en þær eru mjög fljótgerðar, þegar vilji þingsins er fyrir hendi til að gera eitthvað raunhæft í þessum málum.

Ætlun mín með þessari þáltill. er meðal annars sú, sem ég hef fram tekið, að fá sönnun á því, hvort það er vilji þingsins að gera eitthvað í þessu máli.

Það var eitt atriði, sem ég hef heyrt sagt og gefur mér ástæðu til að ætla, að ekki sé ætlunin að gera neitt í þessu máli. Þetta atriði er, að á fundi hjá húseigendum fyrir skömmu á þm. Barð. að hafa sagt: „Húsaleigulögin eru lífsnauðsyn til að núverandi stjórnarsamvinna haldist.“ Og þess vegna á að fresta öllum aðgerðum. Það kann að vera, að þessi orð eða ummæli hv. þm. Barð. séu eitthvað úr lagi færð, en meiningin er þó sú sama og hann hefur óbeinlínis lýst hér með framkomu sinni í þessu máli.

Það er nauðsynlegt að afgr. þessa till. næstu daga, til þess að hægt sé að gera ráðstafanir, sem gera þarf til undirbúnings því, að hægt sé að vinna þessi störf í sumar, en þessu fullnægir ekki sú till., sem samþ. var í gær.