27.04.1946
Sameinað þing: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (4587)

207. mál, vátryggingargjöld vélbáta

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Það hafði eiginlega orðið samkomulag um það milli mín og hv. 7. þm. Reykv., að ekki yrðu um þetta mál miklar umr. Það, sem hér er farið fram á, er að skipa nýja n. En þá hélt þessi þm. hér um einnar klst. ræðu. Hann hélt því fram, að þetta heyrði ekki undir tryggingarnar og menn væru frjálsir með það, en þetta er rangt hjá hv. þm. Kjarni málsins er sá, að Vestmanneyingar eru þeir einu undanþegnu og hafa bezt kjör. Það er ekki að undra, þótt vér óskum eftir nefndarskipun um þetta mál, þegar Vestmanneyingar hafa fengið sína tryggingu lækkaða niður í 3%, og þá verður að gera öðrum þetta hagræði líka. — Hann segir, að till. sé flutt friðsamlega, en grg. sé full af vitleysum. Kannske af litlu viti vegna þess, að lagt er til að lækka viðgerðarkostnað og tryggingu. Ég vil upplýsa það, að tilboð hefur komið fram um að lækka mikið vátrygginguna, og er það tilboð komið frá stríðstryggingafélagi íslenzkra skipshafna. Á þessu þingi var 1. um stríðstryggingu breytt svo mjög, að það gæti tekið að sér endurtryggingu mótorbáta. Þetta frv. var sent frá Ed. í febrúar til Nd. og var vísað til sjútvn. í Nd. 7. marz og hefur legið þar síðan hjá hv. 7. þm. Reykv. Nú vil ég spyrja, hvort einhverjir leyniþræðir séu á milli þess, að hann hefur svæft þetta mál, og hins, að hann vill ekki láta endurtryggja annars staðar en nú er. Ég ætla mér ekki að segja meira um þetta, en hann gaf tilefni til þess, að ég tók hér til máls, með því að slá fram þeirri firru, að hér væri ekkert af viti.

Ef þetta er félag eigenda, þá eru þeir þröngvaðir inn í það með valdboði. Það er engin sönnun, þótt hv. þm. segi, að útlendingar séu ekki ofhaldnir af þessu iðgjaldi. Hvaða erlent vátryggingarfélag mundi lækka endurtryggingu? Mér heyrðist á hv. 7. þm. Reykv., að hann hefði hvergi reynt að fá lækkaðar tryggingarnar.

Hv. frsm. sagði, að greiða þyrfti hátt verð fyrir að draga báta á land til vélaviðgerða. En þessi hv. þm. hefur nú nýlega ásamt öðrum fleiri staðið að því, að vélstjórar fá aukin réttindi án aukinnar kunnáttu, en vélabilanir eru fyrst og fremst af kunnáttuleysi vélstjóranna, en ekki fyrir slit. Hann sagði enn fremur, að mikið af tjónunum yrði í höfnum. En þá þyrfti að athuga, hvernig koma má í veg fyrir þau tjón.

Ég vænti svo, að þessi till. verði samþ., þar sem augljóst er, að brýn þörf er að koma þessum málum í heilbrigðara horf.