02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í D-deild Alþingistíðinda. (5278)

185. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Samkv. III. kafla útsvarsl. frá 1936 segir svo í 8. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Þar skal leggja útsvar á gjaldþegn, sem hann hafði heimilisfang vitanlega eða samkvæmt manntali næst á undan niðurjöfnun.“

Nú hefur fallið hæstaréttardómur á þann veg, að aðilar skuli greiða útsvör — ekki samkv. þessum skýlausu fyrirmælum 8. gr., heldur þar sem stjórn viðkomandi félags eða aðila á aðsetur, burtséð frá því, hvort viðkomandi félag eða aðili á starfrækslu eða fasteignir á öðrum stað eða ekki. Þetta hefur orðið til þess, að fleiri en einn sveitarsjóður hafa orðið af því að fá lögmætar tekjur af útsvörum og atvinnurekstri samkv. þessari gr. útsvarsl., og hafa af þessu oft hlotizt málaferli og ýmiss konar óánægja. Ég bar því fram till. til breyt. á þessum l. á síðasta þ., en henni var vísað frá af hv. allshn. með rökst. dagskrá, þar sem þess var vænzt, að hæstv. ríkisstj. léti fara fram endurskoðun á útsvarsl. Þetta var ekki gert, og bar ég því fram á ný sams konar brtt. á l. á þessu þingi. Þetta fór á sömu leið, og gaf hv. allshn. út nál. með rökst. dagskrá þann 3. des. f. á., þess efnis að vísa málinu frá, þar sem upplýst var, að verið væri að vinna að heildarendurskoðun á útsvarsl., og gert ráð fyrir, að niðurstöður hennar yrðu tilbúnar til þess að leggja fyrir Alþ. 15. febr. þ. á. Ég tel það vera bráðnauðsynlegt að fá þessa endurskoðun sem allra fyrst, einkum þó á III. kafla útsvarsl., þar sem deilt er um þetta atriði. — Ég vildi því fá að heyra það hjá hæstv. dómsmrh., ef hann er hér, hvort hann hugsi sér að láta fara fram endurskoðun á l., ef þessi till. verður samþ. En ef svo færi, að hann vildi ekki lýsa þessu hér yfir, annaðhvort við þennan hluta þessarar umr. eða síðar, eftir að málið kemur úr n., að hann láti fara fram umrædda endurskoðun og það svo snemma, að hægt væri að gera breyt. á l. þegar á næsta þ., þá er nauðsynlegt, að Ed. taki efnislega ákvörðun til þessa máls, því það er svo alvarlegt fyrir viðkomandi héruð, og fæ ég ekki skilið, hvernig hv. allshn. Ed. skuli tvisvar hafa skotið sér undan því að taka afstöðu til málsins. Vil ég því vænta þess, að málið fái skjóta afgreiðslu hér á hv. Alþ., og einnig, að hæstv. dómsmrh. lýsi yfir því, hvaða afstöðu hann tekur til þess, því að annars er nauðsynlegt að knýja fram nú þegar efnislegan úrskurð a. m. k. hv. Ed. um þetta atriði.