27.04.1946
Sameinað þing: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í D-deild Alþingistíðinda. (4582)

207. mál, vátryggingargjöld vélbáta

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal að mestu leyti vegna hins skamma tíma, sem eftir er af þessu þingi, láta nægja að vísa til grg. þeirrar, sem fylgir þessari till. minni. Ég vil þó taka fram, að það er ljóst, að hér er um svo mikið velferðarmál að ræða, að hver prósenta, sem hægt er að lækka á vátryggingargjaldi á hinum stóra nýja flota, sem væntanlegur er til landsins, hefur mjög mikla fjárhagslega lækkun í för með sér fyrir eigendur skipanna. Er því nauðsynlegt að koma þessu máli í svo gott horf sem mögulegt er. Ástæðan fyrir því, að ég hef borið þessa tili. fram, er sú, að í Vestmannaeyjum er vélbátaábyrgðarfélag, sem hefur komizt svo langt niður með iðgjöld, að þau eru meira en helmingi lægri en þau, sem hæst eru í landinu. Sýnir það, hvaða árangri hægt er að ná í þessu máli. Ég held, að þetta sé mögulegt með því að nota þá innlendu stofnun, Íslenzka endurtryggingu, sem þegar hefur tekið til starfa og getur boðið þó nokkru betri kjör en hægt var að fá áður, auk þess sem iðgjöldin liggja þá meira inni í landinu en þau gera nú.

Ég sé ekki ástæðu til að óska eftir, að þessari till. sé vísað til n. eftir þessa umr. Það er sama og að svæfa málið. Mælist ég til þess, að hún verði látin ganga fram á þessu þingi, vegna þess hve stórkostlegt fjárhagsatriði þetta er fyrir bátaflotann, ef hægt er að finna leið til þess að lækka þessi gjöld. Það hefur þegar verið gerð ýtarleg tilraun af hálfu Alþ. til að lækka vaxtabyrði í sambandi við kaup hins nýja flota. En það sér hver maður, að þótt vextirnir séu lækkaðir um 2%, þá er þetta þó enn nauðsynlegra að koma tryggingargjöldunum niður, því að það verður þó að greiða af allri kostnaðarupphæðinni. Og verði hægt að koma iðgjöldunum niður um helming, sér hver maður hve miklu betra það er fyrir útveginn en þótt vextir séu lækkaðir. — Vona ég, að till. verði samþ. óbreytt.