05.04.1946
Neðri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (4851)

217. mál, mótorvélar í fiskiskip

Flm. (Pétur Ottesen) :

Herra forseti. Það er nýmæli í þessu frv. að takmarka frá því, sem nú er, tegundafjölda mótorvéla í fiskiskip. Það er kvartað yfir því, hve miklir erfiðleikar stafi af því, hve mikill fjöldi mótortegunda sé notaður í fiskibáta og skip hér. Mótorvélar þessar eru allmisjafnar að gæðum og endingu og varahlutabirgðir af skornum skammti til viðgerða.

Hér er því lagt til, að óheimilt sé að flytja til landsins aðrar báta- og skipavélar en hafa verið samþ. af sérfræðingum í þessari grein. Eiga sérfræðingar að meta gæði vélanna og gefa út reglugerð um verzlun með þær. Skal leggja áherzlu á að fá þær vélar, sem bezt hafa reynzt hér, og jafnframt tryggja það, að varahlutir verði jafnan fáanlegir í þær vélar.

Þetta er aðalákvæði þessa frv., sem er hér fram borið vegna óska frá útvegsmönnum. Ályktun var og gerð á fiskiþinginu 1944, þar sem skorað var á Fiskifélagið af undirbúa þetta. Þess er getið í lok greinargerðar, sem Fiskifélagið sendi atvmrh. í nóvember 1944, og lagt fram frv. í þessu efni, og var frv. þetta einnig sent til sjútvn. Nd. í febrúarmán. síðastl. En málinu hefur ekki miðað áfram, og þótti mér því rétt að láta þetta koma fram núna hér á Alþingi. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til grg. þeirrar, sem fylgir frv.