02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Það er einungis vegna þess, að þessi rödd kom fram frá hv. 3. landsk., að vara við að slaka mjög til á frjálsum innflutningi, að ég kveð mér hér hljóðs, til þess að ráðh. fái rödd, sem hvetji til hins gagnstæða við það, er 3. landsk. hvetur til.

Það er gömul saga hér að forsvara innflutningshöft með því að bera við innflutningi glysvarnings. Þótt hægt væri að sýna fram á áður fyrr, að hann næmi sáralitlu, væri hverfandi, þá var mjög haldið fram, að innflutningshöft yrðu að vera til að koma í veg fyrir innflutning óþarfa.

Ég verð var við þessa rödd enn. Þá vil ég segja það, að á innflutningsskýrslum hefur upphæðin fyrir þennan óþarfa alltaf numið litlu, þótt mikið beri á, glysvarningi í búðargluggum og hann sé dýr. Það er ekki sérstaklega mikið greitt út úr landinu fyrir þennan varning.

Út af þessum umræðum læt ég einkum í ljós gleði mína yfir því að heyra, hve hv. 2. þm. S.-M. er nú hlynntur frjálsum innflutningi.

Það verður ævinlega sannfæring mín, að mikið böl hljótist af innflutningshöftum. En þau verða oft hrein og bein trúarbrögð. Höftin hafa alltaf skapað vöruskort og hækkað vöruverð í landinu, og af því hefur aftur leitt aukna erfiðleika fyrir landsfólkið. Mun æ og ævinlega verða svo, að innflutningshöft leiða af sér vöruskort, og af honum leiðir aftur of hátt vöruverð. Þetta er ekki heilbrigt. — Ég hvet til þess, að stjórnin leyfi frjálsa verzlun.

Hér á landi mun vöruverð vera miklu hærra en í nágrannalöndunum. Ég hef verið að kynna mér þetta og spurt menn, er nýlega eru komnir hingað heim. Hef ég undrazt mjög hið lága verð þar á lífsnauðsynjum og hinn geysilega mun á lífskjörum fólks hér og erlendis. Hinar rótgrónu hömlur eiga sinn þátt í því.

Ég hef þessi orð ekki lengri, enda er ekki algengt að teygja úr umræðum utan dagskrár. Ég vildi aðeins segja þetta til að hvetja stj. til að leitast við að gera verzlunina sem frjálsasta.