30.11.1945
Neðri deild: 46. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef fyrir nokkuð löngu ásamt hv. 1. þm. Skagf. (SÞ) flutt frv. hér um breyt. á l. um byggingar- og landnámssjóð. Þessu máli var útbýtt hér í hv. d. 30. f. m. Því var vísað til n., að ég ætla 1. þ. m., til landbn. Síðan hefur ekki bólað á þessu máli. Ég hef ekki haft neinar fregnir af því frá landbn., hins vegar hef ég veitt því athygli, að landbn. hefur afgreitt mál, sem þó nokkru síðar barst hér inn í d., og afgreiðslu þess er lokið hér og málið komið til Ed. Ég er ekki að lasta þetta, en ég vildi gjarnan fá vitneskju um, af hverju það stafar, að landbn. afgreiðir ekki þetta mál. — Ég vil svo ekki segja neitt frekar um málið, áður en ég er búinn að fá upplýst, hvað veldur þessum drætti.

Ég sé, að hv. form. landbn., (JPálm) er hér staddur, og vænti þess, að hann eða einhverjir úr landbn. láti í ljós, hvað tefur afgreiðslu málsins.