15.02.1946
Neðri deild: 68. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal strax svara fyrirspurn hv. 11. landsk. á þessa leið : Enn hefur enginn arkitekt, hvorki innlendur né erlendur, verið ráðinn til verksins. Það kom fram upphaflega, í umr., sem fram fóru um þetta mál, að það mundi heppilegt að fá hingað erlendan sérfræðing, sem hefði fengizt við hótelbyggingar, til þess að leggja línurnar að því, hvernig þessari byggingu skuli fyrir komið. Þetta er, sérfræðigrein, sem enginn íslenzkur arkitekt hefur haft með höndum, og þótt það sé vitað, að íslenzkum arkitektum sé til alls góðs trúandi, fer það ekki framhjá neinum, að erlendir sérfræðingar, sem hafa gert það að lífsstarfi sínu að byggja hótel, mundu standa betur að vígi en aðrir. Nú hefur okkur borizt svar frá sendiherra Íslands í Bandaríkjunum um það, að einn frægasti hótelarkitekt Bandaríkjanna sé reiðubúinn að koma til Íslands, ef við óskum þess. Hann hefur byggt tugi hótela víðs vegar um Bandaríkin og utan þeirra, og ýmsar stórþjóðir utan Bandaríkjanna hafa ekki talið sig upp úr því vaxnar að leita til hans og hafa ekki talið sig hafa það mikið af sérfræðingum, að þær teldu það ekki betra að fá hann en þá, sem þær hafa heima fyrir í þeirri grein. Hann hefur nú 4 stór hótel í smíðum og á því erfitt með Íslandsferð. En ég teldi mikið unnið, ef hægt væri að fé sérfræðiþekkingu þessa manns til viðbótar íslenzkum starfskröftum til þess að tryggja, að húsið yrði á alþjóðamælikvarða eins gott og frekast væri kostur á, en ekki annars, þriðja eða fjórða flokks, eins og við höfum nóg af. Að öðru leyti skal ég segja nokkur orð við hv. 10. landsk.

Mér virtist hann bera nokkuð kápuna á báðum öxlum. Mér virtist hann í öðru orðinu viðurkenna þörfina fyrir því, að hótel yrði byggt og gott hótel, en taldi hins vegar ýmis tormerki á þessu, svo að ég vissi eiginlega ekki, þegar hann settist niður, hvort hann var með málinu eða á móti, og varð það tæplega af hans ræðu ráðið, en það skýrist ef til vill síðar. Hann viðurkenndi í upphafi þörfina á því, að það yrði bætt úr hótelþörfinni hér í bænum, en taldi, eins og hann orðaði það, mjög athugandi, hvort ríkið eigi að skerast í málið eða ekki, og virtist mér hann ekki tilbúinn að gera það upp við sig, a. m. k. ekki á þessu stigi. En út af þessu vil. ég aðeins segja það, eins og kom fram í framsöguræðu minni, að ég tel litlar líkur til, að einstaklingar eða félög, sem verða samkv. eðlilegum málanna gangi að láta hlutina bera sig, treystu sér til þess að ráðast í framkvæmd sem þessa, sem líklegt er, að ekki geti fjárhagslega skilað æskilegum og góðum árangri nema með því móti að fara með reksturinn út á braut, sem ég tel óæskilega. Það, sem fyrir okkur hefur vakað öllum, sem um þetta mál höfum talað, bæjarstj. fyrir hönd Reykjavíkurbæjar, forstjóra Eimskipafélagsins fyrir hönd stjórnar þess og ráðh. fyrir hönd ríkisins, er það að reyna að fá hér hótelbyggingu, sem á allan hátt væri fyrsta flokks og þjóðinni til sóma, þar sem fyrsta boðorðið væri, að allt væri með þeim ágætum, sem frekast yrði á kosið, en ekki fyrst og fremst hugsað um það að fá aftur að öllu leyti beinlínis þá peninga, sem í þetta hótel yrðu lagðir. Ég skal ekkert segja um það, hvort sjónarmiðið á meiri rétt á sér, en ég hefði haldið, að í þessu tilfelli hefðum við ráð á því að kynna okkur út á við á þennan hátt, þó að það kostaði kannske nokkurt stofnfé í upphafi, án þess að gróðasjónarmið kæmi þar í fremstu röð. Hv. 10. landsk. þm. sagði, að hér væri ekki fyrir almenning unnið, og má vera, að hann hafi þar rétt fyrir sér, en aðeins að nokkru leyti, því að það er fyrirsjáanlegt, eins og Ísland er nú í sveit sett og með þeirri umferð, sem verður um landið af erlendum ferðamönnum bæði á lengri og skemmri leiðum, að í framtíðinni verða okkar hótel, þau sem við höfum nú, svo fast setin af útlendingum, að Íslendingar komast þar alls ekki að. Og þó að þetta nýja hótel yrði fyrst og fremst byggt fyrir erlenda ferðamenn, sem væru vanir fyrsta flokks þjónustu, þá gæti það eins komið almenningi til góðs, sem getur sætt sig við ódýrari þjónustu, á þann hátt, að þau hótel, sem annars væru upptekin af erlendum mönnum, væru þá til afnota fyrir Íslendinga. Þess vegna má segja, þó að hér sé byggt fyrst og fremst fyrir útlendinga, að það kæmi þó einnig að notum til þess að bæta úr innlendri þörf, þar sem þau hótel, sem fyrir væru, kæmu þá til innlendrar notkunar. Það kann að vera, að það þyki ekki góð skipan, að þeir erlendu ferðamenn, sem hér hafa verið, flytjist burt af þeim hótelum, sem hér hafa verið, en mér finnst það ekki óskynsamleg skipan málanna að gera þetta á þennan hátt og alveg eins skynsamlegt eins og að byggja sérstök hótel fyrir innlenda notkun.

Þá minntist hv. þm. einnig á eignarnámsheimildina, sem felst í 5. gr. frv., og virtist telja það vafasamt, að hér væri fyrir hendi sú almenna þörf, sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir, og jafnvel að þessi 5. gr. gæti komið í bága við þessa stjórnarskrárgrein, þótt ekki væri það beinlínis sagt. Ég er enginn lögfræðingur að vísu, en ég vil þó geta þess, að ég hef ekki samið frv. upp á mitt eindæmi, heldur skrifstofustjórarnir í ráðun., sem um þessi mál fjalla, og ætla ég, að þeir hafi ekki farið lengra en þeir hafa talið óhætt gagnvart stjskr. og þeir þess vegna talið þau skilyrði vera fyrir hendi, sem réttlættu, að þetta eignarnám gæti farið fram. Hins vegar skal ég viðurkenna, að þetta ákvæði er komið inn að alveg gefnu tilefni, þ. e. a. s. það kom til greina undir hótelið staður, þar sem standa íbúðarhús, sem þyrfti að kaupa upp, til þess að hægt væri að koma húsinu niður á þann hátt, að það færi sem bezt, og út frá því sérstaka sjónarmiði var þetta ákvæði sett inn í frv.

Ég held, að það neiti því enginn, að það er almenn þörf fyrir aukin gistihús hér í bænum. Menn koma hér í hópum, standa á götunni og hafa engin úrræði önnur en að ryðjast inn til fólks, skyldmenna, vina og venzlamanna, og stundum minna þekktir, til þess að liggja ekki úti. Ég þekki dæmi um þetta. Og þó að þessu hóteli sé ekki ætlað að bæta úr þeirri þörf fyrst og fremst, þá verður bætt úr henni með því að losa hús, sem annars mundu ekki vera fyrir hendi fyrir þessi afnot. Ég fyrir mitt leyti tel, — en það er aðeins mín skoðun, sem ekki styðst við neina lögfræði, að hér sé ekki gengið á snið við ákvæði stjskr., svo að það þurfi að bera neinn kvíðboga fyrir því, að hún sé brotin með þessari lagagr., enda sjálfsagt að fara fram á það við þá n., sem fær málið til athugunar, að hún gangi ýtarlega í gegnum frv. og kanni bæði þetta ákvæði og annað, sem þar kemur til greina. En undirbúningur frv. var í þess manns höndum, sem ég taldi mjög vel færan um að skera úr um þetta atriði, og það gerði mig öruggan um, að hér væri ekki farið inn á hála braut, þannig að stjskr. væri sniðgengin eða brotin. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vænti þess, að bæði þessi hv. þm. og aðrir að athuguðu máli geti fallizt á, að hér sé farin sú eina færa leið til þess að fá ráðna bót á þessu vandamáli á þann hátt, að þjóðinni geti orðið til sóma. Það hafa komið til mín menn, fleiri en einn og fleiri en tveir einstaklingar, og rætt um gistihúsbyggingu í Reykjavík, og þeir hafa sumir gert meira en að ræða það, þeir hafa haft um það ýmsa tilburði að hrinda hlutunum í framkvæmd. En þegar þeir hafa farið að kynna sér málið, þá hefur það komið í ljós, að það hefur þurft til framkvæmdanna meiri fjármuni en þeir sáu sér fært að afla nema með því móti að draga reksturinn inn á þá braut, sem ráðun. taldi ekki eðlilegt. Ef þessi hótelrekstur á að verða þjóðinni til sóma, þá tel ég eina ráðið að halda honum uppi á þann hátt, að honum verði lagt til það fé, sem hann þarf í upphafi, gangandi út frá því að sjá það ekki beinlínis aftur. Þess vegna er það, að þeir aðilar, sem hér hafa orðið ásáttir um að koma sér saman um þessa hótelbyggingu, Eimskipafélagið, Reykjavíkurbær og ríkissjóður, eru þeir einu aðilar, sem hér koma til greina.