01.10.1946
Efri deild: 9. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

6. mál, lýsisherzluverksmiðja

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég þakka hv. frsm. fjhn. fyrir þær upplýsingar, sem hann lét í té. Mín fyrirspurn byggðist á því, að mér var ekki ljóst, til hvers þetta fé átti að fara, en það bar ekki að skilja orð mín svo, að ég væri andvígur þeirri stefnu, sem frv. gerir ráð fyrir, um byggingu fullkominnar lýsisherzluverksmiðju. En mér var óljóst, hvað búið var að gera til undirbúnings málínu. Það er nú þegar upplýst, að fyrir liggur grg. frá n. þeirri, er var falið að undirbúa þetta mál. En mér skilst, að þótt þingið samþ. þessa fjárveitingu, þá sé engu slegið föstu um það, hvort þær till. eða aðrar verði samþ. á sínum tíma. Síðar kemur væntanlega til kasta Alþ. um það, hvar slíka stöð beri að reisa, og þá gefst hv. þm. kostur á að gera upp við sig, hvort þessi eða hinn staðurinn sé heppilegastur. Hins vegar kom ekki fram hjá hv. frsm., hvort búið væri að verja nokkru fé til undirbúnings. Mér skilst, að nota eigi þetta fé að nokkru til undirbúnings og að nokkru til að reisa mannvirkið. En ég læt mér nægja þessar upplýsingar hv. frsm. á þessu stigi málsins. Ég treysti því, að þingið fjalli um málið síðar, ef í þetta mannvirki verður ráðizt, og segi til um, hvar þessi lýsisherzlustöð skuli byggð. Mun ég svo greiða þessu frv. atkv. í trausti þess, að vel verði vandað til alls undirbúnings málsins.