08.02.1946
Neðri deild: 65. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Eysteinn Jónsson:

Ég er hæstv. ráðh. þakklátur fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf, svo langt sem þær ná. Og það er ágætt, að þetta skuli eiga að ræða nánar á næstunni í Alþ. Hæstv. ráðh. gat um það, að ríkisstj. hefði hugsað sér að tryggja mönnum ákveðið verð fyrir visst magn af saltfiski, og minntist á 5000 tonn í því sambandi, sem ríkisstj. hefði hugsað sér að ábyrgjast verð á. En ég vildi benda á það á þessu fyrsta stigi málsins, að það er ákaflega þýðingarmikið, hvernig þessu magni er deilt niður og hvernig á að selja þetta magn. Mér skilst það sé mjög þýðingarmikið, hvernig þessum kvóta er skipt. Og ég vil gera fyrirspurn um það til hæstv. ráðh. og hef verið hvattur til þess af aðilum, sem eiga nokkuð undir því, hvernig á málum þessum er haldið.

Í öðru lagi minntist hæstv. ráðh. á það að það hefðu farið fram viðræður við hraðfrystihúsaeigendur varðandi framhaldsrekstur húsanna. Ég hygg það hafi orðið þannig, þótt hæstv. ráðh. segði það ekki, að ríkisstj. hafi tekið ábyrgð á því, að ríkissjóður borgaði þá 5 aura, sem liggja á milli 45 og 50 aura verðsins á venjulegum fisktegundum, og miðað við, ef það verð fæst ekki hækkað í Bretlandi, þá verði mismunurinn borgaður. Vona ég hæstv. ráðh. leiðrétti þetta, ef hér er rangt með farið. Þessar ráðstafanir bera það með sér, hvernig ástandið er nú orðið í þessum málum, en það er ekki ástæða til að hefja almennar umr. um það hér. Þessar ráðstafanir eru sennilega óhjákvæmilegar eða einhverjar svipaðar, fyrst ekki er fastara tekið á málunum á annan og heilbrigðari hátt, eins og lagt hefur verið til af öðrum aðilum en þeim, sem nálægt þessu koma núna.

Ég vil svo undirstrika þetta viðkomandi saltfiskkvótanum. Það veltur á miklu, hvernig honum er skipt. Og ég vil einnig benda á að gefnu tilefni, að það er ekki réttlátt að miða þennan saltfisk-kvóta eingöngu við stórfisk. Ef þetta á að koma að gagni fyrir smáútvegsplássin, þá verður — líka smærri fiskur að geta komið til greina.

Að lokum vil ég beina til ríkisstj. fyrirspurn um það, hvort ekki hafi verið gerðar ráðstafanir til að tryggja ísfiskflutningana með því t. d. að afla skipakosts til flutninganna til viðbótar þeim skipakosti, sem Íslendingar eiga yfir að ráða. Mig rekur minni til þess, að þegar menn lögðu málið niður fyrir sér í fyrra, þá þótti nauðsynlegt að tryggja viðbótarskipakost í þessu skyni. Þótt ágreiningur væri um frágang samninganna í þessu sambandi, voru menn sammála um nauðsyn þess að tryggja skipakost. Ég vildi spyrja, hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstj. hefur gert í þessa átt eða hvað hún hugsar sér að gera. Mér skilst, ef vertíðin verður sæmileg hvað afla snertir, þá séu sáralitlar líkur fyrir því, að menn geti losað sig við fisk sinn nægilega ört. Þess vegna drep ég á þetta. Ég hef heyrt, að ekki hafi enn verið komizt að neinni niðurstöðu í samningum, sem átt hafa sér stað um lækkun útgerðarkostnaðar á flutningaskipum. Svo það sé allt í óvissu um, hvort flutningaskipin haldi áfram að kaupa og flytja fiskinn.

Vona ég, að hæstv. ráðh. gefi svör við þessum spurningum núna eða síðar, með því að láta þessi mál koma til umr. hér í þinginu. Mér finnst hæstv. ríkisstj. ætti ekki að láta langan tíma líða, þangað til hún leggur þær ráðstafanir, sem þegar er búið að gera, fyrir þingið til samþykktar.