14.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Einar Olgeirsson:

Ég hef lítið lagt til þessa máls og ætlaði ekki að blanda mér í umr. um það, en varðandi brtt., hvar staðsetja skuli umrætt gistihús, vil ég segja nokkur orð. Ef ég hef skilið rétt, er lagt til að reisa það við tjarnarendann, þar sem nú er sjúkrahús og barnaheimili ásamt tveimur íbúðarhúsum. Ég held, að þessi hugmynd þurfi nánari athugunar við. Það er mikil tilhneiging hjá okkur til að setja allar stórbyggingar í miðbæinn eða sem næst honum. Ég held, að þetta sé ekki viturlegt, fyrst og fremst gerir það lóðirnar svo dýrar, að óheyrilegt er, auk þess sem það skyggir á okkar ágætu gömlu byggingar, alþingishúsið og dómkirkjuna, sem eru þess virði, að þær fái að njóta sín, og ég vildi, að þjóðin yrði svo efnuð, að hægt væri að rífa húsin hér í kring og gera skemmtilegan grasvöll í kringum þessar merku gömlu byggingar. Þegar reisa á nýtízku gistihús eins og hér um ræðir, verður margs að gæta um staðarval. Þetta verður áreiðanlega margra hæða hús. Ef það verður reist þarna, sem till. er um, er það beint í fluglínu frá flugvellinum. Við, sem störfum hér í Alþingi, vitum, hvað flugvélarnar valda okkur miklu ónæði, þó að við séum þetta langt frá flugvellinum, og getum þá líka gert okkur í hugarlund, hvaða truflanir þær hefðu fyrir hótelgesti á þessum umrædda stað, auk þess sem mikil slysahætta er að slíkri byggingu í fluglínunni.

Við munum eftir því, þegar ekki munaði nema fáum sekúndum, að flugvél hrapaði á stúdentagarðinn eða háskólann.

Af þessum ástæðum og fleirum finnst mér mjög óheppilegt að setja þetta hótel í miðbæinn, þó að ekkert tillit sé tekið til þeirra spádóma jarðfræðinga, að miðbærinn sökkvi í sæ. Ég held, að gistihúsið ætti að reisa við Skólavörðholtið eða innar. Þessi bær er ekki svo stór enn, að fjarlægðin frá miðbænum væri til neins tjóns.

Svo finnst mér annar galli á meðferð þessa máls. Það er verið að ráðstafa 5 millj. kr. úr ríkissjóði, án þess að málið hafi verið lagt fyrir fjárhagsnefnd. Mér finnst fjhn. þurfa að hafa yfirlit yfir það fé, sem ráðstafað er úr ríkissjóði, a. m. k. þegar um svo stórar upphæðir er að ræða og hér. Þó að allshn. hafi athugað frv., finnst mér ekkert á móti því, að fjhn. fái málið til athugunar. Ég vil því biðja forseta að bera þetta upp í deildinni, til að fá úr því skorið, hvort ekki er vilji fyrir því að fresta umr., svo að fjhn. geti fengið málið til athugunar.