12.03.1946
Neðri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til umr. síðast, varð það að samkomulagi við hv. frsm. allshn., að málinu yrði frestað og reynt, hvort ekki mundi vera unnt að fá samkomulag við n. út af brtt. hennar við 5. gr. En eins og þskj. 500 ber með sér, leggur meiri hl. n. til, að 5. gr. frv. verði felld niður. Nú hefur mér ekki tekizt að hafa samband við n. um þetta mál. En ég orðaði það hér við umr. síðast, hvort ekki mundi verða hægt að ná sama markmiði með því að umorða brtt. lítils háttar. Og hef ég því hugsað mér að bera hér fram skrifl. brtt. í samræmi við það, sem fer í þá átt, að þessi eignarnámsheimild verði ekki notuð nema því aðeins, að allir aðilar, sem að málinu standa, ríkisstj. í heild og aðrir aðilar, sem hafa bundizt samtökum um lausn málsins, séu sammála um, að þetta eignarnám fari fram. Það ætti að tryggja, að ekki yrði gripið til neinna örþrifaráða í þessu sambandi og að fyrirbyggt væri, að eignarnámsheimildinni yrði misbeitt. Ég vil því leyfa mér að leggja fram svo hljóðandi skrifl. brtt., að aftan við fyrri málsl. 5. gr. — en hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórninni er heimilt að taka eignarnámi lóðir, hús og mannvirki eftir því, sem hún telur þurfa undir gistihúsið og því til afnota“ — komi: „enda sé öll ríkisstjórnin og þeir aðilar, sem að byggingunni standa, sammála um, að eignarnámið fari fram.“ — Leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt.