07.10.1946
Efri deild: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

13. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla útlendinga o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Þegar þetta mál var hér til umr. síðast, benti hv. þm. Vestm. á, að hér á landi hefðu menn unnið sér inn stórar fjárupphæðir án þess að hafa dvalið hér í 3 mánuði, og hann benti á, hvort ekki væri rétt að hafa l. þannig, að þau næðu til þeirra, sem dvalið hefðu hér skemur en 3 mánuði, en unnið sér inn meira en þeir, sem dvalið hafa hér lengur og minna hefðu haft upp úr starfi sínu. Ég benti þá á, að það mætti laga þetta atriði með brtt. við 2. gr. frv. og þannig ná til þessara manna.

Nú er mér sagt, að n. hafi ekki haldið neinn fund um málið, og þess vegna vil ég bera hér fram brtt. við 2. gr. frv., að á eftir orðunum „3 mánuði eða lengur“ komi: eða hafi unnið sér inn 10 þús. kr., þó á skemmri tíma sé. — Þetta er í samræmi við margt annað hér á landi, að menn geta orðið skattskyldir á skemmri tíma en almennt gildir, ef þeir hafa unnið sér inn það atórar upphæðir. Mér finnst ekki eðlilegt, að menn, sem koma hingað, geti unnið sér inn á einni viku eða hálfum mánuði hátt á annað hundrað þús. kr. og sloppið við að greiða skatt, en til dæmis menn, sem koma hingað af því að okkur vantar menn til að vinna, eins og margir Færeyingar gera, og vinna sér inn 3–4 þús. kr. á máske hálfu ári, þurfi aftur að borga skatt. Mér finnst ástæðulaust, að menn, sem hingað koma t.d. til þess að sýna listir sínar eða syngja í 4–5 skipti og raka saman stórfé, fari með allan sinn gróða heim án þess að borga af honum skatt. (LJóh: Þeir borga skemmtanaskatt ). Það er allt annars eðlis. Ég hef þá lýst þessari brtt., og skal ég Skrifa hana Og afhenda hæstv. forseta.