23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (4543)

137. mál, kaup á skipinu Pétursey

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Þessi þáltill. er um að fela ríkisstj. að festa kaup á áttæringnum Pétursey, sem nú er í eigu Jóns Halldórssonar í Vík í Mýrdal, og er gert ráð fyrir því í till., að skipið verði afhent Sjóminjasafni Íslands til eignar og varðveizlu.

Fjvn. hefur athugað þessa þáltill., og eins og fram er komið á nál. 906, er fjvn. samþykk því, að ráðstafanir verði gerðar til þess, að þetta skip verði varðveitt frá eyðileggingu. Hins vegar komu fram raddir í n. um það, að líkur væru til þess, að hægt væri að ná því markmiði án þess, að ríkissjóður keypti skipið, a. m. k. nú þegar. Og þess vegna leggur fjvn. til, að máli þessu verði vísað til ríkisstj. Ekki er það ætlun n., að þar með verði máli þessu eytt, enda kemur það glöggt fram í nál., heldur að ríkisstj. athugi möguleika til þess að koma þessu í framkvæmd, að vernda skipið frá eyðileggingu á sem hagkvæmastan hátt. — Sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en vísa til nál.