28.11.1945
Sameinað þing: 10. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (4633)

48. mál, hlutleysi útvarpsins

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. vil ég fyrst segja það, að lengi mun um það mega deila, hvernig þýða skuli hin ýmsu flokkanöfn. Sést það bezt á því, að hann tók að gagnrýna þá aðferð að kalla flokkana þeim nöfnum, sem er bókstaflega hárrétt þýðing á þeirra erlendu heitum. Það er réttast að kalla flokkana þeim nöfnum, sem þeir heita, og nota þá alþjóðleg nöfn yfir þá.

Þá var hér og annað atriði hjá hv. þm., sem ég er honum ósammála um. Hann hafði á móti fréttaflutningi frá Moskvu, en það mun stafa af því, að skoðanir Moskvaútvarpsins stemma verr við skoðanir hv. þm. en skoðanir Lundúnaútvarpsins. Þetta er öfugt hjá mér. En þetta sýnir þá stöðugu tilhneigingu hjá mönnum, að útvarpið sé hlutdrægt. Skrýtið, að enginn skuli hafa haft á móti því, að fréttir voru teknar frá Berlín. Fréttir hafa alltaf verið hér of einhliða, þar eð mest hefur verið tekið af fréttum frá London, en það stafar sennilega mest af hnattstöðu okkar. Ég er á móti því að sjóða saman fréttir frá mörgum stöðvum í óbeina frásögn. Það er skemmtilegast að heyra beinan útdrátt frétta frá sem flestum stöðvum.

Þá kem ég að því, er hv. 6. þm. Reykv. sagði, og það hlýtur að gefa mér tilefni til að ræða öll þessi mál nánar en ég ætlaði. Hann telur rétt, að fréttastofan væri líka undir útvarpsráði, og færði rök að því, og skein í gegnum það vantraust á útvarpsstjóra og þá einkum upp á síðkastið. En í því felst einnig vantraust á mig. Í orði kveðnu erum við sammála um, að skoðanafrelsi skuli ríkja hér, en þó greinir okkur á um margt, og vil ég gera því nánari skil. Út af ágreiningi milli útvarpsráðs og mín um erindi frá útlöndum, þá vil ég taka það fram, að ég tel þætti Björns Franzsonar algerlega óhlutdræga og miklu óhlutdrægari en flesta aðra slíka þætti. Og þess vegna tel ég ráðstafanir tveggja útvarpsráðsmanna gagnvart Birni algerlega óréttmætar. Í þætti sínum, sem mest var um rætt og gaf tilefni til ádeilna á útvarpið, sagði hann frá skoðunum rússnesks blaðamanns, en hér hefur meir borið á skoðunum vestrænna blaðamanna. Með þessu tel ég, að hann hafi verið að gera útvarpið minna einhliða. Og í seinna þættinum reyndi hann að sýna fram á, að árásirnar á hann væru rangar og las þar upp athugasemdalaust ritstjórnargrein eftir Stefán Pétursson. Mér finnst alveg ótækt að tala um hlutleysisbrot í þessu sambandi, og þeir hafa orðið sér til athlægis, sem það hafa gert, en hitt er satt, að það gat orkað tvímælis, að hann færi að minnast á gagnrýni á sjálfan sig, og hefði átt að benda honum kurteislega á það. Af því að útvarpið hefur verið hlutdrægt, þá finnst sumum mönnum alveg ótækt, ef það verður óhlutdrægt, og bendir það raunar til þess, að þeir séu alveg orðnir ruglaðir í því, hvað sé hlutdrægni og hvað ekki. Þar eð aðeins eitt blað hefur birt athugasemdir útvarpsstjóra um þetta efni, þá vil ég leyfa mér að lesa úr skýrslu hans um þetta, með leyfi hæstv. forseta, og segir útvarpsstjórinn þar:

„Samkvæmt því sem háttað er um hnattstöðu lands okkar og sambönd við aðrar þjóðir, verður meginhluti allra frétta og fréttaheimilda útvarpsins sóttur til hinna engilsaxnesku og norrænu þjóða. Sundurliðun á fréttamagni liggur að vísu ekki fyrir. Hitt verður hverjum athugulum manni ljóst, að fréttir frá Rússlandi og málstað Rússa er aðeins mjög óverulegur hluti af öllu fréttamagni útvarpsins.

Nú er það staðreynd, að ádeilur á fréttastofu útvarpsins og ásakanir um áróðurskenndar fréttir hafa vaxið í sömu hlutföllum og viðleitni hennar að greina einnig frá því, er Rússa varðar. Og þar sem engin rök né tilraun til rökstuðnings um áróður og hlutdrægni fréttastofunnar liggur fyrir, verður að álykta, að ádeilurnar séu risnar af þeirri óbeinu og óumtöluðu kröfu einhvers hluta þjóðarinnar, að fréttastofan dyljist alls þess, er gerist með Rússum, og gangi þegjandi fram hjá málstað þeirra og málflutningi. Orsakirnar liggja þannig í meira eða minna ofstækiskenndum pólitískum ágreiningi í landinu, sem fréttastofan lætur sig ekki varða og getur ekki látið ráða fréttavali sínu og fréttaflutningi.

Það er enn fremur alkunn staðreynd, meðal annars studd af ítrekaðri reynslu fréttastofunnar, að kvartanir um hlutdrægni í fréttaflutningi berast einkum frá þeim mönnum, sem eiga erfiðast með að sætta sig við óhlutdrægni og vilja láta liggja í þagnargildi eða ófrægja málstað og málflutning, sem er andstæður eigin skoðunum þeirra eða hagsmunum. Ég kem síðar meir að þessu sögulega.“ — Og enn segir útvarpsstjóri: „Mér þykir í þessu sambandi ástæða til að vekja athygli landsmanna á starfsemi fréttastofunnar meðan á hernáminu stóð og viðskiptum hennar við herstjórn bandamanna hér á landi. Fréttastofan ákvað í upphafi styrjaldarinnar að rækja lögákveðna hlutleysisskyldu sína í öllum frásögnum af stríðinu og flytja fréttir frá báðum aðiljum eftir þeirra eigin opinberu heimildum. Þegar Bretar hernámu landið árið 1940, hafði fréttastofan ástæðu til að óttast, að herstjórn þeirra mundi ekki virða þessa afstöðu fréttastofunnar og mundi telja sér nauðsynlegt að hlutast til um fréttaflutninginn. Ég skýrði þá fyrir yfirmönnum hernámsins þessa afstöðu fréttastofunnar og óskaði þess, að hún mætti starfa lögum samkvæmt. Eins og landslýð er kunnugt, virtu Bretar og síðar Bandaríkjamenn þessa afstöðu fréttastofunnar, og flutti hún öll stríðsárin styrjaldarfréttir Öxulríkjanna jafnt og bandamanna, eins og þær birtust frá herstöðvum þessara þjóða. Dæmi þetta er að mínum dómi eftirtektarverður vottur um frjálshyggju, víðsýni og kurteisi, sem Íslendingar mættu vel taka sér til fyrirmyndar.

Ádeilur á hendur fréttastofu útvarpsins um áróður og hlutdrægni, risnar af viðleitni hennar til alhliða frásagnar og fræðslu um heimsviðburði, eru samkvæmt framansögðu, óbein krafa um hlutdrægni, ósamrýmanleg norrænu og engilsaxnesku stjórnarfari, lýðræðishyggju og frelsiskröfum. Slíkir starfshættir geta hvergi tíðkazt nema þar, sem einræði ríkir og skoðanakúgun. Fréttastofan mun því hér eftir sem hingað til, samkvæmt lögum og starfsvenjum, leitast við að flytja sem víðtækasta fræðslu um hvers konar ágreining, sem uppi er í heiminum, og um hagi hætti og málflutning allra þjóða, hversu sem honum kann að vera háttað. Það skal hins vegar tekið fram, að ádeilur þessar og umræður, sem af þeim rísa, verða fréttastofunni og starfsliði hennar aukin hvatning um að gæta fyllstu varúðar og samvizkusemi í starfi sínu.“

Þetta er kafli úr grg. útvarpsstjóra, sem ekki var birt í útvarpinu og kom aðeins í einu blaði, þó að hún væri send öllum dagblöðunum.

Því miður hefur útvarpsráð látið undan þessum kröfum um hlutdrægni og ráðið annan mann en Björn Franzson til þess að flytja þessi erindi. En þá tókst bara svo illa til, að þessi maður var ekki einungis hlutdrægur í erindi sínu, heldur fór rangt með staðreyndir, þar sem sagt var á þá leið, að Rússar hefðu farið í stríð við Kínverja, að vísu var þetta ekki orðað svo, en meiningin var sú sama. En að bera slíkt á borð sem þetta er alveg ótækt og ekki hægt að fremja meira hlutleysisbrot. En ég er þó alveg sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að menn mega ekki vera alltof viðkvæmir, en fyrr má nú rota en dauðrota. Ég skrifaði útvarpsráði, og horfir ekki vel um samkomulag, en ég vona þó allt hið bezta og að samkomulag náist áður en lýkur.

Þá vil ég koma að till. þeirri, sem hér liggur fyrir, og þá einkum einu atriði, sem varpar ljósi yfir þær kröfur manna, að útvarpið sé hlutlaust. Mörgum finnst, að þessi till. komi úr hörðustu átt, þar sem þessi hv. þm. og fylgismenn hans hafa mest allra unnið að því að gera útvarpið hlutdrægt eða að áróðurstæki. Ég hef hér bréf, sem varpar nokkru ljósi yfir þetta, þar sem flm. þessarar till. gerði á sínum valdatíma kröfu til þess, að allir starfsmenn útvarpsins væru framsóknarmenn. Ég veit, að hv. þm. S.-Þ. mun ekki neita þessu. — Næsti stóratburðurinn gerist svo á Alþingi 1939. Það var skaði, að hv. 6. þm. Reykv. skyldi ekki geta tekið þátt í þeim umr. á því þingi. Þá stóð Finnagaldurinn sem hæst. Íslenzka útvarpið tók þátt í stríðinu gegn Rússum, útvarpið var notað sem áróðurstæki. Fremstir í flokki stóðu framsóknarmenn, og fengu þeir innblástur frá sínum æðstu. Er löng saga að segja frá því, og mun ég ekki rekja hana hér. Á haustþinginu 1939 voru gerðar breytingar á útvarpslögunum samkv. till. hv. þm. S.-Þ. Þetta var einn þátturinn í hinum svokallaða höggormi, sem allir þm. kannast við. Var þetta sparnaðarfrv., sem fól m. a. í sér þetta: 1) Fréttastofan sé sett beint undir útvarpsráð. — Það er það sama sem hv. 6. þm. Reykv. vill gera nú. 2) Stjórnarblöðin taki þátt í starfrækslu fréttastofunnar. — Hv. 6. þm. Reykv. finnst víst ekki, að það komi til greina, að það séu stjórnarblöðin nú, heldur Morgunblaðið, Alþýðublaðið og Tíminn. (MJ: Í lögunum er talað um blöð lýðræðisflokkanna. — BBen: Hæstv. ráðh. telur sinn flokk víst ekki lýðræðisflokk). Hv. 6. þm. Reykv. telur ekki varða, hvað ég álit um þessi mál. Með öðrum orðum, það átti að gera fréttastofuna að fréttastofu fyrir stjórnarblöðin. Fréttir hennar hefðu þá vitanlega orðið áróðursfréttir. Þetta virðist enn þá vera í huga hv. 6. þm. Reykv., þó að furðulegt sé. Tilgangurinn með þessu var að hverfa frá hlutleysisstefnunni, hverfa frá 5. gr. útvarpslaganna um óhlutdrægni og skoðanafrelsi, en gera útvarpið að áróðurstæki. Það var gengið markvisst og ákveðið að því að framkvæma þetta.

Tildrög þessa voru kröfur þær, sem hv. flm. þessarar þál. gerði á hendur útvarpsstjóra um það að víkja ýmsum starfsmönnum útvarpsins frá vegna pólitískra skoðana. En útvarpsstjóri neitaði. Þáverandi forsrh., Hermann Jónasson, sagði því öllu starfsfólki útvarpsins upp í júní 1939 og gerði það að tilhlutun hv. flm. þessarar tillögu. (JJ: Vill ekki ráðh. lesa þessa kröfu mína? — Slík krafa hefur aldrei komið fram. Þetta er allt skáldskapur. — BBen: Hvaða þátt getur þetta átt í Finnlandsstríðinu? — Forseti: Ekki samtal í hv. d.). Finnlandsstríðið hófst haustið 1939, en þetta var sprottið af kröfum hv. þm. S.-Þ., er voru áður fram komnar. Þetta var gert til að koma framsóknarmönnum að útvarpinu, og í sambandi við það var lagt fram frv. á Alþ., og tilgangurinn með öllu þessu var að hreinsa til í útvarpinu. (JJ: Það er víst algengt í Moskva að hreinsa til). Já, sem sagt, þetta var gert að eigin sögn og tilhlutun þessa hv. þm. Síðan var starfsmönnum fréttastofunnar sagt upp þann 30. apríl að undanskildum Sigurði Einarssyni. Um þetta urðu mikil átök, en strandaði um síðir á andstöðu útvarpsstjóra, en gekk jafnvel þó svo langt, að honum var hótað brottrekstri.

Til að sanna mál mitt ætla ég að lesa upp nokkra kafla úr bréfum, sem farið hafa á milli útvarpsstjóra og hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Str. Útvarpsstjórinn skrifar bréf 21. febr. 1941 til formanns Framsfl., Jónasar Jónssonar. Þar segir svo meðal annars: „Á haustþinginu 1939 voru fyrir þinn atbeina gerðar breytingar á 3. grein útvarpslaganna. Eru meginbreytingarnar tvær. Í fyrsta lagi, að ráðherra er veitt heimild til þess að gera fréttastofu útvarpsins að sérstakri deild undir stjórn útvarpsráðs, eða með öðrum orðum, að skipa fréttastofunni alfarið undir stjórn útvarpsráðsins. Enn fremur er ráðherra þar heimilað „að semja við blöð lýðræðisflokkanna um þátttöku í starfrækslu fréttastofunnar eftir nánari fyrirmælum í reglugerð.“ — Í öðru lagi er sú breyting gerð frá því, sem áður var, að numin er burt fyrri skilgreining á tillögurétti um val starfsmanna. Nú er sú málsgrein þannig orðuð, að ákvæði hennar verða í reyndinni ekki framkvæmd ágreiningslaust, enda hefur og reynslan orðið sú, eins og síðar verður að vikið.

Um tildrög þessarar lagasetningar er mér það eitt kunnugt, að orðið hafði ágreiningur okkar á milli út af kröfum, sem þú gerðir á hendur mér sem forstjóra, um pólitíska tilhreinsun í starfsliði stofnunarinnar. Með tilvísun til hlutleysisákvæða 5. greinar útvarpslaganna neitaði ég að verða við kröfum þínum og benti þér á, að ef um pólitíska tilhreinsun í landinu yrði að ræða, þá yrði hún að hefjast ofan frá, með valdboði Alþingis og ríkisstjórnar. Þetta samtal okkar átti sér stað sumarið 1939. Þú lýsir því þá yfir, að þú mundir, er þing kæmi saman þá um haustið, „laga til“ hjá mér hlutina, eins og þú orðaðir það, og lít ég á fyrrgreinda lagasetningu á haustþinginu 1939 sem efndir á því heiti þínu.“ — Með öðrum orðum: Það er rétt farið með hjá mér um hótun á pólitískri tilhreinsun í útvarpinu sumarið 1939. (JJ: Vissu menn þá um Finnastríðið?) Nei, en það var gott að fá það til viðbótar, þegar reynt var að gera útvarpið að áróðurstæki. Útvarpsstjóri heldur áfram : „Í þessu samtali lýstir þú því einnig yfir, að af þínum tilhvötum hefði verið sú fáheyrilega ráðstöfun, er ráðherra, Hermann Jónasson, sagði upp og fyrirskipaði, að upp yrði sagt öllu starfsfólki Ríkisútvarpsins í júnímánuði það ár.

Ekki verður hjá því komizt að gefa í sem fæstum dráttum yfirlit um það, sem síðan hefur gerzt í stofnuninni sem beinar afleiðingar af þessum ráðstöfunum.

Þegar dró að árslokum 1939, hafði ráðherra engar ráðstafanir gert til þess að endurráða starfsmenn Ríkisútvarpsins. Ég taldi mér þá skylt, vegna stofnunarinnar, að vekja athygli hans á því, að ef engar sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar, þá mundi rekstur Ríkisútvarpsins stöðvast á nýársdag 1940. Sendi ég ráðuneytinu þann 21. desember tillögur mínar um endurskipun starfsfólksins. Þann 28. des. móttók ég bréf ráðuneytisins, þar sem þess er óskað, að starfsmennirnir haldi áfram störfum fyrst um sinn, með sömu kjörum og að undanförnu, og þess beiðzt, að ég tilkynnti það þeim, sem hlut áttu að máli.

Næst gerist það í þessu máli, að mér þann 20. marz 1944 berst bréf ráðuneytisins, þar sem mælt er fyrir um skipun starfsmanna að nýju og mér falið að gera skipunarbréf og senda ráðuneytinu þau til staðfestingar. Samkvæmt þessari skipun var starfsliði stofnunarinnar skipt í launaflokka eftir eðli starfa og launakjör fastákveðin eftir starfsaldri, og var sú skipun til mikilla bóta, enda þótt launabreytingar yrðu litlar.

Í þessu bréfi ráðuneytisins er tekið til orða á þessa leið : „Ráðuneytinu er það ljóst, að það er miklum vandkvæðum bundið að grípa inn í og kippa í lag rekstri á opinberum fyrirtækjum án þess að skipta þar um yfirstjórn.“ Kveðst ráðuneytið þó vilja gera þessa tilraun og brýnir það fyrir mér að framkvæma fyrirmæli sín nákvæmlega og með fyllsta þegnskap.“ Það er svo sem auðheyrt, að hér er um hótun að ræða um brottrekstur útvarpsstjóra. Og enn heldur útvarpsstjóri áfram í sama bréfi: „Skipunarbréf til handa starfsmönnum Ríkisútvarpsins voru síðan gefin út, eftir því sem fyrir var lagt. Þó gengu þar frá allir starfsmenn á fréttastofum, með því að þeim var enn að nýju sagt upp störfum frá 30. apríl sama ár, að Sigurði Einarssyni einum undanteknum. Voru síðan auglýstar til umsóknar fjórar stöður í fréttastofunni. Urðu umskipun starfsmanna við fréttir allmikil átök í stjórn stofnunarinnar, eins og nokkuð hefur orðið kunnugt af opinberum umræðum um það mál.

Í bréfi ráðuneytisins 20. marz var gert ráð fyrir nokkrum tilfærslum starfsmanna í stofnuninni, meðal annars þeirri, að Helgi Hjörvar tæki að sér aðalþularstörf. Þessar ráðagerðir strönduðu þó, er til framkvæmda skyldi koma. Eina breytingin á starfsliði stofnunarinnar varð í fréttastofu og mun það vera flestra manna mál, er til þekkja, að enda þótt þar mætti um bæta, hafi það ekki tekizt enn sem komið er, þegar á allt er litið.“ Svo er enn haldið áfram: „Framsfl. felur mér 1929 að stofna Ríkisútvarpið og stjórna því. Ströng ákvæði eru sett um gæzlu óhlutsemi og réttlætis. Við, þú og ég, höfðum þá um tíu ára skeið staðið hlið við hlið í baráttu Framsfl. og vissulega staðið í fylkingarbrjósti í blaðamennsku hans. Mér að minnsta kosti er þetta samstarf okkar minnisstætt og kært í endurminningunni. Við áttum sameiginleg hugsjónamál, og samstarf okkar var í alla staði svo ákjósanlegt sem verða má.

Ég held því ekki fram, að skipulagsstarf það, sem flokkurinn fól mér, og stjórn mín á þessari stofnun hafi verið óaðfinnanlegt. Hinu held ég fram, að ég vann mikið verk, að stofnunin óx jafnt og þétt og örugglega og að samstarf innan hennar var hið ákjósanlegasta, meðan afskiptum þings og stjórnar af rekstri hennar var stillt í hóf.

Örðugasta viðfangsefnið var, eins og áður er tekið fram, stjórn fréttamálanna. En einnig þar vannst smám saman sigur á örðugleikunum. En á níunda aldursári stofnunarinnar, löngu eftir að hún er komin í þær skorður, sem hún nú er í, komast ráðamenn Framsfl. að þeirri niðurstöðu, að mér sé ekki lengur trúandi sem yfirmanni fréttanna og forstjóra stofnunarinnar.

Þú gerir á þingi ráðstafanir til þess að sýna mér opinbert vantraust sem yfirmanni fréttanna með fyrrnefndri lagasetningu um heimild ráðherra til þess að taka fréttirnar undan minni stjórn.

Hermann Jónasson, ráðherra, notar heimildina að hálfu leyti, með því að óska eftir tillögum útvarpsráðs um skipun fréttastofunnar og val fréttamanna. Í bréfi sínu 20. marz 1940 kveðst hann ætla að gera tilraun til að „kippa í lag“ þessu mínu níu ára starfi, en kveður það vandkvæðum bundið, án þess að skipt sé um yfirstjórn. Er mér það vel ljóst, að hér er um að ræða hótun um að reka mig úr embætti.

Áður en ég spyr um sakir, vil ég taka það fram, að stofnunin stendur að vísu enn í sömu skorðum og áður, að öðru leyti en því, að um fréttastofuna gildir bráðabirgðaskipun. Hins vegar hefur tilefnislaus og óskýrð uppsögn allra starfsmanna valdið glundroða, gremju starfsmanna og vantrausti þeirra á æðstu stjórn stofnunarinnar, þ. e. sjálfri ríkisstjórninni.

Álykta verður, að þið Hermann Jónasson hafið í þessu brambolti ykkar gagnvart stofnuninni haft að ráðgjöfum einhverja þá menn kunnuga henni, sem þið treystið betur en mér. Mér er það að minnsta kosti ljóst, að ráðherra hefur gert Jón Eyþórsson að ráðgjafa sínum og að Jón Eyþórsson gekk opinskátt erinda þinna í fréttastofumálinu síðastliðið vor. Út af þessu öllu hafa gerzt miklar og í raun og veru sorglegar greinir með okkur Jóni Eyþórssyni, sem vorum áður bæði góðir kunningjar og góðir samstarfsmenn. En hvort tveggja er, að Jón Eyþórsson hefur um of gengizt upp við það, er honum var treyst til þeirrar ráðsnilli að kippa hér í lag níu ára skipulagsstarfi mínu, og að hann er, eins og vel er kunnugt af starfssögu hans í Veðurstofunni, ekki slíkur skapdeildarmaður, að hann láti niður falla þykkju. Stofnunin er því, að öllu athuguðu, fyrir þessi afskipti ykkar, veikari en hún áður var og að vísu á engan hátt betur farin, en í sumum efnum er framtíð hennar óviss, eins og til dæmis að taka framtíðarskipun og stjórn fréttamálanna.“

Þá segir hér enn fremur : „Eins og áður getur hefur kennslumálaráðherrann notað fyrrgreinda heimild í lögum að því leyti, að hann hefur leitað tillagna útvarpsráðs um skipun og val fréttamanna. Tillögur mínar komu þar ekki til greina, nema að því leyti sem þær urðu á eina leið með tillögum meiri hluta útvarpsráðs. Hins vegar hefur dagleg framkvæmd um fréttirnar verið óbreytt, úrskurðir í vafaatriðum fallið undir mig og ég hef því borið ábyrgð á starfi þeirra manna, sem að nokkru leyti eru ráðnir gegn mínum tillögum. Ég hef haldið því fram sem viðurkenndri og eðlilegri skipun slíkra mála, að sá, sem ber ábyrgð á störfum annarra manna, eigi einnig að hafa tillögurétt um val þeirra. Þessar röksemdir hefur kennslumálaráðherrann ekki viljað taka til greina. Þó hefur hann sjálfur manna ótvíræðlegast sannað þessa reglu og gert hana gildandi, þegar hann sem lögreglustjóri í Reykjavík rak af höndum sér lögregluþjóna, sem bæjarstjórnin valdi gegn tillögum hans.

Þessi tvískipting valdsins hefur ruglað þau eðlilegu og ljósu greinarmörk, sem áður voru um starfsskiptingu og ábyrgð á stofnuninni að þessu leyti, skapað glundroða og óviðunandi ástand.“ (HermJ: Hver var ráðinn útvarpsstjóri?) Það kom aldrei til brottrekstrar hans, en tilraun þessi strandaði á andstöðu útvarpsstjóra. — Ég hef hér meira, t. d. bréf frá útvarpsstjóra til forsrh. þáv., Hermanns Jónassonar, dagsett 28. apríl 1941. Þar segir svo m. a.: „Með því að fréttastofumálið gerist nú aðkallandi, en ég tel, samkvæmt undangenginni reynslu, næsta tvísýnt, hvort ég nái tali af þér, svo að gagni megi verða, þá skal því ekki á frest skotið að segja þér allan hug minn um það mál, bera fram aðvaranir í málinu og benda þér á dýpstu rök þess og þær hættur, sem á þessari leið eru fólgnar fyrir Ríkisútvarpið sjálft.

Ég skal ekki þreyta þig með orðmælgi um dýpstu tildrög málsins. Sjálfur veiztu frumorsökina, þá að ég vildi ekki beygja mig fyrir óbilgjörnum kröfum og geðþótta Jónasar Jónssonar. Af því stafaði uppsögn allra starfsmanna og lagabreytingin á haustþinginu 1939.

Þá er þér það ljóst, að þú notaðir lagaheimildina til hálfs, með því að skjóta vali starfsmanna í fréttastofunni undir útvarpsráð, án þess að skipa henni að fullu undir vald þess, stjórn og ábyrgð. Af þessu hefur leitt óviðunandi ástand í stofnuninni, eins og ég hef margsinnis sýnt fram á.“ — Og útvarpsstjóri heldur áfram: „Skipun sú, sem þú tókst upp á í fyrravor, að láta persónulegan reipdrátt og pólitíska atkvæðagreiðslu í útvarpsráði ráða vali starfsmanna í fréttastofu, en mig bera ábyrgð á fréttastofunni eftir sem áður, stríðir á móti heilbrigðri skynsemi, réttlæti og venjum, og ég mun alls ekki sjá mér fært, hversu feginn sem ég vildi, að una slíkri skipun framvegis.“ Og enn segir hann : „Sem reyndur maður í starfinu ætla ég því að leyfa mér að vara þig við hættum í þessu máli. Aðalhættan yrði sú að setja fréttastofuna undir stjórn útvarpsráðs, hversu sem vali þess yrði hagað á hverjum tíma og hversu sem það yrði skipað. Með því yrði öllum friði um fréttastofuna slitið í framtíðinni og trausti á henni komið fyrir kattarnef.“

Hér er einnig ýmislegt annað fróðlegt, eins og t. d. ummæli hv. þm. viðvíkjandi till., sem þá kom fram á þinginu um ritskoðun í útvarpinu. En þetta geta hv. þm. lesið í Alþt. frá 1937.

Ég held nú, að það hljóti allir að vera sammála um það, að það hafi þó færzt til nokkuð betra horfs með stjórn útvarpsins og rekstur þess frá því sem þá var þegar, það var verst, enda þó að betur mætti fara. Og ég held, að þessi þáltill., sem nú er fram komin, ætti að vera okkur hvöt til þess að reyna að halda áfram á þeirri braut, í staðinn fyrir að láta sækja í sama horfið. Og það er von mín enn þá, að það muni takast.