08.10.1946
Efri deild: 13. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

4. mál, rannsóknarstofnun í búfjármeinafræði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Menn vita það, að ég hef það sjónarmið í þessu máli, að ég er á móti því formi, sem það er í, hef lýst því hér áður og skal ekki fara frekar út í það.

Ég var hér með brtt. varðandi frv. við fyrri umr. þessa máls í þessari hv. d. og ræddi um þær við hæstv. fjmrh., sem í þetta skipti hefur látið málið til sín taka, — en ekki hæstv. menntmrh., sem þó áður fylgdi málinu eftir í báðum hv. d., en lætur það nú í hvorugri hv. d. til sín taka, en ef farið yrði að breyta frv., þá vildi ég bera fram ýmsar fleiri brtt. við það og þá sérstaklega taka til athugunar, ef takmarka á meira starfssvið deildarinnar. Hvað laun forstöðumanns snertir, þá er hann í næsta launaflokki fyrir ofan sérfræðinga þá, sem undir honum vinna, og eftir því sem hv. 10. landsk. þm. sagði, þá fannst mér sérfræðingarnir vera það hátt uppi í launum, að ef lækka á laun forstöðumannsins, þá eigi einnig að lækka laun hinna. Hins vegar skildist mér það á hæstv. ráðh., að búið væri að semja við forstöðumanninn; þannig að hann fengi laun sem prófessorar við læknadeild háskólans, og veit ég ekki, hvort hefur meira gildi, það sem í l. stendur eða samningur, sem búið er að gera við manninn, en held, að erfitt yrði að færa launin enn lengra niður. — Þá finnst mér það mjög óviðfelldið, að það skuli vera að fengnum till. læknadeildar háskólans, hversu margir menn starfa sem sérfræðingar við stofnunina, sem svo menntmrh. ákveður, en þannig er þetta samkv. 3. gr. frv. Samt held ég, að þetta sé þó skárra en að samþ. brtt. 10. landsk. þm. (BBen), og byggist það á því, að enginn vafi er á því, að sú stofnun, sem þarna er hugsuð og m.a. er ætlað að búa til margs konar bóluefni, úrskurða, um hvaða sjúkdóma eða dauðaorsök er að ræða, þegar sent er eftir dýralækni, og gera ráðstafanir til þess að forðast útbreiðslu dýrasjúkdóma, — muni aldrei geta rækt sitt hlutverk eins og ætlazt er til, ef aðeins einn fastur maður á að vera við stofnunina, en um hina eigi að fara eftir því, hvað Alþ. veiti í hvert sinn. Ég álít, að óumflýjanlegt sé annað en að þeir víðbótarmenn, sem þarna vinni, væru fastráðnir. Talaði hæstv. ráðh. hér um daginn f.h. hæstv. ríkisstj. í þessu sambandi um 2–3 aðstoðarmenn, og þætti mér líklegt, að það væri nóg, þótt ég fullyrði ekkert um slíkt. Vil ég svo að lokum leggja áherzlu á það, að ef brtt. hv. 10. landsk. þm. verður samþ., þá eiga þeir menn sem þarna vilja vinna, alveg undir Alþ. í hverju einstöku tilfelli, hvaða fé það veitir, og er þá alveg útilokað, að þeir menn fáist til stofnunarinnar, sem ákjósanlegast væri að fá, því að nógu erfitt getur orðið að fá þá, þó að sú tilhögun væri ekki við höfð að launa mennina frá ári til árs. — Vil ég því eindregið vara hv. þm. við að samþ. brtt. hv. 10. landsk. þm.