19.12.1946
Efri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

45. mál, menntaskólar

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. — Ég gaf upplýsingar við 2. umr. þessa máls um það, að þegar þetta frv. var til meðferðar í þessari hv. d. á síðasta þingi, þá kom frv. þannig frá hv. Nd., að það var ekki ákvæði í því um vinnutíma kennara, heldur var gert ráð fyrir, að það yrði reglu gerðarákvæði, eins og verið hafði fram að þeim tíma. Það fór þó svo, að þessi hv. d. vildi ekki á þetta fallast og setti í frv. ákvæði um, að menntaskólakennarar skyldu hafa lögákveðinn vinnutíma, og ég held það hafi verið gert með samþykki flm. þessarar brtt., hv. þm. Barð. Með þessari brtt. er aftur ætlazt til þess, að hætt sé við þetta og horfið að sama fyrirkomulagi og áður var. Þar sem þessi hv. þd. er öðruvísi skipuð nú en á s.l. þingi. má vera, að hér sé annar meiri hluti nú í þessu máli en var þá. Samt tel ég það ekki líklegt.

Það, sem ég vildi taka fram, er það, að þótt þessi till. færi í sama horf og áður var og þótt hún yrði samþ., þá býst ég ekki við, að hún mundi breyta á neinn hátt þessu máli í rauninni, vegna þess að það eru líkur til, að fræðslumálastjórnin mundi leysa þetta á svipaðan hátt og er í frv. Þess vegna álít ég það mjög þýðingarlaust og að það hafi ekki áhrif á framkvæmd málsins, hvort það er samþ., en hins vegar þarf löggjafinn að hafa ábyrgð á þessu og ákveða það í l. Þess vegna vil ég, til þess að forðast meiri glundroða um þetta mál, mælast til, að það verði samþ.