01.03.1946
Neðri deild: 78. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

158. mál, ríkisreikningurinn 1942

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Ég hef út af fyrir sig ekkert að segja um þær aths., sem gerðar eru við ríkisreikninginn 1942 og fram komu hjá hv. frsm., fram yfir það, sem aths. sjálfar segja. En út af aths., sem hann gerði síðast, viðvíkjandi því, að ríkisreikningurinn væri síðla tilbúinn, vil ég aðeins upplýsa það, að ástæðan til þess, að ríkisreikningurinn er svo langt á eftir tímanum, er ekki sú, að ríkisbókhaldið sé ekki búið að ganga frá honum. Ríkisreikningurinn fyrir árin 1943 og 1944 liggur einnig fyrir fullgerður hjá ríkisbókhaldinu, það stendur meira á endurskoðun. Ég hef átt tal um þetta við endurskoðendur ríkisreikninganna og lagt á það áherzlu, að hægt væri að hraða þessu meira en gert hefur verið, til þess að reikningurinn gæti fyrr legið fyrir en raun hefur á orðið hin síðari ár, því að það er náttúrlega mjög óheppilegt og ógeðfellt, að ríkisreikningurinn skuli ekki vera tilbúinn til samþykktar á Alþ. fyrr en 4 árum eftir lok reikningsársins. En ástæðan til þess, að endurskoðendur hafa ekki treyst sér til að hraða þessu meira en raun er á, er sú, að húsnæði vantar. Það er ekki hægt að fjölga mönnum við endurskoðunina, svo að hún gangi betur, vegna húsnæðisskorts. En endurskoðunin fer fram á fleiri stöðum, og það mega allir sjá, hvað heppilegt það er, að sami maðurinn skuli eiga að hafa eftirlit með starfi, sem fer fram á þrem stöðum samtímis. En þegar nýja skrifstofubyggingin við Arnarhól verður fullgerð, verður reynt að bæta úr þessu og fjölga mönnum við endurskoðunina, þannig að ríkisreikningurinn geti orðið fyrr tilbúinn en raun hefur verið á. — Þessa aths. vildi ég aðeins láta koma hér fram, til þess að vekja athygli á því, að það er ekki stj. sök, að ekki hefur fengizt lagfæring á þessu.