08.10.1946
Efri deild: 13. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

4. mál, rannsóknarstofnun í búfjármeinafræði

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir þau ummæli hv. form. menntmn., að á því stigi, sem málið er, þýðir ekki, að það fari til menntmn. aftur, ef tilætlunin er, að það gangi fram á þessu þ., þar sem ákveðið er að ljúka þinginu á morgun. Ég skal ekkert um það segja, hvað af því kynni að hljótast, að málið gengi ekki fram núna. Brbl. eru gengin úr gildi, en ég þori ekki að fullyrða, hvort við misstum nokkurs í víðvíkjandi þeim fyrirheitum, sem okkur hafa verið gefin, og að svo vöxnu máli þori ég alls ekki að leggja til, að málið verði látið daga uppi. Verið gæti þó, að sá hæstv. ráðh., sem bar málið fram, gæti gefið upplýsingar um, hvort það væri óhætt eða ekki.

Viðvíkjandi því, sem hv. 10. landsk. sagði, get ég tekið undir sumt, sem hann sagði, annað ekki. Hann minntist á launin. Það má segja, að þessar röksemdir hans hefðu frekar átt að koma fram við 2. umr. málsins, því að þessi d. afgreiddi málið þannig, að þessi maður fengi laun eftir 2. fl. launal., eins og prófessorar við læknadeild háskólans, en hin d. breytti því þannig, að hann fengi laun eins og aðrir prófessorar. Það er smekksatriði, hver launin eiga að vera. Það er enginn algildur sannleikur til um það, en að sjálfsögðu mundi forstöðumaðurinn þarna á Keldum þurfa að vera vísindamaður, sem borið væri svipað traust til og háskólans. Þó ég játi mína fáfræði í þessu efni, finnst mér eðlilegt, að hann hafi sömu laun og prófessorar háskólans. Hv. 10. landsk. talaði um, að þetta væri undirstofnun og við hana yrði því að borga lægri laun. Ég veit ekki, hvort hægt er að tala um undir stofnun, en sem sagt, þessi hv. d. samþykkti, að launin skyldu vera 3000 kr. hærri en ákveðið er í frv. N. vék frá því að hafa þau lægri.

Hitt atriðið, sem hv. 10. landsk. minntist á, tel ég veigameira, þar sem hann talaði um, að vafasamt væri að veita stj. svo mikið vald sem gert er ráð fyrir með 3. gr. frv. Mér virðist lagafyrirmæli gagna lítið um það, hvað starfsmenn eiga að vera margir, og venjulega eru það frekar stjórnarráðstafanir en l., sem þar ráða, og er þá venjulega ekki um stjórnarumbætur að ræða. Ég minnist þess, að þetta barst í tal, og þá gaf landbrh. upplýsingar um það, hvað hann hugsaði til að hafa marga sérfræðinga. Það var einn dýralæknir, einn efnafræðingur og svo forstöðumaðurinn. Ég man ekki eftir, að hann nefndi fleiri.

Ég held, að bezta lausnin sé að samþ. þetta frv. nú eins og það er, svo að það geti orðið að l. og til þess að engin hætta verði á því, að við töpum því fé, sem ætlað hefur verið til þessarar stofnunar, því að þótt málið sé að vísu ekki vel undirbúið, þá má taka hinar ýmsu hliðar þess til gaumgæfilegrar endurskoðunar á næsta þingi, t.d. launaákvæðin.