20.09.1946
Sameinað þing: 7. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Það liggur hér fyrir till. frá hæstv. utanrrh. sem nefnist „Tillaga til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstj. til að gera samning við Bandaríki Ameríku um niðurfelling herverndarsamningsins 1941 o.fl.“ Þetta er undarleg fyrirsögn. Herverndarsamningurinn frá 1941 er niður fallinn fyrir meira en ári síðan, og nú er farið fram á við Alþ., að það samþykki sérstaka till. um, að hann skuli niður falla. Þetta er því ekki aðeins villandi fyrirsögn, heldur stappar hún nærri því að vera skopleg, ef ekki væri sú alvarlega hlið á málinu, að hér er litið á málið eingöngu frá sjónarmiði Bandaríkjanna, en ekki Íslands. Enda fjallar till. raunverulega um allt annað, í þessu litla og sakleysislega „o.fl.“ er fólginn mergur málsins.

Sósfl. hefur þegar skýrt alþm. frá því, að hann og ráðh. hans eiga engan þátt í þeirri till., sem hér liggur fyrir. Forsrh. hefur gert þetta samningsuppkast ásamt fulltrúum Bandaríkjanna, án samráðs við ríkisstj. og án samráðs við utanrmn. Það var ekki lagt fyrir ríkisstj. fyrr en um það bil tveimur klukkustundum áður en það var lagt fyrir lokaðan fund Alþ. í gær.

Ráðh. Sósfl. lýstu þegar yfir því, að þeir væru algerlega andvígir þessu samningsuppkasti, og allir þm. flokksins hafa tekið sömu afstöðu. Ég mun aðeins í fáum orðum gera grein fyrir þessari afstöðu flokksins.

Fyrsta mál þessa þings var till. frá þm. Sósfl., þar sem þess er krafizt, að Bandaríkin hverfi héðan tafarlaust eins og samningar standa til. Alþ. fékkst ekki til að afgreiða þessa till. í sumar. Ástæðan var sú, að forsrh. lýsti yfir því, að hann skyldi eiga á næstunni viðræður við fulltrúa Bandaríkjastjórnar um niðurfellingu herverndarsáttmálans og þá einnig fullnægingu þess ákvæðis, að allur bandaríski herinn fari héðan, eins og honum raunar bar að gera þegar er stríði lauk.

Síðan hafa farið fram alþingiskosningar. Í þeim kosningum gáfu ekki aðeins allir frambjóðendur Sósfl., heldur líka mörg þingmannaefni annarra flokka þá yfirlýsingu, að þeir skyldu standa eindregið gegn erlendum herstöðvum á Íslandi í hvaða myndi sem væri. Forsrh. lýsti yfir því fyrir hönd Sjálfstfl., að sá flokkur mundi aldrei fallast á herstöðvar hér í neinni mynd á friðartímum. Framsfl. gaf svipaða yfirlýsingu. Það er ekkí ágreiningsmál, að allir núv. alþm., kannske að einum undanteknum, voru kosnir í því trausti, að þeir mundu standa gegn beiðni erlendra stórvelda um herstöðvar á Íslandi í hvaða mynd sem væri. Nú er sú raun á orðin, að forsrh. hefur rætt við fulltrúa Bandaríkjanna, ekki eingöngu og ekki fyrst og fremst um brottför herliðsins frá Íslandi, heldur fyrst og fremst um aðra hluti, um nýjan samning við Bandaríkin, ný réttindi þeim til handa, réttindi, sem þau hafa ekki lengur samkv. herverndarsamningnum. Þessi réttindi fela í sér raunverulegar herstöðvar fyrir Bandaríkin hér á landi, að okkar dómi, og mun ég nú rökstyðja það álit.

Í 5. gr. samningsins eru Bandaríkjunum veitt réttindi til ótakmarkaðra afnota Keflavíkurflugvallarins í sambandi við framkvæmd hernáms Þýzkalands. Þeim er heimilt að hafa á flugvellinum það starfslið, er Bandaríkjamenn sjálfir telja sig þurfa, og mega halda uppi allri þeirri starfsemi á vellinum, sem þeir telja nauðsynlegt í þessu skyni. Í samningnum er þessari starfsemi engin takmörk sett, né því, hve fjölmennt slíkt lið megi vera. Í 6. gr. segir að vísu, að eftir því sem kringumstæður leyfa, skuli þjálfa íslenzka starfsmenn, „svo að Ísland geti í vaxandi mæli tekið að sér rekstur flugvallarins að svo miklu leyti sem frekast er unnt“. Þetta getur nú ekki verið öllu óákveðnara orðalag. Það mun öllum ljóst, að það verða Bandaríkin, sem skera úr því, hvað „kringumstæður leyfa“ og hvað „frekast er unnt“. Bandaríkin geta fyrir þessum samningi haft lið svo þúsundum skiptir á flugvellinum, bara ekki í hermannabúningi. Það kann að vera, að fulltrúar Bandaríkjanna hafi gert einhverja áætlun um það við forsrh., hvað þeir geti komizt af með lítið lið á flugvellinum, en þær tölur, sem þar kunna að hafa verið nefndar, hafa auðvitað ekki nokkurt minnsta gildi, því að alltaf:r hægt að halda því fram, að kringumstæðurnar hafi breytzt, og því þurfi meira lið og meiri herútbúnað.

Í 7. gr. er minnzt á „úrslita yfirráð“ Íslendinga um rekstur flugvallarins, en í 5. gr. er ákveðið, að langvíðtækasti reksturinn á vellinum, allt sem snertir hernaðarflug, skuli vera á ábyrgð Bandaríkjanna. Í 7. gr. segir, að stjórnir Bandaríkjanna og Íslands skuli í samráði setja reglugerðir um rekstur, öryggi og önnur mál, er varða afnot allra flugvéla af flugvellinum. En hverjir skyldu ráða því í raun og veru, hvernig slíkar reglugerðir verða? Skyldu það verða hin voldugu Bandaríki eða hið litla Ísland? Þótt Íslendingar stæðu á rétti sínum, geta Bandaríkin haft það í hendi sér að láta slíka samninga stranda, svo að engin reglugerð yrði sett, en það þýðir, að Bandaríkin hafa öll ráð, en Íslendingar engin. Þá yrði yfirlýsingin um úr slitayfirráðin harla lítils virði.

Því hefur verið haldið fram, að við gætum ráðið öllu starfsliði vallarins nema Bandaríkjamönnum og við gætum neitað þeim mönnum um vegabréf, sem við kynnum ekki að vilja hafa, og leiði þetta af ákvæðinu um úrslitayfirráð Íslendinga og niðurfellingu herverndarsamningsins. Af því leiði einnig, að við höfum óskert dómsvald yfir Bandaríkjaliðinu á vellinum. En ekki stendur orð um það í samningnum. Í 5. gr. stendur, að taka skuli sérstakt tillit til starfsliðsins, sem ráðið er við bandarísku herflugvélarnar, (eða áhafnir þeirra, eins og þessu er breytt í þýðingunni) „hvað snertir tolla, landvistarleyfi og önnur formsatriði“. Ætli mætti þá ekki láta ýmislegt fleira teljast formsatriði, t.d. dómsvald?

Í 4. gr. segir, að allt bandarískt herlið og sjólið utan Rvíkur eigi að vera farið af landi innan 180 daga, hins vegar er Bandaríkjunum í sjálfsvald sett, hvenær þau flytja herlið sitt og sjólið frá Rvík. Um það er ekkert tímatakmark í samningnum.

Þannig er það. Öll réttindi Bandaríkjanna eru mjög skýr, en þau réttmæti, sem talið er, að Ísland hafi og öllu máli skipta, hefur láðst að taka fram í samningnum.

Að formi til getum við losnað við þennan samning eftir 61/2 ár. En ef það er talin óvinátta við Bandaríkin að hafna þessum samningi, skyldi það þá ekki verða talin óvinátta á sínum tíma að segja honum upp? Það er ófært ákvæði, að samningurinn skuli ekki falla úr gildi nema honum sé sagt upp. Hamingjan má vita, hvort við getum nokkru sinni losnað við þennan samning, þegar við erum komnir í þá aðstöðu, sem leiðir af því að hafa gert hann.

Þá geta Íslendingar ekki haft eftirlit með því, hvort hernaðarafnot Bandaríkjanna af flugvellinum verða einungis í sambandi við hernám Þýzkalands. Hvenær sem er geta Bandaríkjamenn notað réttindi sín til hernaðarundirbúnings eða hernaðaraðgerða gegn öðrum þjóðum. Verði þessi samningur gerður, erum við að bjóða heim þeirri hættu, að Ísland verði innlimað í hernaðarkerfi Bandaríkjanna. Ef þjóðin er ekkí fær um að standa á skýlausum, samningsbundnum rétti sinum, er mér sem ég sjái slíka þjóð kæra Bandaríkin fyrir öryggisráðinu fyrir slík samningsrof. Ætli það gæti ekki orðið erfitt að leggja fram sönnunargögnin?

Hvað sem líður réttmæti og nauðsyn þess samnings, sem við gerðum við Bandaríkin 1941, þá er víst, að það var litið á hann sem nauðungarsamning af hálfu þm. Ég get vitnað í margar ræður þessu til sönnunar, og skal ég taka hér nokkur dæmi af handahófi.

Hv. þm. V.-Sk. (GSv) sagði þá m.a. þetta: „Það getur vel verið þannig um hnútana búið, að það, sem ríkisstj. hefur talið sig tilneydda að gera, verði þingið að játa, meira eða minna ofan í vilja sinn, og óneitanlega eru nú þeir tímar, að menn ganga nú mörg nauðug spor, og má sjálfsagt finna upptökin að því, hvernig á því stendur, hvers vegna menn eru neyddir til þessa eða hins. Hitt er vitað og sjálfsagt mælt í samræmi við vilja allra, sem hugsa um slík mál hér á landi, að við mundum mjög óska þess, að slíkt kæmi aldrei til, að nokkur þjóð neyddi okkur til að taka nokkra aðra afstöðu, sem við teljum viðsjárverða á ýmsan hátt, en þá, sem við gætum varið fyrir samvizku okkar og sannfæringu, ekki sízt við hér á þingi, sem erum fulltrúar þjóðarinnar.“

Hv. þm. G.-K. (ÓTh), sem þá var atvmrh., fórust m.a. orð á þessa leið: „Fram að þessu hefur stefna Íslendinga verið hrein og skýr, að því er varðar veru erlends herliðs á Íslandi, sem og sérhverja erlenda íhlutun um íslenzk málefni. Þannig galt ríkisstj. og Alþ. eindregin mótmæli við komu hins brezka herliðs hingað til landsins hinn 10. maí 1940, og hefur aldrei verið frá þeim vikið, hvorki að formi né efni.

Nú hefur ríkisstj. Íslands hins vegar lýst yfir því, að hún fallist á veru herliðs frá Bandaríkjunum á íslenzkri grund, og tjáð sig vera reiðubúna til að fela Bandaríkjunum hervarnir Íslands, meðan núverandi styrjöld geisar, gegn vissum skilyrðum.

Ég viðurkenni, að hér er um veigamikinn mun að ræða, en ég neita því, að með þessu hafi Ísland brotið í bág við yfirlýsta stefnu um ævarandi hlutleysi.

Hv. alþm. spyrja, hver nauður hafi rekið ríkisstj. til þessara aðgerða. Ég bið menn að gæta þess, að sú ríkisstj., sem þessa ákvörðun tók, var ríkisstj. hins hernumda Íslands. Það, sem ríkisstj. gerði, var að skipta á hernámsliði styrjaldaraðila og herliði hlutlauss stórveldis, að þiggja hervarnir hlutlausrar þjóðar í stað hernáms ófriðaraðila. Þetta eru forsendur málsins. þetta er höfuðatriðið.

Það liggur því ótvírætt og ljóst fyrir í þessu máli:

ríkisstj. Stóra Bretlands lagði hina ríkustu áherzlu á það, að Íslendingar fullnægðu þeim skilyrðum, sem forseti Bandaríkjanna setti fyrir því að taka að sér hervarnir Íslands;

að forseti Bandaríkjanna var eigi aðeins reiðubúinn að taka að sér þessar varnir, heldur og æskti hann þess eindregið, ef það gat orðið með frjálsu samkomulagi við Íslendinga, og

að Ísland er á áhrifasvæði þessara tveggja heimsvelda, er ein geta tryggt Íslandi sölumarkað Íslenzkrar útflutningsvöru og útvegun lífsnauðsynja þjóðarinnar til fæðis, klæða og skæða og nú vegna aðgerða ríkisstj. í þessu máli hafa skuldbundið sig til að tryggja verzlun og viðskipti Íslands með hagkvæmum samningum.“

Ég held, að maður í stöðu hæstv. núv. forsrh. hafi varla getað kveðið skýrara að orði til þess að koma orðum að því, sem hann þá meinti, að hér hafi í raun og veru verið um nauðungarsamning að ræða og að við áttum einskis annars kost.

Við sömu umr, sagði hv. þm. Ak. (SEH) m.a.: „Þó að ég sé „idealisti“ og vilji lifa í friði við allar þjóðir, neyðist ég líklega til að vera raunsæismaður í þessu máli og beygja af. Mun ekki verða komizt hjá að gera þennan samning við Bandaríkin, því að hnífurinn er á barka okkar. Þessi ríki hafa ráð okkar allt í bendi sér og geta bannað alla flutninga til landsins, þau geta komið í veg fyrir það, að við getum flutt einn fiskugga úr landi, og stefnt þannig fjárhag okkar og lífi í hættu.“

Nú verður því vitaskuld haldið fram, að ég líti á þetta samningsuppkast af of mikilli tortryggni. Á sínum tíma töldu allir, að ekki væri hægt að treysta betur en gert var skyldu Bandaríkjanna til að hverfa héðan strax að stríðinu loknu með herlið sitt. Þessi skylda Bandaríkjanna er alveg skýlaus samkvæmt því, sem herverndarsáttmálinn hljóðaði. Samt er þeirri fáránlegu túlkun haldið fram af þeirra hálfu, að stríðinu sé ekki lokið enn, þ.e.a.s. við okkur, innan fjögurra veggja. Höfum við því ekki fyllstu ástæðu til tortryggni? Ætli reynslan ætti ekki loks að hafa kennt okkur, að það er nauðsynlegt að ganga vel frá rétti okkar í samningum við stórveldi eins og Bandaríkin eða raunar hvert það stórveldi, sem í hlut ætti? Hæstv. forsrh. heldur því fram, að betri samning höfum við ekki getað fengið. Því er einnig haldið fram, — og kom það greinilega fram í ræðu hæstv. forsrh. áðan, — að það væri óvinátta við Bandaríkin að hafna þessum samningi. Ef þetta er rétt og gerð er þannig tilraun til þess að þvinga hv. Alþ. til þess að samþykkja samninginn óbreyttan og með slíkum skilaboðum, þá er hér í raun og veru um úrslitakosti að ræða. Það er verið að rétta okkur nauðungarsamning í annað sinn. En sem betur fer er aðstaða okkar nú þannig, að við þurfum engan nauðungarsamning að gera. Það getur orðið bið á því, að aðstaða okkar litlu þjóðar verði aftur eins ákjósanleg og hún er nú. Við þurfum ekki á þessum samningi að halda. Það eru Bandaríkin, sem þurfa á honum að halda. Við þurfum engan nýjan samning að gera við Bandaríkin um það, að her þeirra fari héðan brott og láti herstöðvar af hendi, því að slíkt höfum við samningsbundið í herverndarsamningnum. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því, að nýr samningur verði betur efndur en sá gamli hefur verið efndur? Hann hefur verið svikinn. Meðan ekki er um fullar efndir á þeim samningi að ræða, höfum við enga ástæðu til að treysta því, að nýr samningur verði haldinn. Þessi afstaða ein er samboðin fullvalda ríki. Því ákvæði samningsins, að Bandaríkjaherinn skyldi hverfa héðan á brott að stríði loknu, hefur ekki verið fullnægt. Verkefni hæstv. forsrh. var aðeins það að krefjast þess, að gefnar skuldbindingar og loforð yrðu efnd. Ef Bandaríkin gera það að skilyrði fyrir efndum loforða sinna, að þeim verði í staðinn veitt ný hernaðarréttindi, þá er það ekkert annað en nauðung. Þá eru þau ekki að semja við okkur sem frjálsa og fullvalda þjóð, heldur sem hersetið land, er þau eiga alls kostar við. Hin eina rétta afstaða af Íslands hálfu er það, að nýja samninga við Bandaríkin getum við þá fyrst gert, er þau hafa staðið við samningsbundnar skuldbindingar sínar. Þá fyrst geta Ísland og Bandaríkin samið sem jafnréttháir aðilar, og ef við stöndum einarðlega á rétti okkar, verða Bandaríkin að standa við skuldbindingar sínar, og ég er alveg fullviss um, að þau munu gera það. Bandaríkin þurfa nú næstu daga að gera öryggisráðinu grein fyrir því herliði, sem þau hafa á Íslandi og í öðrum þeim löndum, sem ekki voru samherjar öxulríkjanna í stríðinu. Ég álít, að þau eigi engan annan kost en að viðurkenna, að þeim beri að hverfa héðan brott með herlið sitt tafarlaust. Þ.e.a.s., ef Íslendingar sjálfir krefjast þess og ef við höfum ekki gert samning um annað. Allt annað væri í hróplegri mótsögn við afstöðu Bandaríkjanna til hersetu annarra ríkja í löndum, þar sem eins stendur á. Enda hafa Bandaríkin aðeins borið fram fyrir sig eina afsökun á alþjóðavettvangi fyrir þrásetu sinni hér, og hún er sú, að Íslendingar hafi ekki sjálfir krafizt brottfarar þeirra.

Ég vil svo að lokum aðeins segja þetta, að Sósfl. leggur eindregið til, að hæstv. Alþ. hafni samningsuppkasti því, sem lagt hefur verið hér fyrir af hæstv. forsrh. Í fyrsta lagi er það vegna þess, að það felur í sér raunverulegar herstöðvar Bandaríkjanna á Íslandi; í öðru lagi, vegna þess, að samningurinn yrði til þess að einangra okkur frá öðrum þjóðum og gera landið háð Bandaríkjunum, og í þriðja lagi felur það í sér þá hættu, að við verðum beinlínis innlimaðir í hernaðarkerfi Bandaríkjanna.

Samþykkt slíks samnings án þess að bera hann undir atkvæði þjóðarinnar væri í fullkominni mótsögn við loforð hv. þm. til umbjóðenda sinna, og mundi Sósfl. telja það fullkomin brigðmæli við kjósendur.

Sósfl. lýsir yfir því, að hann telur samningsuppkastið og alla meðferð þessa máls brjóta algerlega í bág við þann grundvöll, sem stjórnarsamstarfið hvílir á.

Verði þessi þáltill. samþ. af hálfu samstarfsflokka Sósfl., telur hann, að grundvöllur núverandi stjórnarsamstarfs sé ekki lengur til.