14.04.1947
Neðri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Það var út af einu atriði, sem komið hefur fram í umr. um þetta mál, að mér þótti rétt að segja nokkur orð. Það var í tilefni af því, sem kom fram í ræðu hv. þm. Siglf., þegar þetta mál var síðast á döfinni hér í d., og einnig að nokkru leyti í ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem nú rétt áðan lauk máli sínu.

Báðir þessir hv. þm. minntust á það og fóru um það mörgum orðum, hversu ótilhlýðilegt það væri, að Sjómannafélag Reykjavíkur tilnefndi einn mann af þeim þremur neytendafulltrúum, sem eiga að vera í þeirri n., sem ætlazt er til, að fjalli um þau samningsatriði, sem gert er ráð fyrir í frv. Því miður hlustaði ég ekki á nema nokkurn hluta af ræðu hv. þm. Siglf., en mér er sagt, að hann hafi látið falla um það mörg orð og stór, að það væri lítt viðurkvæmilegt, að Sjómannafélag Reykjavíkur fengi þarna fulltrúa, og haft um það nokkur orð, sem ég vil eiginlega ekki hafa eftir, en báðir þessir hv. þm. hafa talið það alveg fráleitt, að Sjómannafélag Reykjavíkur ætti að tilnefna einn neytanda af sinni hálfu til ráðagerðar um þessi mál.

Ég vil fyrst og fremst segja það, að þegar rætt var um þetta mál innan stjórnarinnar, þá hygg ég, að allir hafi verið á því máli, að æskilegt væri að tryggja einn fulltrúa úr hópi sjómannasamtakanna og þá sérstaklega frá þeim sjómannasamtökum, sem hefðu innan sinna vébanda bæði togara- og bátasjómenn og hlutasjómenn, m. ö. o. þann hluta sjómanna, sem hefði mestar og óskiptastar „neytendainteressur“. Nú er það svo, eins og hv. landbrh. tók fram, að engin allsherjarsamtök sjómanna eru á landi hér. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands er yfirleitt skipað félögum úr yfirmannastéttunum, en sjómannafélög, eins og Sjómannafélag Reykjavíkur, eru eingöngu skipuð sjómönnum, bæði af togara- og bátaflotanum. Það var einmitt til þeirra, sem þótti ástæða að leita til þess að fá einn af þremur fulltrúum neytenda.

Það þarf ekki að færa mörg rök fyrir því, hversu það er eðlilegt, að þessi tilhögun sé höfð, því að eins og ég hef tekið fram, þá eru engin allsherjarsamtök sjómanna til. Mér skilst, að hæstv. landbrh. léti þau orð falla, að meðan engin slík allsherjarsamtök sjómanna væru til, væri eðlilegt að leita til Sjómannafélags Reykjavíkur. Hv. þm. Siglf. tók þetta mjög óstinnt upp og sagði, að hér væri verið að gera tilraun til að kljúfa Alþýðusamband Íslands, reyna að búa til sérstakt sjómannasamband. Ég hygg, að hv. þm. Siglf. sé ekki svo fáfróður, að hann viti ekki, að víða um lönd er það svo, að auk þess sem félögin eru öll í allsherjarverkalýðssamtökum, þá eru til landssambönd fyrir hverja stétt. Þannig er það á Norðurlöndum, Bretlandi og víðar. Á Norðurlöndum er landssamband sjómanna, og auk þess eru sjómannafélögin í allsherjarsambandi verkalýðsins. Þessu er ekki til að dreifa hér á landi, og því er eðlilegt af mörgum ástæðum, að Sjómannafélag Reykjavíkur tilnefni einn mann í þessa n. Það er elzta sjómannafélag landsins, eftir því sem ég bezt veit, er nú 32 ára og hefur verið forystufélag innan sjómannasamtakanna um langt árabil. Þetta félag hefur rekið starfsemi sína eftir venjulegum reglum verkalýðsfélaganna með mesta myndarskap og ágætum árangri. Að mínu viti er það, og ég þekki vel til þess, eitt bezta félag í Alþýðusambandi Íslands og eitt af bezt skipulögðu félögum innan sambandsins. Er því mjög eðlilegt, þar sem ekki eru til heildarlandssamtök meðal sjómannastéttarinnar, að leitað sé til þess félags, sem bæði er elzt og mannflest og bezt skipulagt af öllum sjómannafélögum í landinu. Ég álit, að það þurfi ekki að verja fleiri orðum til rökstuðnings þessa máls, svo mjög sem mér finnst þetta liggja í augum uppi. Það er út af fyrir sig ekki nauðsynlegt, að fulltrúar neytenda séu allir valdir af hálfu landssamtaka, heldur er hitt aðalatriðið, að tryggt sé, að þeir séu valdir af þeim samtökum, sem hafa verulegra hagsmuna að gæta í þessu máli og vita, hvar skórinn kreppir að meðal neytenda í landinu, og það vita kannske engir betur en sjómenn og í Sjómannafélagi Reykjavíkur eru, eins eg ég hef tekið fram, menn af íslenzkum togurum, menn af mótorbátum, menn af mótorskipum og allt þar á milli. Félagar úr Sjómannafélagi Reykjavíkur stunda sjómennsku allt í kringum Ísland. Ég tel því, að ekki sé hægt að fá betri fulltrúa til þess að velja mann úr sjómannahópi en mann úr Sjómannafélagi Reykjavíkur og tel ákvæði þetta bæði eðlilegt og sjálfsagt.

Úr því að ég stóð upp, vil ég geta þess út af gagnrýni á lokaúrskurðarvaldi þriggja tiltekinna manna, ef ekki verður samkomulag milli fulltrúa neytenda og bænda, að þar sé um að ræða eins konar gerðardóm — út af því vil ég geta þess, að hæstv. landbrh. hefur í ræðum sínum, sérstaklega í frumræðu sinni, útskýrt þetta rækilega, og læt ég nægja að vísa til þess. Hér er um að ræða menn, sem hafa það með höndum að fara með eins konar umboð tveggja aðila í landinu, annars vegar framleiðenda landbúnaðarafurða og hins vegar kaupenda landbúnaðarafurða, sem eiga að semja sín á milli, og ef þeir verða að lokum ósáttir, er það óháður aðili, talnafróður maður, sem á að fylgjast með öllu og á þá að vera oddamaður, ef í odda skerst á annað borð. Þetta á því ekki skylt við neinn gerðardóm, en sýnist eftir þeim ástæðum, sem hér liggja fyrir, ekki óeðlilegt.

Þessi orð vildi ég láta falla, en sé ekki ástæðu til að ræða frv. að öðru leyti, því að eins og hæstv. landbrh. hefur tekið fram, er það í fullu samræmi við það samkomulag, er gert var milli þeirra stjórnmálaflokka, sem standa að núverandi ríkisstj.