26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (4496)

50. mál, ríkisborgararéttur

Steingrímur Aðalsteinsson:

Þetta verða örfá orð. Út af ummælum hv. 6. þm. Reykv., þess efnis, að ég hefði sagt, að ekkert það hefði komið fram, sem gæfi ástæðu til að fara varlega í því að veita þessu fólki ríkisborgararétt, vildi ég taka það fram, að þetta er ekki alveg rétt, því að ég sagði, að mennirnir hefðu uppfyllt lagaleg skilyrði. Ég minnist þess, að hv. 6. þm. Reykv. gat um, að einn umsækjandinn ætlaði að nota réttinn eins og áður var frá greint. Ég skil að vísu ekki, á hvern hátt íslenzkur ríkisborgararéttur sé tekinn fram yfir rétt í öðrum löndum og veiti landsvist annars staðar. En beinast finnst mér, að lægi fyrir, ef svo er háttað, að neita þeim mönnum einum um réttinn, sem hv. 6. þm. Reykv. o. fl. er kunnugt um, að nota ætli rétt sinn sem fyrr var sagt, svo að það bitni ekki á hinum aðilunum, sem saklausir eru af þessu. Mér finnst, ef yfirlýsingar liggja fyrir í málinu, að þá eigi að meta þær og vega. Þótt ég sé ekki kunnugur öllu fólkinu, þá þekki ég sumt og held, að það fólk sæki yfirleitt um ríkisborgararéttinn til þess að hagnýta sér hann á eðlilegan hátt til dvalar hér á landi.