13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég mun ekki deila við hv. formann allshn. um þær krókaleiðir, sem sú n. hefur valið sér. Það sér hver maður, að ef tillögur hennar verða lögfestar, þá er heimild til þess að taka eignarnámi ekki einu sinni visst svæði í bænum, heldur virðist vera leyfilegt að taka þannig staði eða hverfi eignarnámi koll af kolli, eftir því sem þurfa þykir. Ef þessi staður þykir ekki hentugur, þá er hægt að taka annað, og þannig er hægt að horna allan bæinn. Þetta er algerlega óþekkt, að n. gefi vilyrði fyrir því, að hægt sé að taka eignarnámi hina og þessa staði. Það er ekki víst, að þessi n. lifi svo lengi, að hún geti staðið við öll þau loforð, sem hún gefur. — Það virðist hafa komið inn misskilningur hjá n. varðandi fyrirspurn mína, hvort aðrir aðilar væru ekki að verki, — sem sé hvort fjársterkir aðilar væru ekki að hefja undirbúning gistihúsbyggingar hér í bænum. Þessi n. virðist lítið hafa kannað það, þótt ég héldi, að henni væri skylt að rannsaka allt, er snerti málið. Það þurfti meira að segja ákveðna ósk til að fá n. til að athuga þann möguleika að fá fleiri aðila að verkinu.

Þá kem ég að því, að n. tók allt annað sjónarmið en ég átti við. Ég mæli hér ekki fyrir hönd þeirra, sem ætla að reisa hér gistihús, heldur af hálfu ríkisins og hins opinbera. Þarf ríkið að ráðast í að leysa þennan vanda með því að leggja fram 5 millj. kr.? Nú er það einnig komið fram, að það er ekki eindregið samkomulag ríkisstj. á þessum vettvangi að afgreiða málið. Það er lítt hirt um að fá aðra aðila til þess að vera með, heldur á að taka ráðin af þessum mönnum. Ég vil fría ríkið við að reisa þetta gistihús, því að tilgangur getur varla verið sá, að ríkið reisi endilega gistihús, heldur að það verði reist gistihús. Hér virðist tilgangurinn helga meðalið, og ef það er svo, þá ætti ekki að vera neitt eitur að beina málinu inn á aðrar brautir, án þess að gripið sé til örþrifaráða. Skv. 1. gr. er ríkisstj. heimilað að verja 5 millj. kr. til byggingar hússins. Ég hygg, að nokkuð verði farið að skarðast úr þessum 5 millj. kr., þegar búið er að kaupa lóðir og lendur og bæta eigendunum tjón sitt upp og sjá því fólki svo fyrir íbúðum.

Það er ekki rétt, sem komið hefur fram, að öll ný lög, sem sett eru, afnemi hin eldri lög. Nýju lögin þurfa að fullnægja einhverjum tilgangi. Þótt lög séu sett um eignarnám, er ekki nóg, að þau bæti það tjón, sem eigandinn hlýtur, heldur verður og að fullnægja öllum öðrum lagaákvæðum. Það væri líka hart, ef hægt væri að reka menn burtu bótalaust, og það eru líka lög, sem banna það, og er þá ekki víst, að eignarnámið geti farið fram.

Hér talaði fyrir skömmu hæstv. atvmrh. og hefur víst hæstv. samgmrh. orðið eitthvað undrandi. Það kom á daginn, að það er alls ekki öll ríkisstj., sem stendur óskipt í máli þessu. En það má vera, að innan ríkisstj. sé til meiri hluti um þetta mál, og hljóta þá sjálfstæðismenn að mynda hann ásamt Alþýðuflokksmönnum. Það er þá komið svo, að þeir, sem láta mest af því að vera verðir eignarréttarins, þeir standa þarna með, en ekki einu sinni þeir, sem maður hefði helzt búizt við, og á ég þar við sósíalista. Það er aðeins 5. gr., sem þeir geta fellt sig vel við, og þó heyrðist mér á hæstv. atvmrh., að ríkisstj. ætti helzt að fá ótakmarkaða eignarnámsheimild. — Nú er sagt, að það eigi að gera landið að ferðamannalandi. Svo á fólkið að ferðast um landið og auka þannig atvinnu íbúanna. Það kemur hingað í flugvél og hefur e. t. v. örlitla viðdvöl í Reykjavík. En það verður að sjá þessu fólki farborða, sem ætlar að dveljast hér, og tæplega mun það láta sér nægja að vera í gistihúsinú í Reykjavík. En hvað er í hyggju að gera fyrir þetta fólk, sem vill ferðast hér um? Það er víst harla lítið, — hér virðist hafa verið tekin skökk pólhæð og flest vera illa undirbúið.

Nú tel ég, að ég hafi gert skyldu mína og bent á það, sem betur mætti fara, en ég held, að þeir, sem hér eru ákafastir um framgang málssins á þessum grundvelli, muni ekki hljóta hrós fyrir og að mál þetta eigi eftir að draga dilk á eftir sér, sem enn er ekki búið að flá.