23.11.1945
Efri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Gísli Jónsson:

Ég hygg, að það sé eindæma afgreiðsla á þessu máli frá hv. fjhn. Fyrst er borið hér fram frv. til staðfestingar á brbl., sem hæstv. ríkisstj. gaf út, og frv., er rætt áður í öllum flokkum, og mér er kunnugt um, að hv. form. fjhn. hafði þá ekkert við málið að athuga.

Og ég hygg, að hv. 3. landsk. eða a. m. k. hans flokkur hafi þá ekkert haft heldur við málið að athuga, svo að hann var meðábyrgur um það, að þessi l. hafa verið sett og eftir þeim farið, þangað til þau fengju staðfestingu þingsins. En nú rísa þessir hv. þm. upp, annars vegar hv. form. fjhn. og hins vegar hv. 3. landsk. þm. og 7. landsk. þm., sem allir hafa talið sig einhverja sterkustu stuðningsmenn þessarar hæstv. ríkisstj., og vilja gerbreyta í veigamiklum atriðum þessu frv., sem hæstv. ráðh. ber fram.

En þegar þetta er athugað nánar, þá er þetta ekkert undarlegt, því að það eru þessir hv. þm., sem skefjalausast ganga fram á Alþingi í því að svíkja samninginn við ríkisstj., sem þeir höfðu einnig gert í sambandi við launalagafrv., þegar þeir fóru langt út fyrir þau takmörk, sem samið hafði verið um. Og þetta virðist nú vera áframhaldandi stefna þessara manna. Það er ekki hægt að skilja á annan veg framkomu þeirra manna, sem flytja brtt. á þskj. 67. Ef litið er á það, hvaða afleiðingar það hefur, ef þessi brtt. verður samþ., þá er ljóst, að það mundi raska alveg grundvellinum fyrir útreikningi vísitölunnar í landinu. Og það er sannarlega ekki hlutverk fjhn. í sambandi við þetta mál að leggja það til. Það var nýlega sett n. til að rannsaka, hvort þessi útreikningur væri rangur.

Það mál var og rannsakað mjög ýtarlega, og rökstutt álit þessara nm. var á þá leið, að útreikningurinn væri svo nálægt því, sem raunverulega ætti að gilda, að ekki var talið gerlegt að reikna um þennan grundvöll. En nú koma þessir menn, sem fylgt hafa þessum l. áður, með till. um að raska alveg útreikningi vísitölunnar. Því að ef á að leggja 25% við það magn, sem reiknað er með, þ. e. gengur inn í vísitöluna viðkomandi þessum vörum, þá verður vitanlega þessi hundraðshluti að leggjast við á öllum vörum á sama hátt. En það kann vel að vera, að það gerbreyti allri vísitölunni, ef bætt er við 25% á öllum vörum á þennan hátt (HG: Það mundi engu breyta). Það er einkennilegt, ef hv. þm. álítur, að þetta breyti engu, því að það gengur ekki sama magn af öllum vörum inn í vísitöluna. (MJ: Það á heldur ekki að gera það). Það veit þessi hv. þm. ekkert um, sem fram í greip. (MJ: Hv. þm. bara skilur ekkert í málinu). Ég er viss um, að hv. 1. þm. Reykv. hefur kastað svo höndum til þessa máls, að hann hefur ekki hugmynd um, hvað hann hefur undirskrifað, þegar hann lét þessar brtt. frá sér. Það virðist vera sannreynt, að þetta sé hans verk, því að hann virðist álíta, að ef hann ekki fengi þetta inn í frv., þá mundi verða erfið kosningabaráttan fyrir hann hér í Reykjavík. Hann gaf þar snöggan blett á sér, sem sýnir, að það hefur hann fyrst og fremst hugsað um í þessu sambandi, sem kæmi honum vel í þeirri baráttu. Ég vil benda þessum hv. þm. á það, hvort þeir ekki vilja kynna sér það, hvaða áhrif það hefur haft á vísitöluna á Íslandi, að þeir fóru lengra í launamálinu á síðasta þingi en viturlegt og sanngjarnt var, og að þeir vildu svo athuga um leið, hvort þeir erfiðleikar eru ekki nægilegir, sem þeir hafa bakað núverandi hæstv. ríkisstj., sem þeir styðja, þó að þeir ekki bæti því nú ofan á, sem þeir nú vilja gera í sambandi við þetta mál. Það er vitanlegt, að ef þessar brtt. verða samþ., þá er það svo, eins og hv. 1. þm. Eyf. hélt fram, að þær geta stórhækkað vísitöluna. Og hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir, að hann teldi þessar brtt. til hins lakara, og þess vegna er ákaflega einkennilegt, að einmitt hans stuðningsmenn skuli halda fast við þær og vilja fá þau ákvæði inn í l., sem gera ráðh. erfiðara að framkvæma þau. Og um hv. 3. landsk. þm. er það að segja, að þó að ég sé ekki fær um að rannsaka hjörtun og nýrun, þá vita það allir, eftir framkomu hans í þessu máli og fleiri málum, að hann er ekki nema í orði kveðnu stuðningsmaður stjórnarinnar, því að allt bendir til þess, að hann vilji gera hennar göngu erfiðari en þyrfti að vera. Ég hefði getað skilið það, ef hv. þm. Dal. hefði komið fram með þessar brtt., en hinir hv. þm. í meiri hl. n. hefðu gert fyrirvara gagnvart brtt. frá honum. En nú er þessu alveg snúið við, þannig að nú virðist það vera einmitt hv. þm. Dal., sem styður hæstv. ríkisstj., en hinir hv. nm. geri allt, sem þeir geta, til þess að hennar ganga verði erfiðari. — Ef þessi brtt. verður samþ., mun ég alls ekki treysta mér til að fylgja frv. á eftir. Ég hef, eins og hæstv. ráðh. er kunnugt, samþ. að fylgja frv. eins og það var lagt fram af hæstv. ríkisstj. og borið undir flokkana á s. l. sumri. Og ég vil segja hv 3. landsk. þm. það, að það gæti vel farið svo, að það yrði ekki svo ýkja langt þangað til að hann yrði að taka þessi mál með svolítið meiri alvöru en hann virðist hafa gert hingað til. Það er ekki alvara fyrir honum, að hann sé að reyna að vernda hag þeirra, sem kaup taka, ef hann ætlar ekki að stinga nokkurs staðar við fæti á þessari braut, sem hann nú gengur. Ég vil benda honum á það líka, að það er annar liður þessa stjórnarsamnings, sem hann virðist ekki hafa lagt eins mikið kapp á að fullnægja og honum bæri að gera, en það er að stöðva ekki vinnu í landinu. Svo að verkefnin eru nóg fyrir hann, ef hann ekki finnur, að hann hafi neitt að starfa í þágu þessarar ríkisstjórnar. Það er hægt að benda honum á nóg verkefni annað en að spilla þessu máli. Ég vil einnig benda hv. 3. landsk. þm. á það, að mér er nokkuð kunnugt um, að það er víðar en á Íslandi, sem talið er, að vísitalan sé röng. Ég vil ekki segja, að hún sé það hér. Mér er kunnugt um, að verðvísitalan í Bretlandi er miklu, miklu lægri en hér, þó að kostnaður við að lifa þar sé litlu minni en hér á landi. Og mér er líka ljóst — og það væri kannske gott fyrir hv. 3. landsk. að athuga það — að það er margfalt meira magn hlutfallslega af kjöti og smjöri, sem sett er inn í vísitöluna hér en þar í landi. Og ef farið væri í það að minnka magnið hér, sem gengur inn í vísitöluna af kjöti og smjöri, eitthvað á móts við það, sem á sér stað í Bretlandi nú, þá mundi vísitalan á Íslandi mjög mikið raskast. En hér virðist það vaka fyrir hv. 3. landsk. þm. að krefjast þess skefjalaust, að eingöngu sé litið á ímyndaða hagsmuni vissra stétta, en ekki hugsað um það, sem raunverulega af hans kröfum hlýzt fyrir þessar sömu stéttir, né heldur stuðning sinn við ríkisstj., sem m. a. hefur tekið sér fyrir hendur að halda niðri vísitölunni.

Hæstv. fjmrh. benti á það, hvaða áhrif það gæti haft, ef farið væri að bæta upp saltfiskinn, eins og hann minntist á. Og það sýnir ákaflega ljóslega, í hvaða ógöngur það gæti leitt, ef þessi brtt. meiri hl. n. væri samþ. og ef svo væri farið eftir henni, sem ég sé ekki annað en að ráðh. væri skyldugur til að gera, ef efni brtt. væri sett inn í lögin.