12.10.1945
Efri deild: 7. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (4897)

17. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Ég vil eingöngu ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég sé ekki ástæðu til, að þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, verði látið tefjast vegna síðari væntanlegrar löggjafar. Þetta er sérstakt atriði, sem ég skil ekki annað en að síðari væntanleg löggjöf hlyti að taka tillit til, og þess vegna getur það ekki á neinn hátt spillt fyrir eða hindrað framgang hennar, þó að þetta litla atriði fáist skýrt út af fyrir sig. Það hefur oft tíðkazt á þingi, að ef löggjöf er sett um einhver mál, þá séu numin burt ýmis sérákvæði, sem fyrir voru í l., jafnvel sem sett voru á sama þingi, svo að mér virðist mega afgr. nú þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, þó að síðar verði sett heildarlöggjöf um þessi mál, ef hún nær þá fram að ganga. Ég hef ekki slíkt álit á þessum nm. eins og hv. þm. S.-Þ. lýsti í fyrra, að þeir hefðu betur orðið hungurmorða uppi við Hvítárvatn en að halda áfram nefndarstarfi sínu. (JJ: Ég sagði, að þeir hefðu betur mátt vera þar við lítinn kost). En hugarfar slíkra manna sem hans til nm. gefur í skyn, að það sé ekki svo víst, að þau frv., sem frá þeim koma, gangi svo greitt í gegnum þingið, heldur verði þau látin bíða. Ég vil því mælast til, að frv. verði látið ganga fram, og sé ekki, að það geti spillt, neitt fyrir setningu heildarlöggjafar í þessum efnum.