17.04.1946
Neðri deild: 113. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. taldi, að smásöluálagning kaupmanna á kjötið mundi vera töluvert minni en hér hefði komið fram, því að smásalan á kjötinu væri að miklu leyti í höndum bænda sjálfra. Það mun vera um 87% af kjöti, sem til fellur á hverju hausti, sem selt er í heildsölu af samvinnufélögum. Meiri hluta af því kjöti selur Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem ekki hefur nein.3 smásölu. Þess vegna sér hv. þm. í hendi sér, að þetta er ekki rétt, sem hann sagði um smásöluna á kjötinu. Meiri hluti — mikill meiri hluti — af kjöti, sem selt er í landinu, er selt í Reykjavík. Hér í Reykjavík eru um 50 kjötbúðir, og eru 3 þeirra reknar af félagsskap bænda, hinar allar af smákaupmönnum. (HB: Við tölum um kjötmagnið). Ég sagði, að 87% af kjöti, sem til félli, væri selt af samvinnufélögum og langmestur hluti þess af Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, sem enga smásölu hefur. En meiri hluti af kjötmagninu fer í gegnum hendur kjötkaupmanna og fá þeir 18–19 kr. á meðaldilkskrokk fyrir söluna.

Til gamans fyrir hæstv. landbrh. vil ég svo að lokum segja það, ef hann væri hér staddur í hv. þd., að á hverju einasta hausti, þegar ég var form. kjötverðlagsn., heimtuðu kjötkaupmenn hækkaðan hundraðshluta þann, er þeir fengu fyrir að selja kjötið. En ævinlega féllu þeir frá því, eftir að búið var að sýna þeim fram á, eftir þeirra eigin skattframtölum, að þeir hefðu eins miklar tekjur fyrir að selja kjöt og aðrir kaupmenn fyrir að selja aðrar vörur. Þá hættu þeir alveg við það. Og vafalaust hefðu þeir gert eins í haust, hefði það ekki verið sérstök kaupmannastjórn, sem hafði völdin og stjórnaði verðlagsnefndinni.