17.04.1946
Neðri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

9. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Sveinbjörn Högnason:

Ég ætla að leyfa mér að bera hér fram skrifl. brtt. við þessa síðustu umr. málsins. Við 2. umr. málsins hér í dag hafði ég borið fram brtt. um að fella niður 3. gr. frv., sem flokkar fólkið í sundur eftir því, hvaða hlunninda það á að njóta, og nú er búið að fá úr því skorið, að stj. og þeir, sem henni fylgja, geta ekki hugsað sér annað en að draga fólkið sundur í dilka að fernu leyti. Þessi skriflega brtt. mín miðar að því að draga úr misréttinu, því að það mun vonlaust, að hægt verði að fá því útrýmt algerlega. Fyrst ekki er hægt að fá misréttinu útrýmt, virðist mér a. m. k. sanngjarnt, að þeir séu teknir út, sem ekkert hafa til saka unnið í þessu efni, en það eru þeir, sem að einhverju leyti taka laun sín í fæði, eins og tiltekið er í þessu frv., eða atvinnurekendur, sem hafa 3 menn í vinnu, þó að þeir séu kannske fátækari en þeir, sem í vinnunni eru. Slíkt misrétti er óhugsandi að láta standa. Þeim, sem stunda sauðfjárrækt sem aðalatvinnu, er refsað, en ég get þó ekki séð, með hvaða rétti er hægt að halda því fram, að þeir eigi ekki að fá niðurgreiðslur eins og aðrir, og t. d. ef menn eiga eina eða tvær kindur sér til gamans, þá er þeim hegnt fyrir það með því, að þeir fá engar niðurgreiðslur. Slíkt nær auðvitað engri átt.

Ég vil því leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að bera fram svofellda skriflega brtt.: „Við 3. gr. Greinin orðist svo : Rétt til niðurgreiðslu samkv. 2. gr. hafa þó ekki þeir, sem stunda sauðfjárrækt sem aðalatvinnugrein.“

Vona ég, að hæstv. d. sýni þá sanngirni að gera þó þessa réttarbót á málinu, þó að ekki fáist hún að fullu gerð.