15.11.1945
Sameinað þing: 7. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í D-deild Alþingistíðinda. (5160)

71. mál, verkleg kennsla í nokkrum heimavistarskólum

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Þessi till. miðar að því, að Alþ. bæti úr þeirri vanrækslu, sem átt hefur sér stað síðan 1939, þegar ákveðið var með lögum, að héraðsskólar skyldu auka stórlega verklega kennslu bæði karla og kvenna, þannig að 1/3 hluti námstímans gengi í verklegt nám, piltar fengjust við smíðar, en stúlkur saumuðu. En svo skall styrjöldin á, og ekki var hægt að auka byggingar og vart hægt að fá efni.

Hvað snertir áhuga þingsins 1939, er það víst, að allir flokkar fögnuðu þessari breyt., sem gerð var á l. þá. Það mundi hafa holl og góð áhrif á þroska unglinganna og gera þá að nýtari mönnum, og þegar þess er gætt, að í skólum þessum eru um 800 nemendur, þá er þetta mikilvægt atriði. — Nú tel ég sennilegt, þar sem búnaðarskólarnir tveir hafa ekki neina verulega vinnukennslu haft, að farið verði að sjá þeim fyrir vinnustofum.

Nú var tekið fram í l. 1939, að ríkið legði fram 25 kr. á hvern nemanda til kennslunnar. Nú hef ég hækkað það allverulega með tilliti til þeirrar dýrtíðar, sem nú er, því að ekki er hægt að ætlast til, að nemendurnir leggi fram sjálfir efni til smíða sinna, því að oft vinna þeir í þjónustu sjálfra skólanna. Enn fremur er það staðreynd, að kennsla í verklegum greinum er dýrari en kennsla í bóklegum efnum. Nú hefur tímakaup fyrir bóklega kennslu verið hækkað upp í 20 kr., svo að verkleg kennsla er nú orðin alldýr. Mér hefur þótt eðlilegt að hreyfa þessu máli nú, þar sem hæstv. ríkisstj. leggur mikla áherzlu á að auka hina verklegu kennslu. Nú eiga allir unglingar, samkv. hinum nýju l., að stunda nám í gagnfræðaskóla 2 eða 3 ár, og finnst mér, að þeir hv. þm., sem fylgja hinu meira frv. stjórnarinnar, geti einnig samþ. þáltill. þessa, þar sem hún er sniðin eftir þeim l., sem nú eru í gildi. Mér þykir verra, að hæstv. ráðh. skuli ekki vera hér viðstaddur, svo að við gætum hlýtt á álit hans, en ég vona, að það megi þá verða við síðari umr.

Að endingu læt ég þá ósk í ljós, að till. verði samþ. til 2. umr. og síðan vísað til viðeigandi nefndar.