26.04.1946
Neðri deild: 124. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (4886)

239. mál, lántaka til hafnarframkvæmda

Pétur Ottesen:

Mér skilst af þeim umr., sem fram hafa farið um málið bæði fyrr og nú, að þá sjáist hæstv. samgmrh. yfir um eitt stórvægilegt atriði. Það er sem sé hin bráða og aðkallandi þörf vegna hins aukna bátaflota, aðeins þess vegna hefur skapazt óvenjuleg nauðsyn til að bæta hafnarskilyrðin mikið. Þess vegna sé ég ekki, að hægt sé að miða við þau skilyrði, sem gilda um þátttöku ríkisins í þessum málum og miðuð eru við venjulegar kringumstæður. Hér verður að líta miklu lengra og stærra í þessu efni. Það er vitanlegt, að það er ákaflega dýrt miðað við þá dýrtíð, sem er í landinu, að koma þessu í framkvæmd nú. Og ríkisvaldið hefur litið svo á, að með tilliti til uppbyggingar fiskiflotans yrði að gera óvenjulegar ráðstafanir til þess að draga úr þeim miklu erfiðleikum, sem fyrir hendi eru. Og tekið hefur verið til þess ráðs að veita betri vaxtakjör. Þess vegna er það alveg í samræmi við það, sem gert hefur verið í þessu efni. Og það er engu minni nauðsyn fyrir hendi nú en áður að draga úr þeim þunga, sem leiðir af stórfelldum lántökum til þessara framkvæmda. Þess vegna er þetta yfirleitt alveg í fullu samræmi við það, sem Alþ. hefur gert varðandi hliðstæðar framkvæmdir. En þessar framkvæmdir eru þeim mun þýðingarmeiri, því að á þeim veltur yfirleitt það, hvort sá árangur næst, sem stefnt er að með hinni stórfelldu aukningu skipaflotans, sem Alþ. er nú búið að sýna mikla rækt og gert miklar ráðstafanir til þess að greiða úr fyrir. Og það er afar þýðingarmikið fyrir þessar framkvæmdir, að þeir aðilar, sem eiga hlut að máli, hafi vissu fyrir að fá lán með þeim vaxtakjörum, sem hér er um að ræða, heldur en sæta miklu þyngri skilyrðum um vexti af stórfelldum lánum. Þess vegna er það ekki alls kostar rétt hjá hæstv. ráðh., að þetta frv. feli ekki í sér aukningu á þeim möguleikum, sem fyrir hendi eru nú um stórtækar framkvæmdir í þessu efni. Þvert á móti, því er þannig varið, að þessi aðstaða er stórbætt með þessu frv. Og ef þetta verður samþ., verður innt af hendi miklu meira verk í þessu efni en gert hefði verið ella. — Ég hef að vísu forðazt að spá hrakspám í sambandi við þá erfiðleika, sem hinn aukni skipafloti skapar í sambandi við hafnleysur víða úti um land, en vel gæti það fyrir komið, að þá menn, sem máske verða valdir að því, að frv. þetta verður ekki samþ., mundi iðra þess eftir á að hafa tekið þannig í strenginn.