21.09.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég tók það fram í höfuðatriðum í gær, sem ég taldi ástæðu til að setja fram í þessu máli, og ég býst ekki við að taka þátt í þessum umr. með sama móti og mér virðist vera gert, þótt á því séu að vísu nokkrar undantekningar, vegna þess að svo lítur út sem þ. skipi sér í tvær fylkingar, þar sem a.m.k. annars vegar er fjöldi hv. þm., sem telja þennan samning vera þannig, að engum stafkrók megi breyta, þótt á marga galla hafi verið bent.

Ég vil þó og alveg sérstaklega benda á, hvernig þessi samningur er undirbúinn, og bendi þar á atriði, sem fram hafa komið að gefnu tilefni vegna fyrir spurna frá mér í gær. Ég spurði þá um það, hvað það mundi kosta að reka flugvellina við Rvík og Keflavík. Ég spurði og um það, hverjir væru tekjumöguleikar af þessum flugvöllum og hvaða stefnu hæstv. ríkisstj. hefði hugsað sér að taka í flugmálum Íslands og að hve miklu leyti hefði verið hugsað fyrir því að samræma þennan samning, sem hér er verið að gera við erlenda þjóð, við okkar eigin hagsmuni og þá stefnu, sem við tökum viðkomandi flugvöllum okkar og flugmálum. Það stendur ekki á að upplýsa um þetta atriði í Morgunblaðinu í morgun, og þar er það jafnvel talin firra af mér að spyrja. Það eru gefnar upplýsingar um þetta af hæstv. forsrh., þar sem hann segir, að það muni kosta um 30 millj. kr. að reka flugvöllinn við Keflavík, en síðan kemur hæstv. flugmálaráðh. rétt á eftir og segir, að það muni kosta um 5 millj. kr. að reka báða flugvellina og að allar líkur séu til þess, að tekjur af flugvöllunum muni svara nokkurn veginn til útgjaldanna. Það munar ekki nema tífalt á kostnaðaráætlunum hæstv. forsrh. og hæstv. flugmálaráðh., en það skiptir engu smávægilegu máli í sambandi við þetta, hvort hægt væri að fara þá leið, sem ég hef ekki aðeins stungið upp á í gær, heldur fyrir ári síðan, þegar rætt var um þetta mál, — kannske var það á lokuðum fundi, — en það er atriði, sem ég get sagt frá sjálfur og hv. þm. er ef til vill enn í minni, að Íslendingar tækju sjálfir að sér rekstur þessara flugvalla að öllu leyti með þeim hætti, sem ég sjálfur stakk upp á í gær, og að þannig væri hægt að öllu leyti að fullnægja þeim þörfum, sem Bandaríkin m.a. telja sig þurfa að hafa á flugvellinum við Keflavík, því að ég fæ ekki séð, vegna hvers rekstur okkar á flugvöllunum og viðkomuréttur Bandaríkjanna á fullkomlega reknum flugvelli eins og í Keflavík ætti ekki að nægja þeim þörfum, sem þau bera fram, að þau þurfi að hafa hér vegna þess, að þau þurfa að fljúga flugvélum yfir Atlantshafið, en ef sú leið væri athuguð, þá skiptir það nokkru máli, hvað rekstur flugvallanna kostar, og það er sláandi dæmi um undirbúning þessa máls, að aðrar eins upplýsingar og ég minntist á skuli nú koma fram frá tveim ráðh. í hæstv. ríkisstj., en ég ætla ekki að ræða svo mjög eða a.m.k. ekki meira en nauðsyn krefur um undirbúning þessa máls. Þó verð ég vegna ummæla hæstv. forsrh. að minnast á nokkur atriði.

Hann bar undirbúning þessa máls saman við undirbúning herverndarsáttmálans og taldi hann að ýmsu leyti líkan. Það er nokkur ástæða til þess að minnast á þetta vegna þess, að ég hygg, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, líti út fyrir að verða eða geti orðið, ef ekki er vikið frá þeim vinnubrögðum, sem hér hafa verið viðhöfð í dag, vandræðamál. Þegar herverndarsáttmálinn var gerður, stóð vissulega allt öðruvísi á. Það er ekkert launungarmál lengur, að ríkisstj. fékk að vita um það, — sem líka hefur verið upplýst af ríkisstj. Bretlands síðan, — að á árinu 1941 voru Bretar næst þrotum komnir. Þá fékk ríkisstj. að vita um flutningaerfiðleikana að vestan, þótt hún mætti ekki segja frá því, en með herverndarsáttmálanum tóku Bandaríkin að sér flutninga inn í Hvalfjörð. Liðið, sem flytja átti, var tilbúið fyrir vestan og þetta þurfti allt að gerast með sérstökum hraða, vegna þess að óvinaþjóðirnar máttu ekki fá um það að vita, að liðsflutningar stæðu fyrir dyrum, þar sem því fylgdi mikil áhætta fyrir hlutaðeigandi herlið, og ekki hvað sízt hefði slíkt verið hættulegt fyrir okkur sjálfa, þar sem hergögnunum var skipað upp í Rvík um nágrenni hennar. En þó að þessi samningur væri gerður með svo nauðsynlegum hraða, þá voru haldnir fundir hvað eftir annað af ríkisstj. í heild og hinum mörgu áhrifamönnum flokkanna undir forustu núv. forseta Íslands, herra Sveins Björnssonar. Þá voru settar fram, eftir því sem við bárum bezt skynbragð á, þær kröfur, sem við töldum nauðsynlegar, til þess að herverndarsáttmálinn væri þannig, að við héldum, að við gætum við hann unað. Það er síðan rétt, að núv. borgarstjóra í Reykjavík var ásamt núv. forseta Íslands, herra Sveini Björnssyni, falið að ganga frá þessum atriðum, sem þeir gerðu af mikilli kostgæfni. — Það er nú sannast að segja dálítið ólíkur undirbúningur, sem farið hefur fram viðkomandi þessu máli, eftir því sem við fáum séð. Sannleikurinn er sá, að samningurinn er það rúmur, að við vitum ekki gerla, hvað úr framkvæmd hans verður. En herstöðvamálið, þegar það bar að höndum fyrir ári síðan, var þannig með farið, að ekki voru gerðar í því neinar till., því ekki svarað í langan tíma og ekki bornar fyrir hæstv. Alþ. till. um það að svara því neitandi og taka upp viðræður við Bandaríkin á einhverjum ákveðnum grundvelli. Nú hefur þetta mál borið að í öðru formi, og þá var þannig að farið, að hæstv. forsrh. lýsti yfir því hér, að hann hafi ekki talið nauðsynlega þörf á að hafa samráð við aðra en Alþfl.; aðrir flokkar hefðu ekki trúað sér fyrir því að ganga frá þessum samningi, og þess vegna hefði ekki verið þörf á því að tala við þá áður. Hefði nú ekki verið hyggilegra að reyna að sameina hugi manna um þetta mál og finna þá lausn í sameiningu, sem líklegt er, að hefði mátt finna, eða a.m.k. manni finnst öll rök standa til, þegar litið er á þörf Bandaríkjanna í þessum efnum, að hefði mátt finna? (Forsrh.: Kvaddi þáv. forsrh. stjórnarandstöðuna til ráða?) Það voru þrír flokkar, sem þá stóðu að ríkisstj., og þeir voru allir kvaddir til ráða og m.a. má benda á það í þessu sambandi, að utanrmn. var öll kvödd til ráða undir forustu núv. forseta Íslands, herra Sveins Björnssonar, en þáv. stjórnarandstaða átti engan fulltrúa í utanrmn. Álítur hæstv. forsrh., að það hefði ekki verið heppilegra að fá þær aths. fram undir umr., sem við teldum nauðsynlegar að gera í sambandi við þetta mál, og reyna þannig að ná heppilegri samningum af Íslands hálfu en nú liggja frammi samkv. því samningsuppkasti, sem við höfum fundið að með eðlilegum rökum, en ef til vill er erfitt að breyta nú, vegna þess að það lítur út fyrir, að jafnvel hv. meiri hl. Alþ. sé því fylgjandi og vilji engum stafkrók róta? Hvernig verður þá aðstaða Íslands í þessu máli til þess að fá þá þjóð, sem að samningnum stendur, til að breyta honum nú, eftir að hæstv. forsrh. hefur hér lýst yfir því og sett embætti sitt að veði fyrir því, að þetta uppkast verði að samþykkjast án nokkurra breyt. Ég ætla ekki að halda neinu fram og hef ekki haldið neinu fram í þessu máli, sem ég samkvæmt beztu samvizku álít ekki eðlilegt af mér sem alþm. og fulltrúa þjóðarinnar að halda fram, og ég vil segja, að það stappar nærri lagabroti, ef það er ekki lagabrot að ganga frá atriði sem þessu án þess að ræða það við hv. utanrmn., því að það er skylda samkvæmt l. um utanrmn. að hafa samráð við hana um þýðingarmikil utanríkismál, og er þar sérstaklega tekið fram „milli þinga“.

Það er hér mjög talað um það, að við, sem erum óánægðir með þennan samning, séum að ala á tortryggni gagnvart þeirri þjóð, sem að þessum samningi stendur, þ.e. Bandaríkjunum. Þetta er vitanlega alger firra. Efni samnings er ekki það, sem talað er um, og ekki það, sem maður óskar sér, að standi í honum; efni samnings er það, sem í samningnum stendur — og honum einum. Ef við lítum á þennan samning, þá er það auðsætt mál, að af hálfu Bandaríkjanna er mjög örugglega gengið frá öllum atriðum, og þetta er ekki lastsvert, heldur þvert á móti. Það er eðlilegt, að duglegir fulltrúar, sem gera samning af hálfu þjóðar sinnar, reyni fyrst og fremst að sjá um þetta atriði. En það er alveg sama, hvort við gerum samning við einstakling, jafnvel þótt einstaklingurinn sé sá, að við treystum honum vel, þá verðum við að taka fram í samningnum allt það, sem við álítum okkur vera nauðsynlegt að tryggja, og ganga aldrei þannig frá samningi, hvorki fyrir okkur sjálfa né aðra, að við látum þá, sem við okkur semja, taka fram öll þau atriði, sem þeir vilja tryggja, með gaumgæfilega yfirveguðu orðalagi, en sleppum því, sem við þurfum að tryggja fyrir okkur sjálfa eða fyrir einstaklinginn, sem við semjum fyrir, í þeirri von, að það verði skilið á þann veg, sem við óskum, vegna þess að við getum ekki gert kröfur til neins annars, eftir að samningurinn hefur verið undirritaður, heldur en þess, sem tryggt er samkvæmt orðalagi samningsins sjálfs.

Og þó að þetta sé nauðsynlegt í viðskiptum við einstaklinga, þá er enn þá nauðsynlegra að tryggja þetta í viðskiptum milli ríkja. Ég hygg, að hæstv. forsrh. reki minni til þess frá ýmsum samningum, sem gerðir hafa verið, hversu þýðingarmikið það er, að vel sé frá þeim gengið. Ætla ég ekki að nefna hér sérstök dæmi, en gæti þó nefnt eitt, þar sem það kostaði ríkisstj. harðvítuga baráttu að koma fram atriði, sem hún hafði ekki talið nauðsynlegt að taka fram í samningi þessum, og skipti það tugum milljóna fyrir íslenzka hagsmuni, hvort þetta atriði kæmist fram eða ekki.

Ég ætla ekki að rekja hér einstök atriði samningsins, því að ég rakti þetta mál í ræðu minni í gær, nema það sem ég get bent á og teldi eðlilegra að breyta til þess að sæmilega væri frá samningnum gengið. Ég vil aðeins minnast á það, þótt það sé kannske smávægilegt atriði, að í enska textanum er Bandaríkjastjórn alltaf talin upp á undan og í íslenzku þýðingunni líka, sem er öfugt við það, sem vanalega er í slíkum samningi, sem hér um ræðir.

Í 7. gr. samningsuppkastsins er minnzt á, að stjórnir Bandaríkjanna og Íslands eigi að setja sameiginlega reglugerð um flugvöllinn við Keflavík. Þetta er smáatriði. Hvers vegna mátti ekki í 1. gr. standa, ekki að samningurinn skuli niður falla, heldur sé úr gildi fallinn? Þetta er þó ekki stærsta atriðið í þessu máli, en óviðeigandi að byrja 1. gr. þannig, þó að ekki væri nema vegna þess, að þá er stungið upp á því, að herverndarsamningurinn standi áfram. Mikið hefur veríð talað um, að sleppa beri 8. gr.

Við þurfum engan samning um það við aðra þjóð, að erlendar þjóðir fái að lenda flugvélum á Íslandi, sbr. gr. á undan. Sérstaklega vil ég minnast á, að í gr. stendur, að við leyfum aðeins civilflugvélum lendingu, en megum ekki leyfa öðrum flugförum slík réttindi. Þetta má lagfæra moð því að sleppa einu orði, orðinu „civil“. — Það er viðurkennt, að breyta þurfi 4. gr. í þessu samningsuppkasti, því að samkv. orðum hennar þarf ekki að flytja herliðið úr Reykjavík um óákveðinn tíma.

Ég rek ekki samningsuppkastið lið fyrir lið. Ég vil þó benda á, að skv. 6. gr. eiga sérfræðingar Bandaríkjanna á flugvellinum við Keflavík að þjálfa Íslendinga í tækni flugvallarrekstrar, að svo miklu leyti sem Bandaríkjastjórn óskar. Um rétt þessara nemenda er allt óvíst. Hæstv. forsrh. sagði, að Íslendingar gætu látið 10 menn á móti hverjum einum Bandaríkjamanni til að læra flugvallarrekstur. Þetta er vitanlega ekki annað en útúrsnúningur. Það er á valdi Bandaríkjamanna, hve marga menn þeir taka. Það er leiðinlegt, að Íslendingar taki flugvöllinn smátt og smátt, í vaxandi mæli í stað alveg. — Það má óneitanlega álykta, að er við tökum við gæzlu flugvallarins, má álíta, að völlurinn falli undir íslenzka lögsögu.

Í einni gr. stendur, að hvorugri ríkisstj. sé skylt að greiða nokkurn kostnað nema þann, sem henni þykir nauðsynlegur vegna eigin þarfa. Hvers vegna má ekki koma sér saman um kostnaðinn? Er við tökum við stjórn flugvallarins, þurfum við stóran hóp lögreglu- og tollmanna og annarra starfsmanna. Kostnaður við þessa starfsemi næmi hundruðum þúsunda, og er ekki að efa, að það dragi úr ríkissjóði að leggja fram svo mikið fé á erfiðum tímum. Hvers vegna mætti ekki taka fram, að kostnaður íslenzka ríkisins yrði endurgreiddur í hlutfalli við lendingargjaldið af flugvélunum?

Eitt er ótalið, stærsta atriðið. Í samningum sem þessum eru venjulega ákvæði um það, hvert skjóta eigi ágreiningsatriðum, hvort það yrði til alþjóðadómstólsins í Haag eða til öryggisráðsins. Sjálfsagt er að taka slíkt fram. Sannleikurinn er sá, að þannig er frá samningnum gengið, að það er blátt áfram sorglegt, hvernig það er gert. — Af þessu leiðir, að samningurinn er það rúmur, óákveðinn og óskýr, að því er snertir rétt Íslendinga og á annan hátt, að við vitum lítið, hvernig hann yrði í framkvæmd. Hið sanna um samninginn er, að enginn veit, hvernig hann verður í framkvæmd. Ég álít og er fullviss um rétt mál, að hann getur orðið viðunandi, en líka gagnkvæmt. Slíka samninga má lítil þjóð ekki gera. Glöggir samningar eru hennar einu vopn. Í stað þess að safna liði um samninginn og breyta honum ekki væri rétt að snúa á þá braut að fullkomna yfirtekt Íslendinga á flugvellinum, sem er eðlileg krafa á hendur Bandaríkjunum. Þetta er engan veginn ókleift. Fáist það ekki, er að taka mest beztu leiðina: í stað andstöðu þingmanna ættu þeir að laga samninginn til betri. vegar. Það er betra en þriðja leiðin, að safna liði um samninginn og samþykkja hann án breytinga. Samningurinn er eins og ég hef sagt, að við vitum ekki, hvað úr honum verður í framkvæmd.