12.12.1945
Sameinað þing: 17. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Hermann Jónasson:

Mig undrar ekkert, þó að hæstv. ráðh. blygðist sín fyrir það, hvernig hann hefur komið fram í húsnæðismálunum, því að það er dæmalaust, hvernig þessi stj. hefur hagað sér í þeim allt s. l. ár. Það vita allir, að það er ekki nema 3–4 daga verk fyrir einn mann að semja frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, og það hefur tekið stj. allt árið. Það er hægt að upplýsa það, að það frv., sem ég lagði fram, er fyrirmynd að því frv., sem hér var borið fram af hæstv. ráðh. Skekkjan, sem tekin er upp í frv. ráðh., er sú, að það er tekið fram í einni gr., og ég varaði við því, þegar ég flutti frv., — að þeir, sem kaupa hús og kaupa þau með hærra verði en má selja þau, þeir eiga að borga mismuninn til byggingarlánasjóðs, ef sá, sem hefur selt, getur ekki greitt það sjálfur. En villan er sú, að í gr. stendur, að þetta skuli því aðeins gert, að það sannist, að sá, sem keypti, hafi ekki verið í góðri trú. Með öðrum orðum, það er ekki hægt að sanna það, það átti að standa. í frv., að hann átti að borga þetta, hvort sem hann væri í góðri trú eða ekki, vegna þess að hægt var að fá vottorð um, að búið væri að fá leyfi þess félags, sem hlut átti að máli, til þess að selja. Þetta er tekið upp orðrétt, skekkjan úr frv., sem ég flutti, og ég veit, að það var verið að semja þetta frv. eftir að mitt frv. kom fram, þess vegna kom það heldur ekki fram fyrr en hálfum mánuði seinna en mitt frv. Það er ekkert að undra, þó að stj. svíði undan þessu, þar sem það er ekki nema 2–3 daga verk að semja slíkt frv., en það hefur tekið hana allt árið, og hún vaknar ekki fyrr í þessu máli en stjórnarandstaðan flytur málið. Það vita allir þm., að það er ekki nema 3–4 daga verk að setja saman frv. eins og þetta, þar sem svo er frá því gengið, að það þarf að lesa það allt yfir vegna þess, að það er flaustursverk. Þess vegna er það, sem ég hef sagt í þessu máli, alveg rétt. Þeir, sem gengu frá því frv., sem ég flyt fyrir Framsfl., vita, að það er meira til þess vandað, og sá maður, sem samdi það, hefur verið erlendis til þess að kynna sér þessi mál, þ. e. Guðlaugur Rósinkranz. Ég get ekkert gert að því, þó að stj. svíði undan þessu, það er ekki nema eðlilegt, því að annar eins trassaskapur og hún hefur sýnt í húsnæðismálunum er dæmalaus og á hvergi sinn líka nokkurs staðar, þar sem byggingarefni hefur verið hrifsað út og stj. hefur horft upp á það allt árið og kemur svo ekki með þetta frv. fyrr en Framsfl. hefur beitt sér fyrir því máli. Um þjófnað í sambandi við þetta mál hjá framsóknarmanni í skrifstofu hjá ríkinu, þá vísa ég því til baka, það er ekkert annað em eðlilegur sársauki þessa hæstv. ráðh., sem kemur honum til að tala önnur eins orð. Maðurinn mun vera Jens Hólmgeirsson, og ég hygg, að hæstv. ráðh. sé á engan hátt að bættari að drótta slíku að honum, og ég álít, að hæstv. ráðh., þó að hann sé reiður út af þessu máli og hafi hlaupið á sig, ætti að láta vera að drótta því að þeim manni.